Segir varnarleik Íslands á réttri leið

„Við erum bara svolítið að reyna að finna okkur fyrir þennan hóp. Það er kannski ekki alveg rétt að taka eitthvað varnarafbrigði sem virkaði fyrir einhvern ákveðinn hóp beint yfir í annan hóp, þú þarft alltaf að aðlaga það að einstaklingunum,“ sagði Ingimundur Ingimundarson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, í Dagmálum.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta lauk keppni í 5. sæti milliriðils á Evrópumótinu í Þýskalandi. Ingimundur, sem var frábær varnarmaður á sínum ferli, ræddi varnarleik íslenska liðsins í þættinum.

„Það hefur verið svolítið þannig undanfarin ár að þegar vörnin okkar gengur ekki upp þá lítum við ekkert rosalega vel út. Við höfum verið að reyna að finna þetta jafnvægi, hvað við getum verið að pressa mikið án þess að slíta þetta of mikið í sundur.

Fyrir þetta mót er nýr þjálfari sem ætlar að koma með sínar áherslur. Hann fékk nú ekki margar æfingar í undirbúning og hann nær ekkert að gjörbylta þessu á þeim tíma. Hann hefur sjálfsagt reynt að taka það sem honum leist vel á og fínpússa einhver ákveðin atriði, og mér fannst ég alveg sjá það á köflum.

Svo koma bara kaflar þar sem við töpum einn á einn stöðum eða markmennirnir kannski vörðu ekki bolta sem þeir hefðu átt að verja. Þá förum við að færa okkur aðeins utar og slíta okkur í sundur ósjálfrátt. En það eru bara hlutir sem lagast hægt og rólega eftir því sem leikjunum fjölgar,“ bætti Ingimundur við.

Elvar Örn Jónsson er lykilmaður í vörn íslenska liðsins.
Elvar Örn Jónsson er lykilmaður í vörn íslenska liðsins. Ljósmynd/Kristján Orri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert