Vildi ekki að móðirin bæði um aðstoð

Frá Noregi.
Frá Noregi. Ljósmynd/Norden.org

Móðir norsku unglingsstúlkunnar sem fannst látin í sumarhúsi í Noregi að kvöldi nýársdags hafði ekki samband við neinn innan heilbrigðiskerfisins síðustu þrjá mánuði síðasta árs. Farið var fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir konunni í gær en dómstóll féllst ekki á það. Hún er grunuð um alvarlega vanrækslu og að hafa látið undir höfuð leggjast að aðstoða dóttur sína.

Konan kom fyrir dómara í gær. Meðal annars kom fram í máli verjanda hennar að stúlkan hefði ekki tekið í mál að móðir hennar hefði samband við lækni. Hótaði hún að skaða sjálfa sig ef móðir hennar hefði samband við einhvern innan heilbrigðiskerfisins. Stúlkan var lögð inn á sjúkrahús í Drammen í desember árið 2014 vegna átröskunar og dvaldi þar í fimm vikur.

Í máli dómarans kom fram að þegar litið væri til smáskilaboða sem móðirin sendi úr farsíma sínum þætti ljóst að hún gerði sér fyllilega grein fyrir alvarleika veikinda stúlkunnar. Verjandi stúlkunnar ræddi við fjölmiðla og hafði eftir móðurinni að ekkert hefði bent til þess að eitthvað amaði að henni á nýársdag, daginn sem hún sést.

Ekki var fallist á beiðni lögreglu um gæsluvarðhald yfir konunni og verður þeim úrskurði ekki áfrýjað.

Verjandi konunnar sagði í samtali við fjölmiðla að stúlkan hefði hnigið niður um kl. 19 og að móðirin hefði þegar í stað hafið endurlífgun og haft samband við neyðarlínuna. Gerði hún hlé á endurlífguninni til að leiðbeina sjúkraflutningamönnunum sem villtust á leiðinni til þeirra.

Atburðarásin að kvöldi nýársdags:

Kl. 19.07 Beiðni um aðstoð frá móðurinni berst neyðarlínu.
Kl. 19.08 Sjúkrabíll sendur af stað.
Kl. 19.22 Þyrla send af stað.
Kl. 19.43 Sjúkrabíll kemur að bústaðnum.
Kl. 20.20 Þyrla lendir við bústaðinn.
Kl. 20.48 Lögregla fær tilkynningu um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert