Íslendingaliðin á leið í undanúrslitin

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk fyrir Tvis Holstebro í …
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk fyrir Tvis Holstebro í kvöld. mbl.is/Hari

Útlit er fyrir að bæði Aalborg og Tvis Holstebro komist í undanúrslitin um danska meistaratitilinn í handknattleik eftir hagstæð úrslit í kvöld.

Liðin eru í öðrum riðli úrslitakeppninnar og spiluðu bæði á útivelli í kvöld. Aalborg, með Arnór Atlason sem aðstoðarþjálfara, gerði jafntefli við Skjern, 28:28. Þar með eygir Skjern enn veika von um að komast áfram en Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark fyrir liðið.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk fyrir Tvis Holstebro sem vann Skanderborg örugglega á útivelli, 36:28. 

Eftir fjórar umferðir af sex í riðlinum eru Tvis Holstebro og Aalborg með 7 stig hvort. Skjern er með 3 stig og  getur því enn náð þeim en Skanderborg er úr leik með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert