„Ekki bara popp og partí á svona móti“

Snorri Steinn Guðjónsson á æfingu íslenska liðsins í München.
Snorri Steinn Guðjónsson á æfingu íslenska liðsins í München. Ljósmynd/Kristján Orri

„Ég held að ég sé nokkuð léttur sem þjálfari en á sama tíma geri ég kröfu um að menn séu einbeittir á bæði æfingum og fundum sem dæmi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Fyrsta sætinu.

Snorri Steinn, sem er 42 ára gamall, stýrði íslenska liðinu í fyrsta sinn á stórmóti á Evrópumótinu í Þýskalandi sem lauk á dögunum en Ísland hafnaði í 10. sæti á mótinu. 

Ekki allir fundir skemmtilegir

Það var létt yfir leikmönnum íslenska liðsins í Þýskalandi á meðan ákveðin þyngsli einkenndu liðið á síðasta heimsmeistaramóti í Svíþjóð og Póllandi en var það eitthvað sem Snorri Steinn lagði sérstaklega upp með þegar hann tók við liðinu?

„Þegar ég var í landsliðinu var léttleiki í landsliðinu og það var gaman að vera í kringum félagana og á æfingum,“ sagði Snorri Steinn.

„Það væri stórkostlegt vandamál ef það væri ekki þannig finnst mér. Eðlilega voru samt þyngsli yfir þessu í Þýskalandi og það voru ekkert allir fundir skemmtilegir.

Það er ekki bara popp og partí á svona móti og það var mjög langt frá því en það var létt yfir aðdragandanum hjá okkur, alveg eins og það á að vera,“ sagði Snorri Steinn meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert