Vilja finna eiganda skófars á heimili Hagen

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan. AFP

Norska lögreglan biðlaði í dag til almennings eftir aðstoð við að finna eiganda skófars sem fannst á heimili Önnu-Elísabetar Hagen, einnar ríkustu konu Noregs.

Ekkert hefur spurst til Hagen, sem talið er hafa verið rænt, frá því hún hvarf í október í fyrra.

Á blaðamannafundi sem lögregla boðaði til í dag var greint frá því að far eftir skó af tegundinni Sprox hefði fundist inni á heimilinu og telur lögregla það tilheyra geranda, sem enn hafa ekki verið borin kennsl á.

„Lögregla hefur rannsakað og borið kennsl á fjölda skófara á heimilinu, en þetta er það eina þar sem við höfum hvorki geta borði kennsl á eigandann eða notandann,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Tommy Brøske, lögreglustjóra í Austurumdæmi.

Segir hann skófarið hafa fundist á áhugaverðum stað á heimilinu og það hafi verið tæknideild lögreglu sem kom auga á það í rannsókn sinni á húsinu.

„Skófarið er á þannig stað og staðsett með þeim hætti að lögregla telur það tilheyra einum gerandanna,“ sagði Brøske og kvað farið vera eftir skóstærð 45.

Norska lögreglan fékk aðstoð þýskra sérfræðinga við að bera kennsl á skófarið og hverrar tegundar það væri. Það var svo þann 1. maí sem lögregla fékk þær upplýsingar að skórnir væru af tegundinni Sprox.

Skór þeirra tegundar hafa verið seldir í Noregi m.a. í verslunum Sparkjøp, en eru einnig fáanlegir utan landssteinanna.

Hefur lögregla þegar fengið lista yfir þá sem hafa keypt slíka skó og greitt fyrir með korti, en biðlar nú til þeirra sem kunna að hafa keypt þá og greitt fyrir með reiðufé að hafa samband.

„Með þessar upplýsingar þá biðjum við þá sem hafa keypt þessa skótegund í Noregi í stærðum 44, 45 og 46 á tímabilinu frá ágúst 2016 til maí 2019 að setja sig í samband við lögreglu,“ sagði Brøske og bætti við að farið benti til þess að skórnir hefðu verið orðnir eitthvað slitnir.

Hann upplýsti einnig að lögregla hafi ekki enn heyrt neitt frá mannræningjunum og sagði lögreglu heldur ekki hafa breytt helstu kenningum sínum um málið.

„Okkur finnst skrýtið að það hafi ekkert verið haft samband,“ sagði hann og ítrekaði þó að lögregla hafi heldur engar sannanir þess að Hagen væri látin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert