Fréttakonur í dómsmáli gegn BBC

Höfuðstöðvar BBC í Lundúnum.
Höfuðstöðvar BBC í Lundúnum. AFP/Henry Nicholls

Fjórar fréttakonur hafa farið í mál gegn breska ríkisútvarpinu BBC þar sem að þær telja að þeim hafi verið mismunað vegna kynferðis og aldurs. Þær segjast hafa misst vinnuna vegna „svikulla ráðningaraðferða“.

Martine Croxall, Annita McVeigh, Karin Giannone og Kasia Madera störfuðu allar á fréttastofu BBC og voru viðstaddar í dómssal í Lundúnum í dag við þingfestingu málsins. Aðalmeðferð málsins hefst síðar. 

Konurnar telja að þær hafi fengið greidd lægri laun heldur en karlkyns samstarfsmenn þeirra sem gegndu sömu stöðum og að uppsagnir þeirra hafi verið óréttlátar.

BBC neitar að hafa greitt konunum lægri laun heldur en ella. Þá vill ríkismiðilinn meina að ráðningarferlin séu „ströng og sanngjörn“. 

Búið að ákveða hverjir yrðu ráðnir

Árið 2022 greindi BBC frá áætlunum um að sameina innlendar og alþjóðlegar fréttastöðvar sínar. 

Konurnar vilja meina að BBC hafi sagt fjórum öðrum fréttaþulum í trúnaði – tveimur karlmönnum og tveimur yngri konum – að þau myndu ekki missa vinnuna. 

Vilja þær Croxall, McVeigh, Giannone og Madera meina að þær hafi þurft að fara í gegnum ráðningarferli í febrúar árið 2023, þrátt fyrir að þegar væri búið að ákveða hverjir yrðu ráðnir. 

Fréttakonunum var boðin fréttaritarastaða, sem þýddi stöðulækkun fyrir þær og launalækkun. 

„BBC þrýstir laununum þínum niður 

BBC vill meina að að minnsta kosti fimm aðrir umsækjendur hafi fengið betri einkunnir í ráðningarferlinu en konurnar. 

Þá segja fréttakonurnar að þær hafi ekki fengið það sama greitt og karlkyns samstarfsmenn þeirra frá febrúar árið 2020. 

„BBC þrýstir laununum þínum niður“ sagði Croxall, sem hóf störf hjá BBC árið 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert