„Ég myndi alls ekki fljúga Max-flugvél“

Maður gengur fram hjá flugvél United Airlines, Boeing 737 MAX …
Maður gengur fram hjá flugvél United Airlines, Boeing 737 MAX 8, í Washington. AFP/Jason Redmond

Bandarísku flugfélögin Alaska Airlines og United Airlines hófu um síðustu helgi að fljúga sumum af Boeing Max 9-flugvélum sínum.

Bandarísk flugmálayfirvöld kyrrsettu 170 flugvélar af þessari tegund eftir að hleri fór af Max 9-vél Alaska Airlines í háloftunum. Í síðustu vikur gáfu þau grænt ljós á að hægt væri að taka vélarnar aftur í notkun.

Þrátt fyrir þetta græna ljós telja sumir enn rétt að hafa varann á þegar kemur að Max-vélum en tvær slíkar af tegundinni Max 9 hröpuðu árin 2018 og 2019 þar sem 346 manns fórust.

„Ég myndi alls ekki fljúga Max-flugvél,” sagði Ed Pierson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Boeing, í samtali við LA Times.

„Ég hef unnið í verksmiðjunni þar sem þær voru smíðaðar og ég sá þrýstinginn sem starfsmennirnir voru undir til að koma flugvélunum í snatri út um hurðina. Ég reyndi að stöðva þau fyrir fyrsta flugslysið,” sagði hann.

Flugvél Alaska Airlines í ríkinu Kaliforníu.
Flugvél Alaska Airlines í ríkinu Kaliforníu. AFP/Justin Sullivan

„Ég myndi segja fjölskyldunni að forðast Max. Ég myndi segja öllum það, í raun og veru,” sagði Joe Jacobsen, fyrrverandi verkfræðingur hjá Boeing og bandarískum flugmálayfirvöldum.

Sérfræðingar í flugöryggi hafa bent á að atvikið þegar hlerinn fór af vél Alaska Airlines sé eingöngu nýjasta dæmið um djúpstæðari vandamál hjá Boeing. Þörf sé á breytingu hvað varðar menninguna innan fyrirtækisins.

Pierson sagði endurkomu Max 9 í háloftin vera „enn eitt dæmið um lélega ákvarðanatöku og hún setur öryggi almennings í hættu”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert