Leverkusen getur ekki tapað - komið í úrslitaleikinn

Leikmenn Leverkusen fagna sjálfsmarkinu sem færði þeim sæti í úrslitaleik …
Leikmenn Leverkusen fagna sjálfsmarkinu sem færði þeim sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. AFP/Ina Fassbender

Þýska knattspyrnuliðið Bayer Leverkusen náði að forðast fyrsta tapið á keppnistímabilinu á ótrúlegan hátt og mætir Atalanta frá Ítalíu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar síðar í þessum mánuði.

Leverkusen fékk Roma frá Ítalíu í heimsókn og var í þægilegri stöðu eftir útisigur í fyrri leiknum í Rómarborg, 2:0.

En Rómverjar svöruðu fyrir sig í Þýskalandi og Leandro Paredes skoraði fyrir þá úr tveimur vítaspyrnum á 43. og 66. mínútu.

Þar með var staðan orðin 2:2 samanlagt og útlit fyrir framlengingu. 

En Leverkusen hafði heppnina með sér þegar Ítalirnir skoruðu sjálfsmark eftir hornspyrnu á 82. mínútu. Það hefði nægt Leverkusen til að vinna einvígið samanlagt en á sjöundu mínútu uppbótartímans jafnaði Josip Stanisic eftir sendingu frá Granit Xhaka. Lokatölur voru 2:2, Leverkusen er enn þá ósigrað og vann einvígið 4:2.

Leverkusen hefur nú slegið Evrópumetið í félagsliðafótbolta með því að spila 49 leiki í öllum mótum án þess að tapa. Benfica frá Portúgal var taplaust í 48 leikjum í röð á árunum 1963 til 1965.

Sannfærandi hjá Atalanta

Atalanta vann Marseille frá Frakklandi sannfærandi á Ítalíu, 3:0, í hinum leik kvöldsins en fyrri leikurinn í Frakklandi endaði 1:1.

Ademola Lookman kom Atalanta yfir á 30. mínútu og lagði upp mark fyrir Matteo Ruggeri á 62. mínútu. El Bilal Touré innsiglaði síðan sigurinn í uppbótartíma, 3:0, eftir að hafa komið inn á sem varamaður fyrir Lookman.

Úrslitaleikur Leverkusen og Atalanta fer fram í Dublin 22. maí. 

Leverkusen er þegar orðið þýskur meistari og mætir B-deildarliði Kaiserslautern í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert