Áttaði sig ekki á alvarleika málsins

Móðir stúlkunnar ásamt verjanda sínum í dómssalnum í dag.
Móðir stúlkunnar ásamt verjanda sínum í dómssalnum í dag. Skjáskot af VG

Verjandi konunnar sem grunuð er um að hafa vanrækt dóttur sína alvarlega með þeim afleiðingum að hún lést að kvöldi nýársdags segir að konan hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til að hjálpa stúlkunni sem glímdi við átröskun. 

Hann segir einnig að konan hafi ekki fyllilega skilið hversu alvarleg ástand stúlkunnar var orðið. Konan kom fyrir dómara í dag ásamt verjanda sínum en farið hefur verið fram á að hún sæti gæsluvarðhaldi í fjórar vikur.

Hætti að sækja aðstoð

Líkt og áður hefur komið fram fannst þrettán ára stúlkan látin í sumarbústað í Valdres í Noregi að kvöldi nýársdags. Móðir stúlkunnar óskaði eftir aðstoð og kom sjúkralið á vettvang með þyrlu.

Við blasti kalt og stíft lík stúlkunnar sem var augljóslega vannærð og var hún úrskurðuð látin á vettvangi. Konan segir að stúlkan hafi skyndilega hnigið niður og hún hafi reynt að bjarga henni en án árangurs.

Verjandi konunnar sagði að hún hefði, líkt og margir aðrir foreldrar barna sem glíma við átröskun, hætt að sækjast eftir nauðsynlegri aðstoð hjá heilbrigðisyfirvöldum þar sem hana væri ekki að finna. Er konan sögð hafa farið með stúlkuna í bústaðinn þegar hún var sem veikust og leið henni oft betur þegar þær komu heim aftur.

Háði vonlausa baráttu 

Fjölskylda stúlkunnar lýsir henni sem lífsglaðri og kátri stúlku í aðsendu bréfi sem birt var í norska fjölmiðlinum Aftenposten í dag. Hún hafi verið dálítið hlédregin, sérstaklega í samskiptum við fólk sem hún þekkti ekki. Stúlkan hafi verið fróðleiksfús, gengið vel í skólanum, elskaði að fara í langar fjallgöngur og naut sín vel í sumarhúsi fjölskyldunnar.

Stúlkan hóf nám í grunnskólanum í Bærum og gekk vel til að byrja með. Tók hún bæði þátt í handbolta og fótbolta. „En þá hófst eineltið sem eyðilagði líf hennar,“ skrifar fjölskyldan. „Móðir hennar, sem var einstætt foreldri, hefur alla tíð gert allt sem í hennar valdi stendur til að láta stúlkunni líða betur.“ Segja þau konuna hafa háð vonlausa baráttu fyrir dóttur sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert