"Óhjákvæmilegt er að taka á málinu"

Skipaður hefur verið 50 manna starfshópur innan Framsóknarflokksins og er honum ætlað að endurskoða afstöðu flokksins í Evrópumálum. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir óhjákvæmilegt að flokkurinn fjalli ítarlega um málið.

Ráðgert er að starfshópurinn skili skýrslu fyrir næsta flokksþing sem haldið verður í miðjum marsmánuði. Þetta kom fram á fundi landsstjórnar og þingflokks flokksins í Hrafnagili í Eyjafirði í gær.

Utanríkisráðuneytið skilaði sem kunnugt er skýrslu um Evrópumál á síðasta ári. "Sú skýrsla er að mínu viti tilefni fyrir ýmis samtök í landinu til að fjalla um þessi mál; samtök atvinnurekenda, verkalýðshreyfingu, neytendasamtök og fleiri," segir Halldór.

Hann segist einnig telja að skýrslan sé góður grundvöllur fyrir stjórnmálaflokkana til að taka á málunum. "Í henni voru engar pólitískar niðurstöður og nú er það verkefni stjórnmálamanna með hvaða hætti við mætum þróuninni. Ég tel óhjákvæmilegt að Framsóknarflokkurinn taki á þessu máli," segir Halldór Ásgrímsson.

Halldór segist telja að nefndin endurspegli þjóðfélagið vel, en innan hennar er fólk úr öllum atvinnugreinum, verkalýðshreyfingunni og sveitarstjórnum.

Opnuð verður spjallrás á Netinu

Starfshópurinn mun funda, bæði í heild sinni og undirhópum, auk þess sem komið verður á sérstakri lokaðri spjallrás á Netinu til að auðvelda starfið. "Með þessu erum við að reyna að endurskipuleggja flokksstarfið. Ég reikna með því að farið verði út í stefnumótunarvinnu með þessu móti í fleiri málaflokkum og nýjasta tækni þannig nýtt," segir Halldór.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert