Hissa ef hróflað verður við stýrivöxtum nú

Mestar líkur eru á því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum nú í byrjun febrúar. Þeir eru 9,25%. Tilkynnt verður um nýja ákvörðun nefndarinnar á miðvikudag í næstu viku.

Þetta er mat Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka en hann er gestur nýjasta þáttar Dagmála. Íslandsbanki kynnti í dag nýja þjóðhagsspá sem nær fram til ársins 2027.

Í peningastefnunefnd sitja þrír af fjórum bankastjórum Seðlabankans. Ásgeir Jónsson …
Í peningastefnunefnd sitja þrír af fjórum bankastjórum Seðlabankans. Ásgeir Jónsson (formaður), auk varaseðlabankastjóranna Gunnars Jakobssonar og Rannveigar Sigurðardóttur. Þá eiga í sætinni tveir utanaðkomandi nefndarmenn, þær Herdís Steingrímsdóttir og Ásgerður Ósk Pétursdóttir. Ljósmynd/Seðlabanki Íslands

„Við erum farin að sjá að raunvaxtastigið, sem hefur hækkað mjög myndarlega á síðastliðnu ári, er farið að hafa áhrif ansi víða og engin ástæða til að ætla núna þegar lán eru að losna af föstum vöxtum hjá vaxandi hluta íbúðakaupenda að þau áhrif haldi ekki áfram að magnast. Þannig að bera í þann læk væri svolítið að gera hann meira en bakkafullan,“ segir Jón Bjarki.

Hann telur þó mögulegt að ákveðnir nefndarmenn peningastefnunefndar muni gera athugasemdir við að hækka ekki vextina enn frekar.

Líklega óbreyttir vextir

„En hvað nefndin gerir, líklega halda þau vöxtunum óbreyttum. Það gæti þó verið að mestu haukarnir þar innanborðs gerðu athugasemd við þá ákvörðun því það var þannig greinilega á endanum í nóvember að það sem kom í veg fyrir hækkun þá var fyrst og fremst jarðskjálftinn og rýming Grindavíkur og það vesen allt saman.“

Jón Bjarki segir þó að ýmislegt bendi til þess að hagkerfið sé að kólna. Nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar þar á meðal. Sennilega meti nefndin það þannig að gott sé að doka við enda stutt í næstu ákvörðun hennar. Tilkynnt verður um aðra vaxtaákvörðun hennar þann 20. mars næstkomandi.

„Hvað mig varðar sýnist mér nógu mikið hafa breyst í millitíðinni til að sjá til og þó að nefndin eigi alls ekki að hlusta á einhverjar skipanir, hvorki frá opinberum aðilum né vinnumarkaðnum þá skilja þau alveg að það eru þarna ákveðnar frígráður og næsta ákvörðun er seinnipartinn í mars, það er stutt á milli þeirra. Og það er ekki öllu fórnað ef það er látið njóta vafans að þessi viðsnúningur sé kominn til að vera.“

En væri meiri hætta á vaxtahækkun en vaxtalækkun við þessar aðstæður?

„Það hefði verið það líklega fyrir þessa mælingu sem kom núna fyrir janúarvísitöluna. Núna er þetta aðeins óljósara að setja pening á annað hvort. Ég þori ekki að fullyrða það hvað þau myndu gera ef þeim væri bannað með lögum að halda vöxtunum óbreyttum.“

Viðtalið við Jón Bjarka má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK