Hvað gerðist í sumarhúsinu?

AFP

Hvers vegna lést Angelica Heggelund 13 ára í sumarbústað í Valdres á nýársdag 2015? Réttarhöld í málinu hefjast í dag og hafa 74 vitni verið kölluð til en móðirin er ákærð fyrir alvarlega vanrækslu. Dánarorsökin er talin vera vannæring. Líkt og ít­ar­lega hef­ur verið fjallað um á mbl.is lést stúlk­an í sum­ar­bú­stað í Beitostøle á ný­árs­dag 2015. 

Móðir stúlk­unn­ar óskaði eft­ir aðstoð og kom sjúkra­lið á vett­vang með þyrlu. Stúlk­an var úr­sk­urðuð lát­in en krufn­ing leiddi í ljós að dánar­or­sök henn­ar var vannær­ing. Stúlk­an hafði glímt við átrösk­un um tíma og verið í meðferð vegna þess. Þeirri meðferð hafði hins veg­ar verið hætt. Gríðarlegur áhugi er hjá fjölmiðlum á málinu og má búast við því að það verði þröngt á þingi í Héraðsdómi Gjøvik í dag.

Alls eru vitnin 70 auk fjögurra sérfræðinga. Reiknað er með að réttarhöldin standi yfir í fjórar vikur, samkvæmt frétt Aftenposten.

Saksóknari í málinu, Arne Ingvald Dymbe, telur að móðir stúlkunnar hafi gert sér fulla grein fyrir alvöru málsins og að hún hafi vísvitandi haldið henni fjarri heilbrigðisþjónustu og komið í veg fyrir að Angelica Heggelund fengi lífsnauðsynlega aðstoð. 

Móðirin, Camilla Lem Heggelund, neitar sök að sögn verjanda hennar, Aasmund Sandland, og segir Sandland að málið hafi aldrei átt að fara fyrir dóm.

Samkvæmt Aftenposten eru ágreiningsmálin mörg, til að mynda að móðirin hafi vitað það árum saman að dóttir hennar glímdi við átröskun en að sögn Sandland snerist líf móðurinnar um að aðstoða dóttur sína við að ná bata. Frá því hún var greind með átröskun árið 2012 hafi hún haft samband við 13 til 14 heilbrigðisstofnanir og rætt við um 200 ráðgjafa á þessu sviði. „Þessu lauk á eins skelfilegan hátt og hugsast getur,“ segir Sandland.

Camilla Lem Heggelund er ákærð fyrir vítaverða vanrækslu og ofbeldi  gagnvart dóttur sinni með því að láta hjá líða að veita henni nauðsynlega læknisaðstoð og meðferð. Þetta hafi leitt til þess að stúlkan lést úr vannæringu og jafnvel ofkælingu.

Meðal þeirra sem bera vitni við réttarhöldin er faðir stúlkunnar sem er búsettur í Bandaríkjunum. Lögmaður hans vill ekki tjá sig um málið fyrir fram annað en að um fjölskylduharmleik sé að ræða.

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert