„Þá vorum við bara tvöfalt heppnir“

Pablo Punyed í leiknum í kvöld. Hann var að öðrum …
Pablo Punyed í leiknum í kvöld. Hann var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var ánægður með stigin þrjú eftir sigur á Fram, 1:0, á Framvellinum í Úlfarsárdal í 2. umferð Bestu deildar karla í kvöld.

„Ég á eftir að horfa á leikinn aftur en mín tilfinning er sú að við höfum sloppið vel frá þessu. Miðað við hvernig leikurinn þróaðist, við náðum engum tökum á honum þannig séð þrátt fyrir að reyna ýmislegt, þá hefði maður sætt sig við jafntefli. En þetta var frábært mark hjá Ella [Erlingi Agnarssyni] og eftir það snerist þetta bara um að sýna karakter og svo aðallega að vera heppnir. Við vorum það svo sannarlega.“

Í fjölmiðlastúkunni á leiknum sátu tveir leikgreinendur frá Víkingi sem voru á fullu allan leikinn að greina gögn og fylgjast með leiknum frá betra sjónarhorni. Þeir voru svo duglegir að dæla upplýsingum í varamannabekk Víkings en þeir virtust vera í beinu sambandi við Sölva Geir Ottesen aðstoðarþjálfara.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, þeir eiga risa stóran þátt í þessu öllu saman hjá okkur. Við breyttum mikið til að reyna að koma okkur í gang. Við byrjuðum með ákveðið kerfi fyrstu tíu mínúturnar en það gekk engan veginn upp og þá þurftum við að breyta til. Þá náðum við smá tökum á uppspilinu. Hugmyndin var í fyrri hálfleik á móti vindi, að stjórna spilinu og ekki hleypa leiknum í vitleysu, og kýla svo á þetta í seinni hálfleik.

Við gerðum þannig séð allt í lagi hluti í fyrri hálfleik og strákarnir sem fóru út af hjá okkur stóðu sig virkilega vel, það var ekki það. Það var bara allt önnur dínamík í seinni hálfleik, hugmyndin var að fá fleiri fyrirgjafir, og vera þá með Nikolaj Hansen og Gunnar Vatnhamar í baráttunni þar, en ég man bara eftir tveimur eða þremur fyrirgjöfum frá okkur, í alvöru talað. Við náðum engum takti í okkar leik og stundum þarf bara að hrósa andstæðingnum. Þeir náðu að loka á allar okkar aðgerðir og við vorum bara í tómu basli.“

Það voru vægast sagt umdeild atvik í leiknum. Snemma leiks skoraði Fram mark sem var dæmt af en Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, dæmdi hendi á Alex Frey Elísson, sem virtist rangur dómur. Seint í leiknum féll svo Guðmundur Magnússon, leikmaður Fram, í teignum eftir baráttu við Halldór Smára Sigurðsson en ekkert var dæmt. Aftur virtist Jóhann Ingi taka ranga ákvörðun.

„Ég sá þessi atvik já en ég sá þetta ekki nægilega vel til að geta dæmt um hvort þetta hafi verið hendi eða ekki. Sumir segja að þetta hafi ekki verið hendi og þá vorum við bara heppnir. Sama með vítið, ef þetta var víti þá vorum við bara tvöfalt heppnir. Ég á eftir að sjá þetta betur en ég get vel skilið að Framararnir hafi verið að svekktir að fá ekki neitt út úr þessu.“

Línan hjá dómara leiksins var skrítin allan leikinn og virtust báðir þjálfarar vera orðnir frekar pirraðir á hliðarlínunni.

„Ég spurði Oliver Ekroth fyrir hvað hann fékk gult spjald og hann sagði bara að það hafi verið ýtt í sig. Enn og aftur, ég á eftir að sjá þetta aftur en mér finnst eins og orðsporið hjá sumum sé að vinna á móti þeim. Ég held að það eigi eftir að skerpa aðeins á þessum breytingum en ég held að það skipti máli hver á í hlut, það eru ákveðnir aðilar komnir með einhvern stimpil á sig, hvort sem það er sanngjarnt eða ósanngjarnt. 

Ef þetta heldur áfram svona verða bönnin farin að tikka inn í fimmtu umferð. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um þetta, það var fínt flæði í fyrsta leik og ágætis kaflar í þessum leik líka. Stundum er það hlutverk dómarans að átta sig á því að leikurinn er bara erfiður og þarf ekki á einhverjum auka töfum að halda. Frekar bara að láta þetta ganga. Það þarf eitthvað aðeins að skoða þetta með þessi gulu spjöld.“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Óttar Geirsson

Pablo Punyed var besti leikmaður Víkings í leiknum en hann lagði m.a. upp sigurmark Erlings Agnarssonar.

„Það er ekki hægt að lýsa honum. Í svona leikjum sérstaklega finnur hann bara leiðir til að eiga möguleika á að vinna. Hvort sem það er klókindi með eða án bolta, að vera pirrandi eða að drífa liðsfélaga sína áfram.

Fyrst og fremst er þetta náttúrlega bara frábær fótboltamaður. Við reyndar erum það vel drillað lið að í svona leik þurfum við bara eitt augnablik til að sprengja leikinn upp, það eru það mikil gæði í liðinu. Hans þáttur er bara gríðarlega stór.“

Nikolaj Hansen hefur byrjað báða leiki Víkings á bekknum. Arnar segir eðlilegar skýringar á því.

„Hann mun eiga súper sumar fyrir okkur. Við bara þurftum aðeins aðrar áherslur á móti Stjörnunni í fyrstu umferð og í þessum leik var planið að setja hann inn á snemma í seinni hálfleik. Hann er að komast bara í betra og betra stand og mun reynast okkur drjúgur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert