Ósáttir við 710 milljóna bætur

Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen sat …
Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen sat saklaus í fangelsi í 20 ár og hefur nú fengið úrskurð um hæstu skaðabætur til einstaklings í sögu Noregs. Þeir lögmaður hans, Brynjar Meling, hyggjast ekki una úrskurðinum og krefja norska ríkið um upphaflega kröfuupphæð, 90 milljónir norskra króna. Ljósmynd/Úr einkasöfnum

Norski hæstaréttarlögmaðurinn Brynjar Meling er langt í frá ánægður með þá niðurstöðu borgararéttindastofnunar norska dómsmálaráðuneytisins, Statens sivilrettsforvaltning, að ákvarða Viggo Kristiansen, sem sat saklaus í fangelsi hálfa ævi sína vegna hins óhugnanlega Baneheia-máls, 55 milljónir norskra króna í bætur í kjölfar 90 milljóna króna kröfu.

Úrskurðuð upphæð, 55 milljónir, samsvarar 710 milljónum íslenskra króna en umbeðnar 90 milljónir eru tæplega 1,2 íslenskir milljarðar. Milljónirnar 55 eru hæsta bótaupphæð sem norska ríkinu hefur verið gert að greiða einstaklingi.

Meling og Kristiansen hyggjast engu að síður leggja fram nýja kröfu og krefjast mismunarins en mbl.is spurði John Christian Elden, lögmann og einn annálaðasta verjanda Noregs, sem sjálfur hefur náð fram umtalsverðum bótaupphæðum um dagana, út í bæturnar til Kristiansens. Eru þær of lágar?

„Nú hefur ríkið úrskurðað um hæstu bótaupphæð í sögu Noregs, hvort upphæðin teljist fullnægjandi fyrir að ræna einstakling lífi sínu er eitthvað sem ekki er auðvelt að svara,“ segir Elden. „Bótaupphæðir í skaðabótamálum eru aldrei ákvarðaðar út frá bótakröfunni heldur því hvað dómstóll telur hæfilegt. Ég giska á að þetta mál fari fyrir dómstóla.“

Upp komast svik um síðir

Kristiansen hlaut árið 2002 þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa, 21 ár, fyrir nauðgun og manndráp vorið 2000 þegar þær vinkonur Lena Sløgedal Paulsen, tíu ára, og Stine Sofie Sørstrønen, átta ára, voru myrtar á hrottalegan hátt í kjölfar nauðgunar eftir að hafa fengið sér sundsprett í Baneheia, vinsælu útivistarsvæði í Kristiansand í Suður-Noregi.

Jan Helge Andersen hlaut 19 ára dóm fyrir að hafa myrt yngri stúlkuna og kvað Kristiansen hafa lagt á ráðin um ódæðið og sannfært Andersen um að fremja það með honum. Þegar tækni í erfðarannsóknum fleygði fram þótti það sannað svo óyggjandi væri að Kristiansen væri saklaus og Andersen hefði verið einn að verki.

Hefur Andersen nú verið ákærður á nýjan leik en gæti að hámarki hlotið tveggja ára dóm, mismuninn á dæmdum 19 árum og hámarksrefsingunni 21 árs fangelsi. Einnig krefur Kristiansen hann um bætur fyrir rangar sakargiftir.

NRK

NRKII (Andersen yfirheyrður á ný)

Dagbladet

Nettavisen

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert