Er hægt að breyta þreyttu sambandi í eldheitt ástarsamband?

Tinna Rut Torfadóttir svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá sál­fræðistof­unni Sál­ar­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá manni sem hefur verið á föstu í 13 ár en finnst sambandið vera orðið að vinasambandi - ekki eldheitu ástarsambandi. 

Góðan dag.

Ég og kærastan mín erum búin að vera saman í 13 ár. Ég elska hana mjög mikið en upplifi að samband okkar sé meira vinasamband í dag og hefur verið það síðustu ár. Ég þrái hins vegar ást og umhyggju sem mér finnst ég ekki vera að fá frá henni, en ég er hræddur við að ég sé með óraunhæfar væntingar til ástarsambanda og þori því ekki að ræða þetta við hana. Hvað get ég gert til að átta mig betur á stöðunni sem ég er í?

Ég er alveg týndur.

Kveðja, 

BV

Er hægt að gera þreytt ástarsamband að eldheitu ástarsambandi?
Er hægt að gera þreytt ástarsamband að eldheitu ástarsambandi? Travis Grossen/Unsplash

Sæll.

Takk fyrir þessa spurningu.

Mikilvægast af öllu er að þú takir samtalið við hana, ræðir við hana um þína líðan, upplifun og hverjar þínar væntingar eru til sambandsins ykkar. Að vera hreinskilinn og segja það sem býr í þínu hjarta er mikilvægasta af öllu þó svo að það geti verið erfitt samtal.

Auðvitað gerist það stundum að langtímasambönd þróist meira út í vináttusamband en ástarsamband, en þá er gott að staldra við og skoða hvað það var sem gerði það að verkum að sambandið ykkar fór að þróast út í vinaáttina. Var það vegna þess að sambandið sat á hakanum vegna anna undanfarin árin? Oft gerist það að það gleymist að rækta sambandið, því mikill tími fer í nám, vinnu, barneignir, barnauppeldi og það að reka heimili. Ef það gæti verið það sem gerðist í ykkar sambandi þá væri hægt að reyna að einbeita ykkur að því að að rækta sambandið, til dæmis að taka frá tíma fyrir ykkur tvö í þeim tilgangi að vera einungis kærustupar og veita hvort öðru fulla athygli.

Hægt að skipuleggja ákveðin deitkvöld eða eitthvað í þeim dúr. Stundum er það þannig í samböndum að pörin eru ólíkir einstaklingar, annar aðilinn gæti verið meira fyrir nánd og það að tjá tilfinningar sínar á einn eða annan hátt á meðan hinn aðilinn er ekki þar. Ef það er raunin í ykkar sambandi þá er það einnig mikilvægt að taka samtalið, eins og ég nefndi hér áðan, að ræða ykkar væntingar til sambandsins og vera óhrædd við það. Þú nefndir að þú þorir ekki að ræða við hana því þú ert hræddur um að vera með óraunhæfar væntingar til ástarsambanda.

Ég hvet þig til að reyna að ýta þessari hugsun til hliðar þ.e.a.s. að þú sért með óraunhæfar væntingar til ástarsambanda, uppskrift af hinu fullkomna ástarsambandi er ekki til og þó hún væri til þá myndi sú uppskrift alls ekki henta öllum, það er ekki hægt að nota „One size fits all“ í þessum efnum frekar en öðrum. Þarna er mikilvægast af öllu að vera einlægur, hreinskilinn, hlusta á hjartað sitt og ræða sínar hugsanir og tilfinningar (væntingar) við maka sinn. 

Þá gerist það stundum í langtímasamböndum að pör þroskast sem einstaklingar í ólíkar áttir sem gerir það að verkum eins og þú segir að ástarsambandið verður meira eins og vinasamband þó svo að manni þykir vænt um maka sinn. Rannsóknir hafa sýnt að þegar hjónabönd og sambönd enda þá er sjaldnast um að kenna einungis rifrildum. Ástæðan er miklu frekar minni nánd og lítil tilfinningaleg tengsl.

Ég myndi ráðleggja ykkur í framhaldinu að leita til hjónabandsráðgjafa, oft er gott að ræða hlutina við fagaðila og spegla þannig líðan ykkar og væntingar til sambandsins. Einnig gæti verið gott fyrir þig að leita til fagaðila (til dæmis sálfræðings) einn þíns liðs fyrst um sinn, til að átta þig betur á þínum tilfinningum og væntingum, þar sem þú nefnir að þú sért alveg týndur í þinni stöðu.

Gangi þér og ykkur sem allra best!

Kveðja,

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál