Er hægt að hjálpa fólki sem vill ekki hjálp?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Samsett

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur áhyggjur af frænda sínum. 

Sæl.

Ég veit ekki hvort að ég sé með réttmæta spurningu en ég læt vaða. Ég á frænda sem við fjölskyldan höfum miklar áhyggjur af (hann er sjálfráða). Hann er bara í þunglyndi heima og vinnur ekki og er eitthvað í vímuefnum. Hann á ekki mikið af vinum og er bara einn með sjálfum sér alla daga. Hann neitar allri hjálp sem foreldrar hans reyna að fá fyrir hann. Þetta var glaður, vel gefinn og skemmtilegur einstaklingur en það gerðist eitthvað sem enginn veit um og hann fór bara inn í skel sína.

Er einhver staður félagsskapur þar sem hægt er að biðja um aðstoð fyrir sjálfráða einstaklinga sem vilja ekki hjálp. Einhverjir sem vilja koma heim til hans og spjalla við hann fjölskyldan er bara vitlaus og veit ekki neitt. En einstaklingur utan heimilis er allt annað. Takk fyrirfram ef þú gefur þér tíma og getur eitthvað sagt okkur hvað við getum gert.
Kveðja, 

JB

Sæl

Takk fyrir þessa spurningu. Þetta getur verið afar snúið þegar einstaklingurinn sjálfur sem er í vanda neitar allri aðstoð. Það sem þið getið gert er að reyna að sá fræjum í átt að betra lífi. Þið getið gert það með því að veita honum athygli, láta hann finna að hann skiptir máli og að ykkur þykir vænt um hann og hans velferð í lífinu. Reyna að skapa með honum samverustundir og hvetja hann til virkni. Aðstoða hann við að draga fram styrkleika sína með því að hvetja hann áfram og hrósa. Reyna að forðast eins og þið getið að gagnrýna hann og tuða yfir hans stöðu. Það gæti gert það að verkum að hann dragi sig enn meira til hlés.

Auðvitað væri best fyrir hann að fá aðstoð sérfræðings eins og t.d. sálfræðings til að vinna með líðan sína, lýsing þín hljómar eins og hann hafi ef til vill lent í einhverju, en þú segir að hann hafi verið glaður, vel gefinn og skemmtilegur einstaklingur en hafi allt í einu lokað sig af.

Þið getið leitað til félagsþjónustunnar í ykkar sveitarfélagi, þó hann neiti að fara þá getið þið fjölskyldan hans leitað eftir ráðgjöf og fengið upplýsingar um möguleg úrræði sem myndu henta honum og ykkur. Einnig langar mig að benda ykkur á, því þú nefnir að hann sé að fikta við vímuefni, að þið getið leitað til SÁÁ – Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (saa.is). En þar er í boði þjónusta SÁÁ við fjölskyldur og er ætluð aðstandendum fólks með fíknisjúkdóm hvort sem einstaklingurinn hefur farið í meðferð eða ekki. Þar er einnig í boði viðtalsþjónusta alla virka daga frá 8:15 – 12:00 og 13:00 – 16:00. Hana geta allir aðstandendur nýtt sér, bæði þeir sem vita að einhver þeim nákominn eigi við áfengis- og vímuefnavanda að stríða og hinir sem eru í vafa og vilja fá upplýsingar og greiningu. Hægt er að panta tíma í síma 530-7600.

Gangi ykkur öllum sem allra best!

Kveðja, Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál