Leikskólastjórar hvattir til að takmarka innritun barna

Stjórn Félags leikskólakennara hvetur leikskólastjóra til að takmarka innritun nýrra barna og grípa hiklaust til aðgerða vegna starfsmannaskorts á leikskólum, s.s. með því að loka deildum og stytta opnunartíma leikskólanna þegar ekki verður öðru komið við, að því er segir í fréttatilkynningu.

Þá segir að félagið hafi margsinnis lýst því yfir að mannekla sé með öllu óviðunandi fyrir börn og starfsfólk. Slíkt ástand rýri skólastarfið og hreki hæft starfsfólk í burtu, auk þess sem veruleg óþægindi skapist og óöryggi meðal foreldra. Í tilkynningunni er enn fremur bent á að starfsmannaskorturinn sé árlegt vandamál sem verði fyrst og fremst leyst með því að hækka verulega laun leikskólakennara og annarra sem í leikskólum starfa. Loks segir að þetta sé staðreynd sem yfirvöld verði að viðurkenna nú þegar og bæta úr er kjarasamningar verða gerðir um næstkomandi áramót.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert