Slökkva í síðustu glæðunum á morgun

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. AFP/Liselotte Sabroe/Ritzau Scanpix

Slökkviliðið í Kaupmannahöfn áætlar að ná að slökkva í síðustu glæðunum í Børsen á morgun. 

Viðbragðsaðilar vinna nú að því að bjarga því sem hægt er og tekur því slökkvistarfið lengri tíma en ella.

Byggingin er ein sú sögufrægasta í Kaupmannahöfn en hún var reist á 17. öld í hjarta borgarinnar. 

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Helmingur byggingarinnar brann

Vinna stóð yfir við endurbætur á húsnæðinu, sem átti að ljúka á 400 ára afmæli byggingarinnar, þegar eldurinn kom upp á áttunda tímanum í gærmorgun. 

Tókst slökkviliðinu að ná tökum á eldsvoðanum um fjögurleytið í gær. Var þá helmingurinn byggingarinnar brunninn til kaldra kola. 

Enn er óljóst hvort byggingin verði endurreist en það er í höndum eiganda hennar, viðskiptaráðs Danmerkur, að skera úr um það.

Tókst að bjarga verðmætustu mununum

Fjöldinn allur af málverkum og sögufrægum munum voru í byggingunni þegar eldurinn braust út. 

Á myndskeiðum mátti sjá fólk hlaupa inn í brennandi bygginguna og út með muni. Enn er á huldu hvaða verðmætum tókst að bjarga.

Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóri viðskiptaráðsins, var einn þeirra sem tók þátt í verðmætabjörguninni.

Að sögn Brians tókst þó að bjarga því allra verðmætasta.

„Ég held að okkur hafi tekist að bjarga því helsta,“ sagði hann í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert