Samningar áritaðir og sendir til Alcoa

Lokið er yfirferð yfir samningstexta samninganna sem gerðir hafa verið á milli Alcoa og Landsvirkjunar, ríkisins og Fjarðabyggðar og hafa samningarnir verið sendir til höfuðstöðva Alcoa í Bandaríkjunum til áritunar.

Samninganefndir íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar og Fjarðabyggðar hafa þegar áritað fyrirliggjandi samninga og voru allar líkur taldar á því að fulltrúar Alcoa myndu árita samningana í gær. Áritun samninganna er fyrst og fremst formsatriði skv. upplýsingum Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, en stjórnir Landsvirkjunar og Alcoa fjalla síðan um málið í heild sinni í fyrri hluta janúar. Er að því stefnt að öllu óbreyttu aðsamningar verði formlega undirritaðir fyrir lok janúar.

Stjórn Landsvirkjunar kom saman til fundar sl. föstudag þar sem útreikningar á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar voru kynntir. Þeir hafa verið unnir af starfsmönnum fyrirtækisins og Yngva Harðarsyni, hagfræðingi hjá Ráðgjöf og efnahagsspám ehf.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði engar ákvarðanir hafa verið teknar á fundinum, enda hefði hann fyrst og fremst verið til upplýsingar. Hann vildi ekki upplýsa um arðsemisútreikningana en sagði aðeins að "ekkert óvænt" hefði komið þar fram sem kollvarpaði áformum Landsvirkjunar um að virkja við Kárahnjúka og selja orku til álvers Alcoa í Reyðarfirði. Hann sagði stjórn fyrirtækisins næst mundu koma saman upp úr áramótum en hún hefur sett sér það markmið að 10. janúar nk. verði hún búin að komast að niðurstöðu um orkusölusamninginn við Alcoa, sem hefur nú verið áritaður. Um líkt leyti kemur stjórn Alcoa saman í Bandaríkjunum af sama tilefni.

Jóhannes Geir sagði yfirferð tilboða í stíflu og aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar einnig hafa komið til tals á fundinum. Hann sagði þá vinnu ganga samkvæmt áætlun en starfsmenn ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo, sem átti lægsta tilboð í verkið, hafa verið hér á landi að undanförnu til að fara yfir tilboðið ásamt starfsmönnum Landsvirkjunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert