„Ég hef fengið að heyra að ég mætti missa nokkra sentimetra hér og þar“

Helen Málfríður Óttarsdóttir þrífst vel í stórborginni.
Helen Málfríður Óttarsdóttir þrífst vel í stórborginni.

Helen Málfríður Óttarsdóttir býr í London þar sem hún stundar myndlistarnám auk þess sem hún starfar sem fyrirsæta. Helen nýtur þess að búa í stórborginni þar sem áhugaverðasta fólkið leitar að einstökum flíkum í stað þess að elta uppi nýjustu Gucci-töskuna.

„Ég er búin að vinna sem fyrirsæta síðan ég var barn. Þetta var eiginlega skrifað í skýin. Mamma, Klara Thorarensen, var lengi fyrirsæta og pabbi er kvikmyndatökumaður. Þau þekktu marga í bransanum og ég var oft í auglýsingum sem krakki,“ segir Helen um hvernig fyrirsætuferillinn byrjaði.

Helen hóf að starfa á alþjóðavettvangi þegar hún flutti til London 18 ára gömul til þess að stunda nám í myndlist við University of The Arts London. Hún er á samningi hjá íslensku umboðsskrifstofunni Ey Agency og í gegnum tengslanet þeirra fékk hún fundi sem leiddi til þess að hún er á skrá í London, París og í Þýskalandi.

Stundum fær fyrirsætan Helen Málfríður Óttarsdóttir verkefni þar sem hún …
Stundum fær fyrirsætan Helen Málfríður Óttarsdóttir verkefni þar sem hún fær að ferðast til spennandi og skemmtilegra staða.

Tískuheimurinn á enn langt í land

Flest verkefni sem Helen bókar eru innan auglýsingageirans en hún segir útlit sitt henta vel í slík verkefni.

„Þetta er fyndinn heimur. Ég er 1,73 sm á hæð þannig að ég er alveg á mörkunum að vera nógu há til að geta gengið á tískupalli. Ef ég væri einhverjum kílóum léttari kæmist ég kannski upp með það. Fyrirsætur sem eru í hátískuverkefnum eða listrænum verkefnum fyrir tímarit eru flokkaðar í annan hóp innan bransans en fyrirsætur eins og ég sem eru með hefðbundnara útlit.“

Er erfitt að heyra talað um sig á þennan hátt?

„Ég er bara sátt í mínu horni í þessum geira en það getur auðvitað alveg ruglað í manni samt sem áður. Útlit manns er greint og maður er mældur reglulega. Ég hef fengið að heyra að ég mætti missa nokkra sentimetra hér og þar.“ Hún segir ekki endilega rétt að fyrirsætuheimurinn hafi breyst mikið þrátt fyrir að talað sé um fjölbreyttari líkama í bransanum. Það eru fáar stærri fyrirsætur og oftast sömu nöfnin segir hún.

Helen er með sterk bein en segir á sama tíma gott að geta leitað til móður sinnar. „Þessi heimur getur verið hálfbrenglaður stundum. Þá er fínt að hafa mömmu sem var fyrirsæta á tíunda áratugnum. Þetta var allt enn ýktara þá en það eru enn leifar af þessu. Hún bað mig aldrei að gera þetta ekki – en hún lét mig vita hvernig þessi heimur gæti verið.“

Fyrirsætustarfið var skrifað í skýin en móðir Helenar var einnig …
Fyrirsætustarfið var skrifað í skýin en móðir Helenar var einnig fyrirsæta.

Í auglýsingu fyrir Armani

Áttu uppáhaldsverkefni sem þú hefur tekið þátt í?

„Í febrúar tók ég þátt í stórri herferð fyrir Armani sem á að koma út fyrir jólin. Þetta var aðeins meiri hátíska og var mjög skemmtilegt. Það var mikið lagt í verkefnið og fjórar ótrúlega fallegar leikmyndir. Verkefnið tók tvo daga, við mættum klukkan fimm og unnum í 15 til 16 tíma,“ segir Helen og bætir við að fyrirsætuvinna geti reynt á.

Þrátt fyrir að Helen sé ekki gömul hefur hún verið lengi í bransanum og margt breyst á þeim tíma. Í dag ná myndir þvert yfir landamæri í gegnum samfélagsmiðla. Hlutverk fyrirsætunnar hefur einnig breyst. „Fyrir ekkert svo löngu var maður kannski að taka 20 lúkk á dag, bara myndir. Nú eru samfélagsmiðlarnir farnir að spila mikið inn í og hluti af deginum oft tileinkaður tik-tok-vídeóum og Instagram „reels“.“

Allir hafa sinn stíl í London

Helen ætlaði alltaf út eftir menntaskóla en hún segist þrífast vel í stórborgarumhverfinu þar sem mikið er um að vera. Hún útskrifast úr myndlistarnáminu næsta vor. „Ég sérhæfi mig í olíumálun og mála aðallega portrettmyndir. Ég hef í bland verið að nota gamalt fundið myndefni mér til innblásturs, og svo sitja samnemendur mínir líka mikið fyrir. Síðastliðið ár hef ég verið að teikna og mála senur í sundlaugum. Ég elska sund, og sakna þess alveg ótrúlega,“ segir Helen.

Það sem heillar einna mest við London er mannlífið og tískan en Helen fylgist vel með tískunni sem hún segir einstaklega skemmtilega og engin ein stefna sé réttari en önnur. „Það er mikið af listafólki þar sem ég bý í Austur-London. Ég vinn mikið í Soho og þar er mikið af flottu fólki í áhugaverðum fötum og svo er ég líka umkringd fallega klæddu fólki í vinnunni. London er svo frjáls, það er pínu uppreisnarandi í borginni. Ég elska til dæmis Kaupmannahöfn en alltaf þegar þú kemur þangað sérðu sama mynstrið í tískunni.“

Helen segir fólk sem er leiðandi í tískuheiminum í London ekki sækjast eftir að ganga í áberandi merkjavöru, það grefur frekar upp notaða gullmola. „Ég dýrka að sjá fólk í fötum sem ég get ekki ímyndað mér hvar manneskjan fékk,“ segir Helen en síðastliðin ár hefur hún keypt flest sín föt notuð. „Ég elska að gramsa og er búin að vinna heimavinnuna mína áður en ég fer af stað. Ég á reyndar allt of mikið af fötum. Skáparnir eru fullir af fötum, ég er eiginlega með föt í ofninum. Það er markaður í London sem er í miklu uppáhaldi hjá mér sem selur föt frá til dæmis Viktoríutímabilinu og öðrum tímabilum,“ segir Helen sem nefnir að hún hafi keypt hálsstykki með blúndu á slíkum markaði en hálsklæðið er alveg einstakt.

Málverk eftir Helen.
Málverk eftir Helen.

Fyrir hverju ertu spennt núna?

„Núna finnst mér kvenleg og aðsniðin föt í anda sjötta áratugarins mjög skemmtileg en ég klæði mig alveg líka í víðar gallabuxur. Svo er ég tryllt spennt að sjá hvað Phoebe Philo gerir í haust en þá verður fyrsta sýningin hennar síðan hún stofnaði eigið merki. Hún var áður listrænn stjórnandi hjá Céline og Chloé.“

Er eitthvað sem þú myndir aldrei klæðast?

„Crocs er fyrirbæri sem ég rosalega bágt með að skilja. Næ þessu ekki alveg. Ekki einu sinni fyrir þægindin.“

Er eitthvað á óskalistanum fyrir veturinn?

„Mig langar núna í hvíta skóskíða ullarkápu. Ég er með það á heilanum að finna þannig notaða.“

Ekkert toppar gott sjálfsöryggi

Áttu gott fegurðarráð?

„Ég er oft með bauga og bólgin í kringum augun þegar ég vakna, sérstaklega þegar ég þarf að vakna snemma til að fara í tökur. Ég nota oft klaka til að fríska upp á húðina og ná bólgu niður, nú er reyndar hægt að kaupa einhver spes klakamót til að setja í fyrstinn. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið. Svo er það sólarvörn og retinol, þetta er það sem ég hef heyrt reyndari fyrirsætur mæla með. Retinol er málið! Þetta gerir allar svitaholur pínulitlar og heldur húðinni ferskri. Þú þarft færri húðvörur en þú heldur.“

Hvað finnst þér fallegt í fari fólks?

„Fólk sem ber sig vel og geislar af sjálfsöryggi finnst mér svo töff og aðdáunarvert. Það er auðvitað hægara sagt en gert að vera fullkomlega sáttur í eigin skinni, en mér finnst það alveg sjúklega aðlaðandi þegar fólk er sátt með sig.“

Ert þú sjálfsörugg?

„Já, ég myndi segja það svona almennt. En það verður svo sem að viðurkennast að maður verður alveg ofurmeðvitaður um sjálfan sig og spáir alltof mikið í eigið útlit þegar vinnan manns snýst um það að miklu leyti,“ segir Helen.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál