Holland í fimmta sæti og Svartfjallaland í sjöunda

Angela Malestein reyndist Þjóðverjum erfið.
Angela Malestein reyndist Þjóðverjum erfið. AFP/Henning Bagger

Holland tryggði sér fimmta sætið á HM 2023 í handknattleik kvenna með því að vinna þægilegan sigur á Þýskalandi, 30:26, í Herning í dag. Í morgun tryggði Svartfjallaland sér sjöunda sætið með sigri á Tékklandi.

Í leik Hollands og Þýskalands lögðu Hollendingar grunninn að sigrinum með magnaðri frammistöðu í fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 16:7 og ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir Þjóðverja í síðari hálfleik.

Þrátt fyrir að leika töluvert betur í síðari hálfleik komst Þýskaland ekki nær Hollandi en fjórum mörkum á lokasekúndunum og sigur Hollendinga því aldrei í hættu.

Angela Malestein var markahæst hjá Hollandi með sjö mörk.

Hjá Þýskalandi skoraði Antje Döll einnig sjö mörk og Alina Grijseels bætti við sex mörkum.

Fjögurra marka sigur Svartfjallalands

Meiri spenna var í leiknum um sjöunda sætið þó Svartfjallaland hafi byrjað leikinn gegn Tékklandi mun betur.

Eftir að hafa komist í 6:1 og 7:2 tóku Tékkar sig til og jöfnuðu metin í 7:7.

Svartfellingar náðu aftur undirtökunum og leiddu með fjórum mörkum, 14:10, í hálfleik.

Í síðari hálfleik reyndu Tékkar hvað þeir gátu til þess að koma sér betur inn í leikinn en komust hins vegar ekki nær en fjórum mörkum og sjöunda sætið kom í hlut Svartfellinga.

Itana Grbic var markahæst í leiknum með sjö mörk fyrir Svartfjallaland.

Marketa Jerábková, Adéla Strísková og Marketa Sustácková voru markahæstar hjá Tékklandi með fimm mörk hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert