Tveggja mánaða flandur um Nýja-Sjáland

Nokkur líkindi með landslaginu á norðureyju og því sem sást …
Nokkur líkindi með landslaginu á norðureyju og því sem sást í Hringadróttinssögu, þó ekki sé um alveg sama stað að ræða. Ljósmynd/Haukur Eggertsson

Það er ekki á hverjum degi sem fólk hefur möguleika á því að fara í langt ferðalag frá daglegum skyldum og vinnu. Þegar slíkt tækifæri gefst er þó mikilvægt að vanda valið vel þannig að upplifunin verði sem eftirminnilegust og ferðalagið sem skemmtilegast.

Hjólreiðakappinn Haukur Eggertsson lenti í þeirri stöðu í lok síðasta árs að eiga tvo til þrjá mánuði í frí á milli þess sem hann skipti um vinnustað. Stefnan var tekin á um tveggja mánaða hjólaferð og að nýta tækifærið og fara á fjarlægari slóðir en jafnan bjóðast. Hauki varð fljótt ljóst að þetta tækifæri kom ekki á besta tíma ársins þegar kemur að hjólaferðalögum, allavega ekki á norðurhveli jarðar. Tímaramminn var frá nóvember og út janúar og þó að einhverjir hjólaferðamenn sæki í að hjóla í snjó og vetraraðstæðum, þá segir Haukur að hann hafi frekar verið að horfa til aðeins þægilegra loftslags. „Þetta opnaði ákveðið tækifæri til að fara í langan túr og að ferðast langt,“ segir Haukur.

Sjálfur er hann ekki óvanur lengri ferðum og hefur nokkrum sinnum farið og hjólað í Evrópu, meðal annars tveggja mánaða ferð fyrir um áratug þegar hann fór frá Danmörku og niður á Íberíaskagann þar sem hann hjólaði hluta Jakobsstígsins. Þá er ótalinn mikill fjöldi ferða um hálendi Íslands á undanförnum áratugum, en engin innanlandsferðanna hefur komist nálægt því að vera talin í mánuðum.

Nýja-Sjáland eða Patagónía

Með vetrarmánuðina sem tímaramma segir Haukur að hann hafi fljótlega farið að horfa til tveggja svæða sem ákjósanlegra áfangastaða. Annars vegar Nýja-Sjálands og hins vegar Patagóníu í suðurhluta Suður-Ameríku. „Ástæðan fyrir því að ég valdi Nýja-Sjáland frekar en Patagóníu var að ég hefði þurft að undirbúa mig miklu betur fyrir Patagóníu,“ segir Haukur. Nefnir hann að þótt Nýja-Sjáland sé nokkuð stórt land miðað við Ísland og að þar sé fjöldi villtra svæða, þá sé venjulega mun styttra í siðmenninguna og þjónustu, meðan ferðalag um Patagóníu sé um mun víðfeðmari strjálbýlli svæði.

Stærð Nýja-Sjálands í fermílum er sú sama og stærð Íslands í ferkílómetrum, en það þýðir að Nýja-Sjáland er um 2,7-falt stærra en Ísland. Er Ísland í raun svipað að stærð og norðureyjan, sem er sú minni. Þar sem Haukur hafði um sjö og hálfa viku í að hjóla, auk nokkurra daga í ferðalagið sjálft til Nýja-Sjálands, var að hans sögn ljóst að hann hafði engan veginn tíma til að hjóla um allt, heldur þyrfti hann að velja svæði og þekkta hjólastíga sem hann vildi fara.

Fjölmargir bjóða upp á ókeypis gistingu fyrir hjólaferðalanga í gegnum …
Fjölmargir bjóða upp á ókeypis gistingu fyrir hjólaferðalanga í gegnum Warmshowers-síðuna og nýtti Haukur sér það á öðrum degi jóla hjá hollensku pari. Ljósmynd/Haukur Eggertsson

Hann kom til Nýja-Sjálands um miðjan nóvember eftir að hafa flogið í gegnum París og Guangzhou í Kína. Árstíðarlega jafngildir það miðjum maí á norðurhveli jarðar, en hlýrra verður á norðureyjunni, meðan suðureyjan teygir sig lengra frá miðbaug. Haukur segir að planið hafi því verið að fljúga til Auckland í norðri og byrja að hjóla suður á bóginn og vinna þannig gegn of mikilli hlýnun, auk þess sem landslagið á suðureyjunni heillaði hann talsvert meira. Þar er talsvert meira fjalllendi, en líka færra fólk og meira af afskekktum svæðum til að fara um. Fyrir áhugasama voru flestir mikilfenglegustu staðirnir þar sem Hringadróttinssaga var tekin upp á suðureyjunni. Norðureyjan er aftur á móti á köflum með einskonar hitabeltisskóga, en líka meiri ræktunarhéruð og þar var sögusvið fyrir Hérað í fyrrnefndum kvikmyndaflokki. Setti Haukur þá stefnu að verja sem mestum tíma á suðureyjunni.

Hann lýsir loftslaginu á þessum tíma sem mjög þægilegu en nokkuð ríflegu eftir því sem gerist hér yfir sumartímann. Það sé temprað loftslag eins og á Íslandi og aldrei verði eins heitt og inni í landi í Ástralíu til dæmis.

Hjólað suður

Þekkt hjólaleið liggur alla leið frá norðurenda norðureyjarinnar til suðurenda þeirrar syðri. Haukur vissi af þessari leið, en hafði einnig fyrir ferðina rannsakað aðrar þekktar hjólaleiðir sem hann var spenntari fyrir að fara. Voru nokkrar leiðir fjallahjólaleiðir sem taka sumar nokkra daga og reyndi hann að stilla því upp þannig að hann færi á milli slíkra fjallaleiða, sem í nokkrum tilfellum voru „single-track“, meðan hann væri að vinna sig suður á bóginn. Á meðan væru malbiksleiðirnar einskonar ferjuleiðir þar á milli.

Leiðin sem Haukur fór á Nýja-Sjálandi. Hann hóf ferð í …
Leiðin sem Haukur fór á Nýja-Sjálandi. Hann hóf ferð í Auckland og hjólaði svo suður meðfram vesturströndinni og svo aftur norður til Christchurch. Graf/mbl.is

Eins og áður var nefnt er talsvert um óbyggðir á Nýja-Sjálandi, en vegna þess hvernig eyjarnar eru byggðar upp segir Haukur að hann hafi aldrei þurft að vera með mat fyrir meira en þrjá daga í töskunum á hjólinu. „Maður er alltaf nær byggð en á hálendi Íslands þó maður sé í óbyggðum.“

Í þá rúmlega 50 daga sem Haukur var á ferðinni í Nýja-Sjálandi gisti hann þrisvar í fjallaskálum, fjórum sinnum á gististöðum og sjö sinnum í heimagistingu, en til eru samfélög hjólaferðalanga á netinu þar sem fólk býður upp á fría gistingu þegar fólk hjólar um svæðið. Hefur hann sjálfur boðið ferðalöngum sem eru á leið um Ísland upp á slíka gistingu heima hjá sér. Allar aðrar nætur gisti Haukur í tjaldi, en heimilt er að tjalda á opinberu landi, auk þess sem víða mátti finna tjaldsvæði.

„Suðureyjan stóð upp úr og var skemmtilegust,“ segir Haukur spurður út í hápunkta ferðarinnar. „Þar er miklu meira strjálbýli og miklu meiri óbyggðafílingur. Það eru samt mjög fínar hjólaleiðir á norðureyjunni, en það eru jafnan meira krefjandi leiðir á suðureyjunni.“

Við Wakatipu-vatn á suðureyju Nýja-Sjálands. Fjölmargar góðar hjólaleiðir eru um …
Við Wakatipu-vatn á suðureyju Nýja-Sjálands. Fjölmargar góðar hjólaleiðir eru um eyjuna og ferðaðist Haukur meira um suðureyjuna, enda er hún strjálbýlli og með fleiri og lengri óbyggðaleiðir en norðureyjan. Ljósmynd/Haukur Eggertsson

Slapp við föðurlandið

„Toppurinn var Old Ghost Road sem er single-track alla leið og stundum jafnvel óhjólanlegt,“ segir Haukur. Þar þurfti hann fyrsta daginn að klifra mjög mikið upp í lægsta gír, en seinni daginn var talsvert niður á við. Samtals er um að ræða 85 km leið í norðvesturhluta suðureyjunnar, en leiðin er bæði ætluð gangandi og hjólandi. Er að stórum hluta farið um fjallshlíðar, eða ofan á fjallshryggjum með gríðargóðu útsýni, líkt og sjá má í myndbandi sem fylgir í netútgáfu greinarinnar.

Haukur nefnir einnig Timber trail-leiðina, en það er önnur óbyggðaleið sem er á norðureyjunni. Segir hann það hafa komið sér á óvart hversu fáir hafi verið þar þegar hann fór um, en leiðin er mjög vinsæl göngu- og hjólaleið, en mögulega hafi það skipt máli að hann var þar á virkum dögum og ekki á miðju orlofstímabili.

Á þessum helstu óbyggðaleiðum segir Haukur að hann hafi fengið fínt veður og hitastig verið vel yfir 10°C yfir daginn, en hann fór í nokkur skipti í yfir 1.300 metra hæð. Á nóttunni á nokkrum stöðum gat þó orðið aðeins kaldara. „Ég velti því fyrir mér fyrir ferðina hvort ég ætti að taka með mér síðar hjólabuxur og ákvað að gera það. Þurfti svo aldrei að nota þær, en þær veittu mjög góða öryggistilfinningu þarna í óbyggðum og ég var farinn að velta fyrir mér í eitt skipti að skipta yfir í þær,“ segir Haukur. Nefnir hann einnig að tveimur vikum áður hafi hjólamaður sem hann heyrði af lent í snjókomu á efstu hlutum á einni leiðinni.

Í Nýja-Sjálandi eru margir þjóðgarðar og friðuð svæði að sögn Hauks og ljóst að landsmenn séu framarlega í þeim fræðum. Vakti sérstaka athygli hjá honum fjöldi stórra hengibrúa sem greinilega hafði verið varið umtalsverðum fjármunum í að koma upp til að auðvelda för gangandi og hjólandi. Hann hafi farið að velta fyrir sér af hverju ekki væri horft í sama mæli til þessara lausna á nokkrum stöðum á Íslandi, en svarið svo legið í augum upp og væru snjóþyngsli of mikil um vetur sem myndu valda hruni brúnna.

Haukur segist hafa náð að hjóla talsvert mikið utan helstu akvega og þar með forðast bílaumferðina sem mest. Þó hafi hann víða þurft að taka tengileiðir á milli áhugaverðra leiða með annarri umferð og svo hafi hann á vesturhluta suðureyjarinnar þurft að hjóla vel á annað hundrað km á eina veginum sem er við ströndina þeim megin. Þar hafi umferðin þó verið í minna lagi og í heildina segist hann ánægður með að umferðin hafi ekki verið rosalega mikil á þessu tímabili sem hann var á ferðinni.

Ein af fjölmörgum hengibrúm sem prýða þjóðgarða Nýja-Sjálands. Þessi er …
Ein af fjölmörgum hengibrúm sem prýða þjóðgarða Nýja-Sjálands. Þessi er á Timburslóðinni (Timer trail). Ljósmynd/Haukur Eggertsson

„Sonurinn þekkti mig ekki strax“

Eftir að hafa farið allskonar króka og hliðarleiðir á suðureyjunni á leiðinni suður á bóginn hélt hann aftur í norðurátt og endaði för sína í Christchurch, en það er stærsta borg suðureyjarinnar. Þaðan flaug hann svo aftur til Auckland og sömu leið aftur til Íslands. „Sonurinn þekkti mig ekki strax þegar ég kom aftur,“ segir Haukur hlæjandi. „Ég var orðinn svo vel skeggjaður.“

Það er samt eitt að hafa tíma til að fara í svona ferð, en hvað kostar hún? Haukur segir að þar sem hann hafi verið mjög sveigjanlegur með flugtíma hafi hann getað fundið ódýrari kost en ef hann hefði verið bundinn við ákveðnar dagsetningar. Þannig hafi hann fundið flug fram og til baka í gegnum París og Kína á samtals 230 þúsund krónur. Þá sé matur talsvert ódýrari í Nýja-Sjálandi en á Íslandi sem hafi mikið hjálpað til og eins og fyrr greinir frá voru flestar nætur í tjaldgistingu eða ódýru eða ókeypis gistirými.

Samtals var allur annar kostnaður en flugið rétt undir 450 þúsund krónum að sögn Hauks og þetta tveggja mánaða ferðalag alveg hinum megin á hnettinum í heildina tæplega 700 þúsund krónur.

Þægilegt land

Haukur hefur síðustu tvo áratugi notað ítrekað á ferðum sínum innanlands og erlendis gamlan og góðan jálk sem hefur nýst vel. Er um að ræða Wheeler 26“-fjallahjól með dempun að framan, sem er svo útfært með þægilegri gripum fyrir langferðir og festingum fyrir töskur á bögglabera að aftan og eina tösku framan á stýrinu. Hann segist alveg hafa hugsað um það að kaupa hjól úti í stað þess að ferðast með gamla hjólið út, eða þá að skilja gamla hjólið eftir í Nýja-Sjálandi, en að það sé eitthvað sem fái hann til að vilja halda áfram á hjólinu sem hefur reynst honum vel í gegnum tíðina.

Beðinn um að horfa aftur á ferðina og aðstæður í Nýja-Sjálandi fyrir ferðalag sem þetta segir Haukur að það sé í raun mjög þægilegt land til að ferðast um. „Það eru engin rándýr, hættulegar slöngur, krókódílar, stórar köngulær eða álíka sem finna má í Ástralíu. Það er mjög þægilegt að þurfa ekkert að pæla í því,“ segir hann en bætir þó við að í logni á kvöldin á suðureyjunni komi mývargur. „Þá endar maður inni í tjaldi og spreyjar á sig vörn.

Maður er því mjög öruggur og það er lítið um glæpi, sem reyndar er ekki almennt vandamál fyrir hjólaferðalanga. Maður er í vestrænu landi, það tala allir ensku, en örnefnin eru reyndar mörg á maórísku [tungumáli innfæddra] og eru oft erfið aflestrar,“ segir Haukur.

Mount Cook, hæsta fjall Nýja Sjálands sem er á Suðurey.
Mount Cook, hæsta fjall Nýja Sjálands sem er á Suðurey. Ljósmynd/Haukur Eggertsson

Það erfiðasta að hans sögn var að vera allan tímann í burtu frá syni sínum og sérstaklega yfir jólin. „Það er erfitt að komast í jólastemningu um mitt sumar og Nýsjálendingar taka jólin ekkert of hátíðlega, enda virka jólaljós til dæmis frekar furðulega svona yfir hásumar. Svo saknaði maður snáðans og hringdi reglulega heim,“ segir Haukur. Hann lenti reyndar í því veseni að síminn hans fór í nokkurra daga verkfall vegna bleytu á jóladag. „Það gerði hlutina ekki auðveldari.“

Yfirleitt var Haukur hjólandi í 5 klukkustundir á dag, stundum aðeins lengur og stundum í styttri tíma. Hann segir það meginreglu sína þegar hann er einn á ferð að einn þriðji hluti tímans frá því að lagt er af stað á morgnana þangað til komið er á næturstað fari í annað en að hjóla. Ef hann hjólar því í 6 klukkustundir fara 3 klukkustundir í stopp, að skoða áhugaverða staði, hvíld og að versla. Það þýðir 9 klukkustundir á milli svefnstaða og 15 klukkustundir til að sofa og slappa af á kvöldin og undirbúa sig á morgnana.

Haukur segir að með þessu móti nái hann að halda takti nokkuð vel þótt ferðalagið verði langt. „Þá er maður aldrei búinn og dettur bara í þægilegan takt.“

Spurður hvort hann sé með þessari ferð búinn með langferðakvótann í bili svarar Haukur því neitandi en tekur fram að svona frí detti ekki af himnum ofan og sér finnist ólíklegt að hann komist aftur á allra næstu árum í svipað ævintýri. „En þá væri Patagónía líklegust,“ segir hann. „Ég nenni ekki að fara í langt flug fyrir örfáa hjóladaga.“

Þetta er þó ekki eina ferðin sem Haukur fer á þessu ári. Framundan segir hann að sé þriggja vikna hjólaferð í sumar með syninum um Þýskaland og Holland, meðal annars Mósel- og Rínardali. Þar ætlar hann að heimsækja systur sína og hleypa syninum í alls konar skemmtigarða og tívolí. „Ferðahlutfallið er líklega að fara að breytast mikið,“ segir Haukur að lokum hlæjandi og vísar til þess að líklegra sé að hvíld og stopp verði tveir þriðju hlutar tímans á móti einum þriðja á hjóli í ferð sem þessari.

Búnaður Hauks á ferðinni var eftirfarandi:

  • Wheeler 26” framdempað hjól
  • Tvær töskur á bögglabera og ein á stýri
  • Viðgerðarsett, aukaslanga, bætur, pumpa og verkfæri
  • 0,75 l og 0,5 l vatnsbrúsar og vatnsfilter
  • Tjald, frauðdýna og svefnpoki
  • Pottur, prímus og gaskútur
  • Vasahnífur, hnífur, gaffall og plastskeið
  • Sólarvörn, sjúkrapúði, tannbursti, tannkrem og svitalyktareyðir
  • 2 hjólabuxur stuttar og 1 síðar
  • 2 hjólabolir
  • Léttar buxur, skyrta, bolur og regnjakki
  • Föðurland, bæði bolur og buxur
  • 3 pör sokkar
  • Derhúfa og hjálmur
  • Sími, hleðslukubbur og hleðslutæki
  • Vegabréf og kreditkort

Greinin birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem lesa má í heild hér: 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka