Ekki skila gæsinni áfengisdauðri heim eða steggnum heim í gifsi!

Guðrún Selma Sigurjónsdóttir

Það er orðin hefð að gæsa og steggja vini sem eru að fara gifta sig, eins amerískt og það þótti fyrir einhverjum árum. Það er hægt að gera margt skemmtilegt yfir daginn sem allir hafa gaman af. Gott er að hafa í huga að það eru ekki allir til í að taka smálán fyrir deginum, auk þess sem nokkrar hættur ber að varast þegar dagurinn er skipulagður.

Morgunmatur!

Mikil víndrykkja fylgir oftast gæsun og steggjun. Það hefur aldrei þótt sniðug hugmynd að drekka á tóman maga. Það er tilvalið að byrja daginn á góðum dögurði áður en vinahópurinn fer að hella í sig. 

Að gera stegginn eða gæsina að fífli!

Það þarf að meta vandlega þennan dagskrárlið enda hafa skipuleggjendur ekki alltaf sömu væntingar til dagsins og steggurinn eða gæsin. Vinsældir þess að klæða menn upp í Borat-sundskýlu á Laugaveginum eða senda gæsir drukknar í Kringluna að óska eftir smokkum eru ekki jafnmiklar og áður. Maður er þó manns gaman og getur verið ódýr leið að senda verðandi brúði eða brúðguma í fíflagang í hálftíma ef líklegt er að viðkomandi hafi húmor fyrir slíku.

Hefur steggurinn húmor fyrir Borat-skýlu?
Hefur steggurinn húmor fyrir Borat-skýlu? Ljósmynd/Imdb

Varist áhættu!


Þegar fjör færist í leikinn getur verið gott að sleppa öllum áhættuíþróttum og áhættumat því nauðsynlegt. Það vill enginn bera ábyrgð á því að gæsin endi daginn uppi á slysadeild eða brúðguminn gangi í það heilaga í gifsi. Ekki skipuleggja fallhlífarstökk eftir mikla drykkju – svo ekki sé talað um að henda steggnum út í sjó og skilja hann eftir.

Baðlón

Ef dagurinn á umfram allt að vera notalegur er sniðugt að skella sér í baðlón saman. Nóg er í boði. Það er til dæmis hægt að fara í Sky Lagoon, Hvammsvík, Skógarböðin, Secret Lagoon eða Laugarvatn Fontana, svo eitthvað sé nefnt.

Danstími!

Það er gaman að fara í danstíma og engin krafa um grunntækni eða liðleika. Í danstímanum taka allir þátt og ekki ofuráhersla á stegginn eða gæsina. Margrét Erla Maack dansdrottning er ein af þeim sem taka að sér að kenna gæsa- og steggjahópum. Hún mælir með að farið sé í danstíma snemma að deginum. Eftir klukkan fjögur er fólk orðið of „sósað“ eins og hún orðar það á heimasíðu sinni. Hefur hún lent í því að gæs hefur dáið áfengisdauða á meðan vinkonurnar fóru í danstímann.

AFP
Margrét Erla Maack.
Margrét Erla Maack. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Veljið þema!

Það hristir hópinn saman að vera með þema. Gæsin eða steggurinn þarf að klæðast áberandi fatnaði. Það gerir daginn enn skemmtilegt ef vinirnir eru í stíl við þemað. Þemað getur tengst áhugamáli eða einhverju úr æsku. Enn og aftur þarf þemað ekki að kosta mikið – kannski er nóg að allir vinirnir mæti í hvítu eða bleiku.

Út úr bænum!

Það er tilvalið að enda kvöldið uppi í bústað, það er yfirleitt einn bústaður í stórvinahópnum. Þar er hægt að grilla eða taka með sushi og eiga notalegt kvöld saman og jafnvel fara í pottinn. Kostnaðurinn er ekki svo mikill og helgin verður betri og lengri. Daginn eftir vakna allir saman og hlæja yfir rugli gærdagsins.

Pavlo Kolotenko

Sopateljari!

Stundum er keypt sterkt vín fyrir aðalpersónu dagsins. Steggurinn og gæsin eru látin drekka við ýmis tilefni. Það getur verið ágætis regla að einhver einn haldi utan um þennan lið í staðinn fyrir að þrír mæti með flösku og allt í einu er steggurinn eða gæsin dáin áfengisdauða fyrir kvöldmat.

Kostnaður!

Komið ykkur saman um upphæð og skipuleggið daginn út frá því. Það er hægt að lágmarka kostnaðinn með því að sleppa því að bóka rútu og bílstjóra. Góðir vinir sem ætla að vera á bíl geta þar með keyrt hópinn á milli. Það þarf heldur ekki rútu ef dagskráin fer
fram í einu póstnúmeri. Í staðinn fyrir að fara út að borða um kvöld er hægt að borða heima. Oft er heimatilbúin dagskrá skemmtilegri en aðkeypt þjónusta. Í vinahópnum leynist líklega einn verkefnastjóri, annar excel-snillngur, einn tónlistarmaður og einn bakari. Nýtið fjölbreytileikann í vinahópnum og sparið peninga!

Morgunblaðið/Kristinn Magnússon






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál