Assange leyft að giftast á bak við lás og slá

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. AFP

Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, hefur verið veitt leyfi til þess að gifta sig í Belmarsh-fangelsinu í Lundúnum. Assange á börn með lögfræðingnum Stellu Morris og munu þau ganga í það heilaga innan veggja fangelsisins.

Frá þessu er greint frá í The Guardian.

Assange hefur verið í fangelsi í Lundúnum frá árinu 2019, þegar Bandaríkjamenn reyndu að fá hann framseldan. Áður hafði hann þegið pólitískt hæli í sendiráði Ekvador í borginni. Þar dvaldi hann árum saman án þess að stíga fæti út fyrir hússins dyr. Það var þá sem Assange og Morris kynntust og eiga þau í dag tvö börn saman.

„Beiðni Assange var móttekin, metin og úr henni var unnið á venjubundinn hátt af fangelsismálastjóra, eins og væri með beiðni hvaða fanga sem er,“ segir talsmaður fangelsismálastofnunar í Bretlandi.

„Mér er létt að heyra að skynsemin skuli hafa sigrað í þessu máli og ég vona að það verði ekki reynt frekar að hafa áhrif á hjónaband okkar,“ segir Morris í viðtali um málið.

Stella Moris, lögfræðingur og unnusta Assange.
Stella Moris, lögfræðingur og unnusta Assange. AFP

Mögulega framseldur til Bandaríkjanna

Samkvæmt lögum í Bretlandi verða brúðkaup fanga að fara fram innan veggja fangelsisins og því mun það gilda um brúðkaup þeirra Assange og Morris.

Assange er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir njósnir og ljóst að þar í landi á hann yfir höfði sér þunga dóma fyrir uppljóstranir á vettvangi WikiLeaks.

Framsalsferli Assange frá Bretlandi til Bandaríkjanna er enn til meðferðar breskra dómstóla. Dómari hefur þegar fellt dóm um að Assange skuli ekki framseldur, en lögmenn bandarískra stjórnvalda gáfu í skyn strax og það varð ljóst, fyrr á þessu ári, að þeir myndu áfrýja málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert