Telja sig hafa fundið hlerunarbúnað

Varnarmálaráðherra Póllands, Wladyslaw Kosiniak-Kamysz.
Varnarmálaráðherra Póllands, Wladyslaw Kosiniak-Kamysz. AFP/Wojtek Radwanski

Leyniþjónusta Póllands hefur uppgötvað búnað í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar sem talinn er vera hlerunarbúnaður. Búnaðurinn uppgötvaðist í borginni Katowice í suðurhluta landsins í dag. 

Pólland, sem er aðildarríki að NATO, hefur að undanförnu verið skotmark rússneskra njósnara.

Talsmaður leyniþjónustunnar, Jacek Dobrzynski tjáði sig um fundinn á X, áður þekkt sem Twitter.

Þar sagði hann að leyniþjónustan hefði uppgötvað og fjarlægt tæki sem hafa mögulega verið notuð til að hlera samtöl í herbergi þar sem ríkisstjórnin mun hittast í dag.

Seinna greindi hann frá því í samtali við TVN24 að búnaðurinn gæti tekið upp hljóð og myndskeið.

Óljóst hvenær búnaðurinn var settur upp

Varnarmálaráðherra Póllands, Wladyslaw Kosiniak-Kamysz, sagði við TVN24 að verið er að rannsaka málið, en erfitt væri að segja um hvenær þessi tæki hafi verið sett upp.

Hann kaus að tjá sig ekki um uppruna þeirra en sagði að þau hefðu fundist við reglulega leit sem er framkvæmd fyrir alla fundi.

Atvikið átti sér stað daginn eftir að pólskur dómari flúði til Hvíta-Rússlands og er sagður hafa leitað hælis þar vegna ásakana um njósnir. Neitar hann þeim ásökunum. Saksóknari rannsakar málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert