Bragð frá Baskalandi

Steinþór, Davíð og Glódís reka spænska veitingastaðinn með íslenska nafnið; …
Steinþór, Davíð og Glódís reka spænska veitingastaðinn með íslenska nafnið; Skreið. mbl.is/Ásdís

Á veitingastaðnum Skreið á Laugavegi er sannkölluð basknesk stemning. Pintxos, sem líkist tapas, eru bragðgóðir smáréttir tilvaldir til að deila.

Lítið kósíhorn er við innganginn þar sem hægt er að …
Lítið kósíhorn er við innganginn þar sem hægt er að kaupa sérvaldar vörur frá Spáni og fá sér einn drykk í leiðinni. mbl.is/Ásdís

Í gömlu húsi í hjarta miðbæjarins má finna veitingastaðinn Skreið sem sérhæfir sig í réttum frá Spáni og þá sér í lagi frá Baskalandi. Innan dyra er notaleg stemning í spænskum anda.

Baskneska þemað kærast

„Við erum nýbúin að halda upp á eins árs afmælið okkar. Það hefur gengið rosalega vel. Við erum komin með marga fastakúnna og af einhverjum ástæðum eru 95% af okkar kúnnahópi heimamenn,“ segir Davíð Örn Hákonarson, yfirkokkur og einn eigenda Skreiðar.

„Fyrir tveimur árum komu að máli við mig Steinþór Arnsteinsson og Ásgeir Guðmundsson, meðeigendur mínir sem einnig eiga Röntgen á Hverfisgötu. Hugmynd þeirra var að opna spænskan veitingastað og við byrjuðum að þróa hugmyndina með Glódísi Guðgeirsdóttur, konu Steinþórs sem er einn af máttarstólpunum hér. Baskneska þemað var okkur kærast. Þeirra sérstaða er pintxos, sem er þeirra tapas og má ekki rugla saman; þó það sé líkt.“

Róbert Demirev og Davíð Örn á góðri stundu í eldhúsinu.
Róbert Demirev og Davíð Örn á góðri stundu í eldhúsinu. mbl.is/Ásdís

Tökum stundum áhættu

„Við strákarnir höfum farið nokkrar ferðir til Baskalands og sérstaklega til San Sebastian, sem er yndislegur staður til þess að fara að borða. Þar er mjög sérstök tapashefð,“ segir Davíð.

„Pintxo þýðir í raun matur á spjóti,“ segir Davíð og segir suma rétti þeirra borna fram á spjótum.

„Við skilgreinum okkur ekki einungis sem baskaveitingastað heldur notum aðferðir og rétti víða frá Spáni. Við reynum að nota einungis spænsk og fersk íslensk hráefni eftir árstíðum. Ibérico-grísinn okkar er fastur á seðli og eins saltfiskurinn sem við fáum frá Patreksfirði,“ segir Davíð og segist vera að setja Gazpacho-súpu á matseðilinn nú með hækkandi sól.

„Þetta er tómatagúrkusúpa og við vitum ekki hvernig hún leggst í landann. En við höfum verið að taka áhættu, eins og með ansjósurnar okkar. Við bjóðum líka upp á sardínur og chorizo-pulsur, en matargerðin okkar er nokkuð einföld. Við erum ekkert að flækja hlutina. Hugmyndin er að fólk deili réttum, sem er langskemmtilegast.“

Svínakjötið klikkar ekki á Skreið.
Svínakjötið klikkar ekki á Skreið. Ljósmynd/Sunna Ben

Fæ aldrei leiða á tapas

Davíð segir Íslendinga tilbúna til að smakka nýja rétti og eru þeir kokkarnir sífellt að breyta og bæta matseðilinn.

„Allt bragðast vel og sjálfur fæ ég aldrei leiða á tapas. Ætli mitt uppáhald sé ekki grillað chorizo með chimichurri og smá brauði á hliðinni. Það þarf ekki meira til að gleðja mig,“ segir Davíð og brosir.

„Við erum með opið alla daga nema mánudaga, í hádeginu og á kvöldin og auk matarins erum við með frábæra kokteila. Við bjóðum upp á tapas-seðil ásamt fiski dagsins og á laugardögum erum við með dögurð. Þar er brot af því besta. Einn geggjaður réttur hér á laugardögum er grillað brauð með bráðnuðum manchego-osti og tómatsúpu við hliðina á sem maður dýfir brauðinu ofan í,“ segir Davíð og gefur lesendum tvær góðar og auðveldar uppskriftir sem hægt er að spreyta sig á heima. Þetta eru sveppir og eggjarauða og Tomaca-brauð. 

Sveppir og eggjarauða.
Sveppir og eggjarauða. mbl.is/Ásdís
Tomaca-brauð.
Tomaca-brauð. Ljósmynd/Sunna Ben

Þrjár uppskriftir frá Skreið

Sveppir og eggjarauða 

  • tvær handfyllir sveppa að eigin vali
  • 1 egg – eggjarauðan skilin frá hvítunni
  • 1 msk. smátt söxuð steinselja
  • salt
  • 2 msk. OMED-ólífuolía – fæst á Skreið

Aðferð:

  1. Steikið sveppina á heitri pönnu í steikingarolíu í 2-3 mínútur, kryddið með salti og saxaðri steinselju.
  2. Setjið sveppina á disk með eggjarauðunni í miðjunni og hellið ólífuolíunni yfir. 

Tomaca-brauð

  • 1 dós San Marzano-tómatar
  • 1 stk. vel þroskaður tómatur
  • 1 tsk. tómatpúrra
  • ½ geiri hvítlaukur
  • ½ tsk Piment d‘espelette (Fæst í Hyalin)
  • svartur pipar
  • eplaedik – eða annað edik sem er hendi næst
  • salt

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í blandara og smakkið til með salti, pipar og ediki.
  2. Steikið súrdeigsbrauðsneið á báðum hliðum á meðalheitri pönnu þangað til hún er orðin gullinbrún. Komið brauðinu fyrir á disk og setjið nóg magn af sósunni á brauðið og toppið með góðri ólífuolíu og kryddjurtum eftir smekk.
  3. Einnig er hægt að bæta við Serrano-skinku og/eða Manchego-osti sem gerir brauðið enn betra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert