Klárlega framtíðarmaður landsliðsins

„Þú sérð þegar hann slítur krossband fyrst þá er hann bara spagettí. Svo kemur hann til baka aðeins þyngri en slítur þá aftur. Núna þegar hann kemur til baka er hann búinn að bæta á sig örugglega tíu til tólf kílóum. Það hefur aðeins skert sprengikraftinn hjá honum en hann hefur þessa yfirsýn og getur skotið,“ sagði Sigurður Sveinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta um Hauk Þrastarson, núverandi leikmann liðsins, í Dagmálum.

Haukur átti frábærar innkomur í íslenska liðið á Evrópumótinu í Þýskalandi og hlaut verðskuldað lof fyrir. Hann kom oft inn fyrir Aron Pálmarsson og leysti hans hlutverk en einnig virtust þeir ná mjög vel saman þegar þeir voru báðir inni á vellinum.

„Ég ætla ekki að fara að láta neinn leysa Aron af strax. Ég vil halda honum þarna og tel það bara mjög mikilvægt. Haukur hins vegar er klárlega framtíðarmaður þarna og mér sýnist hann hafa nýtt þennan tíma sem hann var í meiðslum mjög vel. Eðlilega tekur það smá tíma fyrir hann að ná snerpunni upp aftur, en það kemur. Hann virðist vera á flottum farvegi og sýndi það á köflum að hann er gríðarlegt efni. Hann á eftir að koma mjög sterkur þarna inn með tíð og tíma,“ bætti Ingimundur Ingimundarson, fyrrverandi landsliðsmaður við.

Umræðuna um Hauk Þrastarson má sjá í heild sinni hér að ofan.

Haukur Þrastarson í kröppum dansi gegn Frakklandi.
Haukur Þrastarson í kröppum dansi gegn Frakklandi. AFP/Ina Fassbender
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert