Hvernig er hægt að losna við hundaótta?

Lítill drengur er logandi hræddur við hunda. Hvað er til …
Lítill drengur er logandi hræddur við hunda. Hvað er til ráða? Victor Grabarczyk/Unsplash

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af syni sínum sem er hræddur við hunda. Hvað er til ráða?

Sæl.

Strákurinn minn sem er að verða 3 ára er mjög hræddur við hunda. Þetta er það mikil hræðsla að amma hans sem á þrjá hunda getur ekki tekið hann til sín. Það skiptir engu máli stærðin á hundinum hann er hræddur við alla sem hann sér en sérstaklega ef þeir eru svartir. Þetta er hræðsla sem hefur alltaf verið en hefur versnað mikið síðustu mánuði.

Ertu með eitthvað ráð fyrir okkur á foreldrana hvernig er hægt að tækla þetta vandamál?

Kveðja H

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæl

Lýsing þín hljómar eins og sonur þinn sé að glíma við yfirdrifinn ótta gagnvart hundum en taka þarf tillit til aldurs hans og þroska. Hann er enn mjög ungur og þá er algengt að börn óttist ýmislegt. Það köllum við aldursvarandi ótta gagnvart ýmsum hlutum eða aðstæðum.

Viðbrögð ykkar foreldra skipta miklu máli í þessum aðstæðum. Þegar börn þjást af miklum kvíða og líður illa er eðlilegt að foreldrar vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta barninu sínu líða betur. Má segja að svokölluð verndarviðbrögð foreldranna séu vakin. Algengt er að foreldrar fari að hughreysta barnið, geri jafnvel hluti fyrir barnið sem það óttast og hjálpi því að koma sér undan kvíðavekjandi aðstæðunum. Þessi viðbrögð foreldra eru eðlileg og mjög skiljanleg við vanlíðan barnsins. Hins vegar eru foreldrarnir með þessu að gefa í skyn að barnið sé ekki í stakk búið til að takast á við „hættulegu“ aðstæðurnar, það sé á einhvern hátt viðkvæmara en aðrir og þurfi því á alveg sérstakri vernd foreldra sinna halda. Auk þess eru foreldrar með þessu að koma í veg fyrir að barnið takist á við „hættulegu“ aðstæðurnar og sjái að engin ástæða er til að óttast þær.

Á þennan hátt er í raun og veru verið að viðhalda kvíðanum og með tímanum magna hann upp. Það sem foreldrar ættu að gera þegar barn er mjög kvíðið er einmitt að hafa trú á að barnið geti tekist á við aðstæðurnar og hvetja það áfram, í stað þess að hlífa því.

Þar sem sonur ykkar er mjög ungur að aldri þá myndi ég hvetja ykkur til þess að skoða myndir af hundum með honum, leyfa honum að handfjatla hundabangsa, lesa bækur um hunda með honum, fá einn hund hjá ömmu lánaðan í heimsókn heim til ykkar, fara með hann í göngutúr þar sem sonur ykkar kannski situr í kerrunni og fer með. Klappa hundinum fyrir framan hann, hvetja hann til þess að klappa honum líka.

Kíkja í heimsókn til ömmu og kannski koma því þannig fyrir að einn hundur sé bara á svæðinu og svo væri hægt að  fjölga í hópnum þegar hann væri orðinn öruggari. En hjálpa þarf syni ykkar að takast á við það sem hann óttast í hæfilegum og smáum skrefum. Ég hvet ykkur eindregið til að lesa bókina „Hjálp fyrir kvíðin börn“. Þá mæli ég einnig með námskeiðinu ,,Litlir klókir krakkar”. Ef þessi ráð duga ekki til og ótti hans fer stigvaxandi með komandi árum þá myndi ég hvetja ykkur til þess að leita til sálfræðings eftir nánari ráðgjöf og meðferð.

Gangi ykkur sem allra best.

Kveðja,

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert