Fyrstu tvö árin var þetta allt of mikið

Hildigunnur Einarsdóttir lék sinn 100. landsleik gegn Frakklandi.
Hildigunnur Einarsdóttir lék sinn 100. landsleik gegn Frakklandi. Ljósmynd/Jon Forberg

Það er yfirleitt nóg að gera hjá línukonunni sterku Hildigunni Einarsdóttur, aldursforseta íslenska landsliðsins, á lokamóti HM í handbolta sem lauk í gær.

Hildigunnur hefur undanfarin ár verið í stóru hlutverki hjá Íslandsmeisturum Vals og landsliðinu ásamt því að vinna vaktavinnu sem lögreglukona.

„Vaktavinna og skipulagður handbolti er smá púsluspil, en gengur ágætlega og ég fæ skilning frá vinnunni, bæði samstarfsmönnum og svo yfirmönnum. Ágúst þjálfari vissi svo að ég væri á leiðinni í vaktavinnu þegar ég kem heim frá Þýskalandi.

Hildigunnur Einarsdóttir fékk góðan stuðning á HM.
Hildigunnur Einarsdóttir fékk góðan stuðning á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Ég vissi þá ekki hvernig þetta yrði, en ég sagði honum að ég myndi missa af einhverjum æfingum. Hann tók vel í það. Svo eru allir frá öllum hliðum að reyna að gera sitt besta fyrir mig. Þetta gengur, þar sem ég fæ skilning frá báðum hliðum,“ sagði Hildigunnur við mbl.is.

Hún lék sem atvinnumaður erlendis á árunum 2012 til 2019, þegar hún sneri aftur heim í Val. Hún viðurkennir að raunveruleikinn á Íslandi hafi tekið á, eftir þægilegt líf sem atvinnukona.

„Þetta tók á fyrst. Ég fór úr rútínu og frekar þægilegu lífi sem atvinnulífið var, það voru bara æfingar og svo nám sem ég kláraði áður en ég kom heim til að hafa eitthvað að gera með, og svo heim í 100 prósenta vinnu á meðan ég var að klára verklega námið í skólanum.

Hildigunnur Einarsdóttir.
Hildigunnur Einarsdóttir. Ljósmynd/Jon Forberg

Fyrstu tvö árin var þetta allt of mikið. Ég fór allt of mikið upp í 100 á stuttum tíma. Það var lítið um frítíma og þetta hafði áhrif á allt saman. Ég útskrifaðist svo í sumar og eftir það hefur þetta verið mikið þægilegra. Nú get ég nýtt frítímann minn í að aðeins slaka á. Þetta var mikil breyting,“ sagði hún.

Það er því kærkomið fyrir Hildigunni að vera með á HM í nokkrar vikur og upplifa það að geta sett handboltann einan í fyrsta sæti.

„Ég tók nánast ekkert sumarfrí í sumar, svo ég gæti einbeitt mér að handboltanum í vetur. Það hefur verið rosalega gott að kúpla sig út úr vinnunni, því ekki tek ég hana með mér hingað. Það hefur verið ótrúlega gaman að einbeita sér að þessu. Ég mæti svo fersk í vinnuna aftur, rétt fyrir jól,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert