Markaðurinn leysi húsnæðisvanda Grindvíkinga

„Ég held að það sé ekki góð lausn að ráðast í einhverja stórfellda uppbyggingu bráðabirgðahúsnæðis fyrr en við vitum betur hver raunveruleg þörf er. Það eru fjögur þúsund íbúðir í sölu á húsnæðismarkaði í dag. Það er vissulega einhver eftirspurn eftir því sama húsnæði. En það segir okkur alla vega að það er eitthvað svigrúm.“

Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, sem er gestur Dagmála, um stöðuna sem virðist vera að teiknast upp og tengist því að íbúar Grindavíkur eiga ekki afturkvæmt í bæinn á næstu mánuðum og misserum. Þorsteinn hefur langa reynslu af byggingamarkaði, nú sem forstjóri Hornsteins. Hann var áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og félagsmálaráðherra í ríkisstjórn sem sat á árinu 2017.

Meta þarf heildaráhrifin

„Ef það á að grípa til einhverra frekari inngripa eins og ef ætlunin er að setja einhverjar skorður við skammtímaleigu, ég ætla ekki að segja að það sé nauðsynleg aðgerð eða ekki, það eru aðrir aðilar vafalítið í betri stöðu til að meta það. En þá þýðir það væntanlega aukið framboð húsnæðis inn á leigu- eða eignamarkað. Þannig að það þarf líka að horfa á slíkar aðgerðir í slíku samhengi,“ segir Þorsteinn og vísar þar m.a. til þeirrar yfirlýsingar stjórnvalda að til greina komi að þrengja að útleigurétti þeirra sem stundað hafa skammtímaleigu á íbúðarhúsnæði til ferðamanna.

Hægt að kljúfa vandann

„Og ég held að við munum geta klofið þennan vanda með því framboði sem nú þegar er komið á markaðinn, er á leið á markaðinn og einhverjum mótvægisaðgerðum sem gætu bæst þar inn til viðbótar,“ bætir hann við.

Hann segir ljóst að ef íbúar Grindavíkur verða keyptir út úr húsnæði sínu muni það hafa verðbólguhvetjandi áhrif á markaðnum.

„Klárlega. Við ættum að kunna það, nýbúin að stíga upp úr örvandi aðgerðum eftir covid hvaða áhrif slíkar aðgerðir geta haft á verðbólgu, ekki bara hér heldur úti um allan heim. Við fórum í verulega eftirspurnarörvandi aðgerðir í covid, hér á landi og víðast annarsstaðar og heimurinn hefur ekki þurft að takast á við aðra eins verðbólgu í áratugi. Og þetta hefur alveg sömu áhrif,“ segir Þorsteinn.

Stífa þarf fjármagnið

Hann segir mikilvægt að grípa til mótvægisaðgerða til þess að viðkvæm staða verði ekki óviðráðanleg.

„Það þarf að stífa þetta fjármagn einhvern veginn. Þannig að ríkið þarf að grípa hjá sér til einhverra mótvægisaðgerða. Það getur falist í því að selja frá sér eignir til þess að binda fé annars staðar í hagkerfinu, þá á móti þessu fjármagni sem er verið að hleypa út.“

Segir hann að það gæti gerst með eignasölu. Ríkið losaði sig þá við eignir og drægi þar með fjármagn frá fjárfestum út af markaðnum.

„Íslandsbanki, Landsbanki, einhverjar slíkar eignir væri hægt að selja einhvern hluta í til þess að vega þarna upp á móti. Það þarf að setja fram einhverja heilsteypa áætlun um það hvernig við ætlum að koma í veg fyrir verðbólgu. Við leysum ekki verðbólgu með því að hætta að mæla hana.“

Fullkomin óvissa er nú uppi um það hvort byggilegt verði …
Fullkomin óvissa er nú uppi um það hvort byggilegt verði í Grindavík í náinni framtíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Virðist Þorsteinn þar vera að vísa til þeirra hugmynda stjórnvalda að breyta eða kippa úr sambandi mælingu á húsnæðislið í vísitölu neysluverðs sem kynntar voru fyrr í vikunni.

„Ég túlka það þannig að það sé verið að leggja til breytta mælingu á húsnæðisliðnum og það kunna að vera skynsemisrök fyrir því og það þarf bara að skoða það hvort við séum að mæla húsnæðisverðbólgu með öðrum hætti en önnur lönd. Það hefur oft verið bent á það. Það hefur aldrei fengist nein skýr niðurstaða í það hvort og hvernig við ættum að breyta mælingunni.“

Segir hann að þrátt fyrir það megi ekki gleyma því að mælingar af þessu tagi eru gerðar til þess að varpa ljósi á hvað það er sem er í raun og veru að gerast í hagkerfinu á hverjum tíma.

„Hitastigið er alltaf það sama úti, hvort sem við setjum ísmola eða kveikjara undir hitamælinn eða fiktum við hann eða breytum kvarðanum eða hvað það er. Á endanum erum við að nálgast einhverja raunbreytingu í hagkerfinu og þetta mun hafa áhrif til hækkunar á fasteignaverði nema við gerum eitthvað til þess að vega á móti og það getum við gert með því að stífa þetta fjármagn með einhverjum hætti eins og sagt er gjarnan á einhverju seðlabankamáli.“

Viðtalið við Þorsteinn má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK