Trump býður foreldrum Gard stuðning

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti í dag yfir stuðningi við for­eldra barns sem þjá­ist af sjald­gæf­um erfðasjúk­dómi. Áður hafði Frans páfi sagt að hann vonaði að læknar leyfðu þeim að annast barnið þar til yfir lýkur.

„Það væri okkur sönn ánægja ef við getum hjálpað #CharlieGard, eins og vinir okkar í Bretlandi og páfinn,“ skrifaði Trump á Twitter.

Gard fæddist í ágúst í fyrra en hann þjá­ist af fá­gæt­um erfðasjúk­dómi sem leiðir m.a. til þess að líf­færi hans virka ekki sem skyldi. Hann er háður önd­un­ar­vél­inni og hef­ur dvalið á gjör­gæslu frá því í októ­ber. For­eldr­ar hans, Chris Gard og Connie Ya­tes, hafa bar­ist fyr­ir því að fá Charlie í sína um­sjá til að fara með hann í til­raunameðferð í Banda­ríkj­un­um.

Fjallað hef­ur verið um málið á öll­um dóm­stig­um í Bretlandi en í síðustu viku komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirri niður­stöðu að lækn­um væri heim­ilt að taka hinn 10 mánaða Charlie Gard úr önd­un­ar­vél. Drengsins biði ekkert nema þjáning og batahorfurnar væru engar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert