„Hinn fullkomni staður fyrir brúðkaupið okkar“

Sólin lék við Steingrím Gauta Ingólfsson og Hjördísi Gestsdóttur á …
Sólin lék við Steingrím Gauta Ingólfsson og Hjördísi Gestsdóttur á brúðkaupsdaginn. Veðurblíðan kom þeim skemmtilega á óvart. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Hjördís Gestsdóttir hönnuður og Steingrímur Gauti Ingólfsson myndlistarmaður giftu sig á Kjarvalsstöðum í fyrrasumar. Eftir nokkurra ára trúlofun kom rétti tíminn og voru þau sammála um að Kjarvalsstaðir væru fullkominn staður til að ganga í það heilaga.

Hjördís og Steingrímur kynntust á Kaffibarnum árið 2009 í gegnum sameiginlega vini. „Við trúlofuðumst árið 2016 í skíðabrekku í Austurríki og ætluðum alltaf að gifta okkur og halda veislu fljótlega í kjölfarið en svo var einhvern veginn aldrei rétti tíminn,“ segja Hjördís og Steingrímur Gauti um trúlofunina en í fyrra kom loksins rétti tíminn.

„Við vorum trúlofuð í sjö ár og breyttust hugmyndir okkar um brúðkaupið nokkuð á þeim tíma. Við ákváðum á endanum að við vildum gifta okkur í Reykjavík en vorum lengi að hugsa okkur um hvaða staðsetning væri heppileg. Lengi var planið að halda veisluna bara heima. En svo kom þessi hugmynd eiginlega til okkar óvart, en við erum tíðir gestir á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum þar sem við búum örstutt frá. Við sátum þar einn daginn og horfðum í kringum okkur og vissum bæði að þetta væri hinn fullkomni staður fyrir brúðkaupið okkar,“ segja hjónin um valið á staðnum.

Fagurfræðin á Kjarvalsstöðum heillaði Steingrím Gauta Ingólfsson og Hjördísi Gestsdóttur.
Fagurfræðin á Kjarvalsstöðum heillaði Steingrím Gauta Ingólfsson og Hjördísi Gestsdóttur. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Dreymdi um að hanna eigin brúðarkjól

Hvernig var dagurinn ykkar?

„Dagurinn hófst á undirbúningi hvort í sínu lagi með vinum okkar. Því næst var förinni heitið yfir á Kjarvalsstaði þar sem við fórum í stutta myndatöku með dætrum okkar tveimur. Athöfnin fór svo fram á Kjarvalsstöðum í glampandi sólskini þar sem Grétar Halldór Gunnarsson prestur gaf okkur saman. Eftir athöfn var skálað og síðan slegið upp veislu með veitingum frá Marentzu Poulsen. Högni Egilsson og Teitur Magnússon sáu svo um að halda fjörinu uppi ásamt öðru frábæru tónlistarfólki og trylltum gestasöngvurum.“

Fór mikill tími í undirbúning?

„Við pöntuðum salinn með árs fyrirvara en svo vorum við frekar róleg í langan tíma. Aðalundirbúningurinn fór fram nokkrum mánuðum fyrir brúðkaupið og svo bara rétt fyrir stóra daginn. Það er í mörg horn að líta þegar kemur að því að plana brúðkaup og hefðum við ekki getað þetta án aðstoðar okkar nánustu,“ segja þau.

Eitt af því sem þurfti að finna út úr fyrir stóra daginn voru fötin en Hjördís var með ákveðnar hugmyndir varðandi brúðarkjólinn.

„Ég er menntaður fatahönnuður og hafði alltaf séð fyrir mér að hanna minn eigin brúðarkjól. Ég endaði á því að gera það með hjálp frá Sigríði Ágústu fatahönnuði sem sá svo líka um að sauma hann. Það var frábært samstarf og dýrmæt minning,“ segir Hjördís.

Höfðu störf ykkar sem listamanna áhrif á daginn?

„Í rauninni ekki nema það að við völdum þessa staðsetningu sem höfðar til okkar fagurfræði. Við vildum halda skreytingum í lágmarki og leyfa húsinu að njóta sín en fengum þó góða hjálp við að skreyta salinn með villtum blómum úr náttúrunni.“

Hjördís hannaði brúðarkjólinn með hjálp frá Sigríðu Ágústu fatahönnuði.
Hjördís hannaði brúðarkjólinn með hjálp frá Sigríðu Ágústu fatahönnuði. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Gott að sleppa tökunum á brúðkaupsdeginum

Hjónin segja daginn hafa verið fullkominn og spilaði margt inn í.

„Fyrir það fyrsta lék veðrið við okkur og byggingin og garðurinn ljómuðu í sólskininu. Athöfnin var mjög falleg – einlæg og persónuleg, en Högni og Salóme Katrín sungu tvö dásamleg lög. Það var líka mjög gaman að hlusta á allar ræðurnar og svo voru skemmtiatriðin hreinlega á heimsmælikvarða,“ segja þau.

Kom eitthvað á óvart yfir daginn eða í öllu ferlinu?

„Veðrið var sigurvegarinn og kom svo sannarlega skemmtilega á óvart. Annað sem kom svolítið á óvart var hvað við vorum í raun róleg og slök og náðum að skemmta okkur vel þrátt fyrir að vera að halda þessa stóru veislu sem við höfðum verið að undirbúa lengi og hugsa um í mörg ár.“

Er eitthvað sem þið mælið með fyrir verðandi hjón?

„Verið ófeimin við að biðja um hjálp í undirbúningnum. Svo reyndist okkur vel að sleppa síðan tökunum þegar að deginum kom.“

Steingrímur Gauti og Hjördís kynntust árið 2009. Hjónin eiga nú …
Steingrímur Gauti og Hjördís kynntust árið 2009. Hjónin eiga nú tvær dætur sem tóku þátt í brúðkaupsdeginum með þeim. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál