Þurfa ekki að leggja út lengur

Gunnar Helgi Gunnsteinsson og Arnar Jónsson hafa á liðnum árum …
Gunnar Helgi Gunnsteinsson og Arnar Jónsson hafa á liðnum árum unnið að ýmsum fjártæknilausnum. Kristinn Magnússon

Hundruð fyrirtækja eru á biðlista eftir Kardio, nýrri greiðslukortalausn fjártæknifyrirtækisins Memento, sem væntanleg er á markaðinn. Með því að nota Kardio þurfa starfsmenn ekki lengur að leggja út sjálfir fyrir vöru og þjónustu, taka kvittun og fá endurgreitt, með öllu því umstangi sem því fylgir.

„Þetta er í raun ný leið til að halda utan um reksturinn á fyrirtækinu,“ segir Gunnar Helgi Gunnsteinsson, viðskiptastjóri Kardio, í samtali við Morgunblaðið.

Kaupa bakkelsi

Hann segir það alþekkt að framkvæmdastjórar og fjármálastjórar séu með greiðslukort frá fyrirtækjum sem þeir starfa hjá en á sama tíma þurfi almennt starfsfólk oft að leggja út fyrir hinu og þessu og fá svo endurgreitt samkvæmt framlögðum kvittunum.

„Fólk er kannski að kaupa bakkelsi með kaffinu eða fara í hádegismat þegar það er ekki á starfsstöð. Það kallar á að taka þarf kvittun og skila í bókhaldið. Þetta eru oft mörg handtök og umsýsla við að fylla út útgjaldaskýrslur, koma kvittunum í möppu til endurskoðenda og endurgreiða starfsmönnum. Með Kardio geta allir starfsmenn haft sitt eigið rafræna greiðslukort með misháa heimild eftir atvikum, sem hægt er að stilla miðlægt í stjórnborði Kardio. Stjórnendur geta í raun stofnað ótakmarkaðan fjölda greiðslukorta fyrir reksturinn án vandræða. Eftir greiðslu notar starfsmaðurinn Kardio-appið til að taka mynd af kvittunum sem fara beint í bókhaldið. Okkar athuganir sýna að þetta getur sparað tugi og upp í hundruð klukkustunda í vinnu á mánuði eftir stærð fyrirtækja.“

Þá segir Gunnar að um öryggismál sé að ræða. „Það er hættulegt að vera með eitt eða fá kort með mjög mikið af útgjöldum á. Það eru mun öruggari verkferlar að vera með mörg kort með lága upphæð hvert. Svo er auðvelt að loka og eyða kortum sem mögulega fara á ranga staði.“

Fyrirtækið hefur fengið fjármögnun frá íslenskum einkafjárfestum en Kardio á sér tíu ára sögu og bjó upphaflega til fjártækniappið Kass sem selt var til Íslandsbanka á sínum tíma.

Gunnar segir að áhuginn sé mikill. „Það er sama við hvern við tölum. Það hafa allir mikinn áhuga á að nota hana. Við erum með nokkur fyrirtæki í prófunum og þær ganga vel. Með vorinu munum við að vinna vel á biðlistanum og veita stærri hópi fyrirtækja aðgang í fösum.“

Vaxtartækifæri erlendis

Gunnar segir að Kardio sjái mikil vaxtartækifæri bæði hér á landi og erlendis. „Við erum með í forgangi að veita íslenskum fyrirtækjum frábæra útgjaldalausn og þjónustu. Við horfum þó einnig til annarra markaða. Fyrirtækjum á þessu sviði gengur vel erlendis en að sama skapi er markaðshlutdeild þeirra á heimsvísu, enn sem komið er, tiltölulega lítil og tækifærið því stórt.“

Samstarf við Kviku

Að sögn Gunnars sker Kardio sig úr að því leyti að margar erlendu lausnanna séu í samkeppni við banka á hverjum markaði fyrir sig. Kardio hins vegar bjóði upp á samstarfsmöguleika við banka. „Við nálguðumst alla íslensku bankana með þessa lausn enda liggur sérhæfing okkar í að tengjast núverandi tækniinnviðum og bæta virðisaukandi lausnum ofan á. Niðurstaðan var samstarf við Kviku banka sem gefur út kortin og sinnir bankahlutanum á meðan við þjónustum kortin og alla upplifun notandans.“

Spurður að lokum nánar um hlut Kviku í samstarfinu segir Gunnar að helsta hlutverk bankans sé að útvega kortainnviðina, sjá um svikavöktun, færsluvöktun, reglugerðir og þvíumlíkt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK