Hagen úrskurðaður í fjórar vikur

Svein Holden, verjandi Tom Hagen, í dómsal Héraðsdóms Nedre-Romerike í …
Svein Holden, verjandi Tom Hagen, í dómsal Héraðsdóms Nedre-Romerike í dag. AFP

Héraðsdómur Nedre-Romerike skammt frá Ósló úrskurðaði Tom Hagen fjárfesti, einn auðugasta mann Noregs, rétt í þessu í fjögurra vikna gæsluvarðhald með bréfa- og heimsóknabanni vegna gruns um að hafa ráðið eða látið ráða eiginkonu sína, Anne-Elisabeth Hagen, af dögum á haustdögum 2018.

Þinghaldið hófst klukkan tólf á hádegi í dag og stóð fram á kvöld sem er fáheyrt þegar gæsluvarðhaldsúrskurðir eru annars vegar í Noregi. Svein Holden, verjandi Hagen, segir málatilbúnað lögreglu ekki halda vatni.

Lokað þinghald

Aðstæður voru óneitanlega sérstakar við héraðsdóminn í dag, vegna kórónuveirunnar stóð fjölmiðlafólk fyrir utan bygginguna og fylgdist með útsendingu frá þinghaldinu um fjarfundabúnað. Klukkan 13 lagði ákæruvaldið fram þá kröfu að þinghaldið yrði lokað vegna viðkvæmra sönnunargagna sem ekki mættu fara víðar fyrr en við sjálf réttarhöldin. Féllst héraðsdómari á þetta og var fjarfundi fjölmiðlafólks þar með slitið.

Kvaðst ákæruvaldið næst mundu leggja fram gögn, sem Tom Hagen væri ekki kunnugt um og gætu haft áhrif á framburð hans við yfirheyrslur, svokölluð klausulerte dokumenter sem eru gögn sem verjanda er kunnugt um en hefur ekki kynnt skjólstæðingi sínum. Þar með var Hagen gert að yfirgefa dómsalinn á meðan dómara voru gerð gögnin kunn.

Svein Holden verjandi gekk út fyrir um kvöldmatarleytið og ræddi við fjölmiðla. Sagði hann málatilbúnað lögreglu þunnan þrettánda. „Ég endurtek bara það sem ég sagði fyrir þinghaldið, þetta er ákaflega mögur ástæða fyrir handtöku [...] Honum skyldi sleppt úr haldi. Samkvæmt tölfræðinni er grunuðum ekki sleppt við fyrsta gæsluvarðhaldsúrskurð í málum á borð við þetta. Það gerist nánast aldrei. En gerist það einhvern tímann ætti það að vera í þessu máli,“ sagði Svein Holden, verjandi fjárfestisins Tom Hagen, sem nú hefur fjögurra vikna einangrun, í samtali við norska fjölmiðla eftir að úrskurðurinn féll í kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert