Myndskeið: Dynkur heyrðist og súrefnisgrímur féllu niður

Vélin nauðlenti skömmu eftir að neyðarástand skapaðist.
Vélin nauðlenti skömmu eftir að neyðarástand skapaðist. AFP

Farþegar Boeing 737 Max 9 vélar Alaska Airlines heyrðu dynk áður en súrefnisgrímur féllu niður í flugi þeirra á leið til Kaliforníu.

Þá hafði myndast stórt gat á vélinni, sem einn farþegi taldi á stærð við ísskáp, og blés vindur á farþega sem sátu gatinu næst. Tvennum sögum fer af því hvort farþegar hafi setið í sætaröð við gatið.

Peysan sogast út um gluggann

Farþegar lýsa hörmulegri reynslu í samtali við fréttastofu BBC.

„Ég heyrði að strákur hefði setið í röðinni við gatið og að peysan hans hefði sogast út um gluggann. Móðir hans hélt fast í hann til þess að hann færi ekki með,“ segir Evan Smith, einn þeirra 171 farþega sem voru um borð í vélinni. Farþeginn Diego Murillo sagði að gatið hefði verið um það bil á breidd við ísskáp.

Elizabeth Lee, sem var einnig um borð í vélinni sagði: „Það vantaði hluta af vélinni og blés vindur inn í vélina með miklum látum. En allir héldu ró sinni og voru í sætum sínum með belti.“

Þá sagði farþeginn Jessica Montoia ferðin hafi verið „frá helvíti“ og að maður hefði misst símann sinn út um gatið í látunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert