Árásarmaðurinn ákærður fyrir morð

Daniel Anjourin, fórnarlamb árásarinnar.
Daniel Anjourin, fórnarlamb árásarinnar. AFP/Lögreglan í Lundúnum

Lögreglan í Lundúnum nafngreindi í dag fórnarlamb árásarinnar á þriðjudagsmorguninn þar sem 14 ára gamall drengur var myrtur með sverði. 

Drengurinn hét Daniel Anjorin, en hann var á leiðinni í skólann á þriðjudagsmorguninn þegar maður með japanskt sverð réðist á hann og hjó til bana. 

Árásarmaðurinn var einnig nafngreindur, en hann heitir Marcus Aurelio Arduini Monzo, og er hann með spænskt og brasilískt ríkisfang. Verður hann dreginn fyrir dómara á morgun og ákærður þar fyrir morðið á Anjorin, en hann réðist einnig á fjóra aðra með sverði sínu og þurfti að flytja þá á sjúkrahús í kjölfarið.

Monzo verður því einnig ákærður fyrir tvær morðtilraunir og tvær alvarlegar líkamsárásir, innbrot og brot á breskum vopnalögum. 

Í miklu áfalli

Anjorin var nemandi við Bancroft's-einkaskólann í Woodford Green, sem er skammt austan við Lundúnir. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem nemandi við skólann er myrtur, en hin 19 ára gamla Grace O'Malley-Kumar var myrt í Nottingham á síðasta ári þegar hún reyndi að verja vinkonu sína frá hnífsstunguárás. 

Sagði skólinn í yfirlýsingu í dag að allir þar væru í miklu áfalli og upplifðu djúpa sorg vegna andlátsins. Anjorin hefði verið duglegur námsmaður og iðinn, jákvæður og blíður á manninn. 

Hrikalegir áverkar 

Lögreglan sagði í yfirlýsingu sinni að Monzo hefði hafið berserksgang sinn laust fyrir kl. 7 um morguninn, en þá keyrði hann vörubíl á grindverk. Stakk hann þar 33 ára gamlan karlmann í hálsinn með sverði sínu. 

Næst réðist hann á 35 ára gamlan karlmann sem var í íbúð sinni rétt hjá og fékk hann skurði á handlegg sinn. Monzo sá næst Anjorin og myrti hann. 

Lögreglan kom á vettvang 12 mínútum eftir að hringt var á hana, og reyndi hún að stöðva Monzo með piparúða og rafbyssu en án árangurs. Náði hann að særa tvo lögregluþjóna alvarlega og þurftu báðir að gangast undir skurðaðgerð í gær. 

Rannsókn málsins er sögð mjög viðamikil.
Rannsókn málsins er sögð mjög viðamikil. AFP/Adrian Dennis

Annar lögregluþjónanna var kona, og sagði í yfirlýsingu lögreglunnar að hún hefði nærri því misst hönd sína eftir árásina. Náði lögreglan loksins að yfirbuga manninn með rafbyssu 22 mínútum eftir að fyrst var hringt í neyðarlínuna. 

Larry Smith, sem stjórnar rannsókn málsins, sagði að hún væri flókin og viðamikil, en að lögreglan myndi reyna að veita almenningi svör eins fljótt og auðið væri. Lögreglan hefur hins vegar útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert