Í víking á hertrukk til Afríku

Garry Taylor ásamt Bedford trukknum sem verið er að græja …
Garry Taylor ásamt Bedford trukknum sem verið er að græja fyrir ferðina. KRISTINN INGVARSSON

Í janúar á næsta ári ætlar sextán manna hópur að leggja af stað frá Reykjavík áleiðis til Höfðaborgar í Suður-Afríku, en um er að ræða sex mánaða ferðalag, þar sem ferðast verður um vesturhluta Afríku. Gengur ferðin undir nafninu „Víkingar á leið í gegnum Afríku“ (e. Vikings across Africa). Farið verður í gegnum tvær eyðimerkur, hitabeltisskóga og 14 til 20 lönd í álfunni til viðbótar við keyrslu gegnum Evrópu. Í ferðinni verður keyrt um á gömlum breskum hertrukk, en verið er að gera hann upp og græja fyrir ferðina.

Farið tvisvar í svona ferðir

Heilinn á bak við þessa ferð er Garry Taylor, en hann er Breti sem búsettur er á Íslandi. Hann flutti hingað árið 2009, en hann hafði áður farið í svona ferð á tíunda áratugnum með hópi fólks frá Bretlandi og víðar. Eftir að hann kom til Íslands kviknaði áhugi hans að fara í svipaða ferð aftur og árið 2013 var lagt af stað. Í þeirri ferð var fjöldi leiðangursmanna til helminga Íslendingar og útlendingar.

Frá ferðinni árið 2013. Samskonar trukkur verður notaður í næstu …
Frá ferðinni árið 2013. Samskonar trukkur verður notaður í næstu ferð.

Taylor segir í samtali við mbl.is að skipulagning fyrir svona ferð hafi tekið gífurlega mikinn tíma, enda sé um að ræða mikið af afskekktum stöðum, flóknu ferli vegabréfaáritana og annað slíkt. Nú, tveimur árum seinna hafi hann ákveðið að nýta þessa þekkingu sína til að gera fleirum kleift að fara í svona epíska ferð yfir heila heimsálfu.

Sjálfur mun Taylor ekki fara í ferðina, en hann og kærastan hans hafa haldið utan um allt skipulag og munu sjá um að aðstoða við vegabréfsáritanir, bæði áður en haldið er af stað og meðan ferðin stendur yfir. Þá vinnur hann að því að gera bílinn tilbúinn til ferðarinnar. Segir hann þetta því ekki ólíkt því að sjá um litla sérhæfða ferðaskrifstofu.

Leiðangursstjórinn búið víða í Afríku hálfa ævina

Bíllinn sem verður notaður til ferðarinnar er breskur hertrukkur af gerðinni Bedford frá áttunda áratugnum. Taylor segir að þar sem að um hertrukk sé að ræða sé hann lítið keyrður og þá hafi svipaðir bílar verið notaðir í þær tvær ferðir sem hann fór í, auk þess sem þeir eru mjög vinsælir hjá öðrum svipuðum hópum. Þannig sé bæði auðvelt og ódýrt að gera við þá sem geri þá að besta kostinum fyrir þessa tegund ferða.

Trukkurinn kominn með húsið.
Trukkurinn kominn með húsið. KRISTINN INGVARSSON

Búið er að ráða leiðangursstjóra í ferðina, en hann heitir Frazer Murray og er breskur. Hann hefur búið hálfa ævina á nokkrum stöðum í Afríku og farið í þó nokkrar ferðir sem þessa áður að sögn Taylors. Með honum verður svo aðstoðar leiðangursstjóri sem er menntaður bifvélavirki og mun annast Bedford trukkinn ef þurfa þykir.

Ævintýri í afskekktri og ósnortinni náttúru

Ferð sem þessi er háð fjölmörgum óvissuþáttum og segir Taylor að margt geti komið upp á meðan ferðin standi yfir. Þannig sé ekki ólíklegt að breyta þurfi ferðaáætlun ef fyrirséð er að erfitt geti verið að fá vegabréfaáritun á einum stað. Hann segir það aftur á móti gera ferðina að enn meira ævintýri og þá sé vesturströnd Afríku mun afskekktari og ósnortnari en t.d. austurströndin, þar sem ferðir eins og þessi eru einnig vinsælar.

Landamæraskilti frá 1910

Nefnir hann sem dæmi að á einum stað sé farið í gegnum svo afskekkt hérað að taka þurfi vistir fyrir fimm daga, en enga búsetu, fólk eða innviði sé að finna á mjög stóru svæði. Þetta sé við landamæri Austur-Kongó, en þar er jafnframt að finna skilti sem á stendur „Velkomin til Belgísku-Kongó“ á annarri hliðinni og „Velkomin til Frönsku-Kongó“ á hinni. Þess ber að geta að Franska-Kongó var síðast ríki árið 1910. Það sé því ljóst að það séu ekki margir á ferli þarna.

Gist verður í tjöldum á leiðinni.
Gist verður í tjöldum á leiðinni.

Ekki hægt að búast við sturtu á hverjum degi

En þykir ferðalag sem þetta ekkert hættulegt og þurfa ferðalangar að hafa eitthvað sérstakt í huga fyrir ferðina? Taylor segir að í raun sé ferðalagið sem slíkt ekki hættulegt. Hópurinn sé með mjög reyndan farastjóra og ef eitthvað komi upp á, þá verði alltaf valin leið fram hjá þeim löndum þar sem eitthvað óvænt gæti komið upp í. Varðandi hvað ferðalangar þurfi að uppfylla segir hann að allir þurfi að vera yfir 18 ára.

Þá ferðist hópurinn saman í hálft ár í sama bílnum. Það verði því allir nánir vinir að ferðalaginu loknu, en að nauðsynlegt sé fyrir fólk að geta náð vel saman. Þá segir hann að fólk geti ekki búist við sturtu á hverjum degi, jafnvel í nokkrar vikur í senn, en að hægt verði að skola af sér í ám og lækjum á leiðinni. Hópurinn mun gista í tjöldum á flestum stöðum, en einnig verður á einhverjum stöðum gist á gistiheimilum eða á afmörkuðum svæðum hótela.

Ævintýri í anda Indiana Jones

Hverju á fólk svo að búast við úr svona ferð, hvað er helsta aðdráttaraflið? Taylor ítrekar að honum finnist það að koma á mjög afskekkta staði mest aðlaðandi. „Þú munt sjá hluta heimsins þar sem eru engir ferðamenn,“ segir hann. Taylor segir ferðina í raun vera drauma ævintýri í anda Indiana Jones þar sem farið sé um fáfarnar slóðir, auk þess sem komið sé við samfélögum sem flestir hafi aldrei upplifað áður. „Við munum fara í gegnum þrjár eyðimerkur ef við teljum íslensku sandana sem eyðimörk,“ segir Taylor. Þá verður mikill hluti ferðarinnar í frumskógum og segir hann að algengt sé að horfa á apa hoppa upp í trjánum meðan maður er sofandi víða á ferðalaginu. Á fyrsta hluta ferðarinnar í Afríku verður svo stoppað í Bedúína búðum í Marokkó, en slíkt er að hans sögn töluverð upplifun.

Gróf ferðaáætlun, sem reyndar er tekið fram að muni örugglega …
Gróf ferðaáætlun, sem reyndar er tekið fram að muni örugglega breytast talsvert á leiðinni.

Byrjað var að selja sæti í ferðina í gær, en Taylor segir að strax hafi þrjú sæti selst og að ef allir þeir sem hafi sýnt ferðinni mikinn áhuga kaupi miða verði orðið uppselt eftir stutta stund. Verð á miða í ferðina er um 500 þúsund krónur, en til viðbótar við það má búast við um 100 þúsund krónum í vegabréfsáritanir og matarkostnaði upp á allavega 15 til 20 þúsund krónur á mánuði.

Aðspurður hvort að hann hafi ekki viljað fara með í þetta skiptið segir Taylor að hann vilji alltaf ferðast, en að hann vilji taka 2-3 ára frí áður en hann fari aftur í svona langt ferðalag á ný. Hann sé annars að skoða möguleikann á því að fá félaga sinn til að keyra bílinn til baka frá Suður-Afríku og ef það gangi upp geti vel verið að hann láti verða af því að fara aftur á næstu árum í svona ævintýri.

Kynna má sér þetta stóra ferðalag nánar á heimasíðu ferðarinnar.

Taylor kom hingað til lands árið 2009 og hefur síðan …
Taylor kom hingað til lands árið 2009 og hefur síðan farið í eina svona hálfs árs ferð til Afríku. Nú sér hann um skipulagið fyrir næstu ferð. KRISTINN INGVARSSON
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert