Landsliðskonan söðlar um í Svíþjóð

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Kristianstad um að leika með liðinu eftir tveggja ára dvöl hjá Skara.

Jóhanna Margrét gengur til liðs við Kristianstad að loknu yfirstandandi tímabili, en bæði Kristianstad og Skara taka um þessar mundir þátt í átta liða úrslitakeppni um sænska meistaratitilinn.

Hjá Kristianstad hittir hún fyrir Bertu Rut Harðardóttur, en landsliðskonan Andrea Jacobsen lék einnig með liðinu á árunum 2018 til 2022.

„Að spila með Kristianstad veitir mér frábært tækifæri til þess að halda áfram að þróast sem leikmaður í einu besta handboltaumhverfi Svíþjóðar.

Eftir tvö góð ár í Skara fannst mér ég þurfa á nýrri áskorun að halda til þess að þróa leik minn enn frekar. Mér leist vel á það sem Kristianstad hefur fram að færa og tel að þetta sé rétt skref fyrir mig,” sagði Jóhanna Margrét í samtali við heimasíðu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert