Mikilvægt að lesa eina glæpasögu um páskana

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar ætlar að njóta þess að slaka …
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar ætlar að njóta þess að slaka á og lesa um páskana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar bókaormur nýtir hverja lausa stund sem hún hefur til þess að lesa. Í páskafríinu ætlar Jana, eins og Kristjana er kölluð, að slaka á og lesa páskakrimma. Páskaskrautið verður líka tekið fram en gulur er einmitt uppáhaldslitur Jönu.

Jana er umvafin bókum og lesefni alla daga en hún er bókasafns- og upplýsingafræðingur og starfar sem slíkur við skylduskil á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

„Ég kem úr bókelskandi fjölskyldu og hef alla ævi verið umkringd stórum og miklum bókaskápum, bæði heima hjá foreldrum mínum en líka hjá ömmu og afa. Ég er alin upp við að sjá fullorðið fólk lesa og það var mikið lesið fyrir mig sem barn. Bókasafnsferðir voru tíðar og langamma mín tók það upp á sína arma að kenna mér lestur svo ég var læs þegar ég byrjaði í grunnskóla. Það þurfti reyndar að kenna mér að skrifa suma sérhljóðana rétt því ég hafði lært að lesa upp úr gamalli lestrarbók sem afi minn átti og þar voru sérhljóðarnir skrifaðir upp á gamla mátann þar eð é var skrifað je og svo framvegis.

Ég byrjaði því snemma að lesa sjálf og uppgötva hvað það getur verið yndislegt að koma sér fyrir með góða bók og hverfa inn í annan heim. Það er það sem fær mig til að lesa. Við lestur á bókum skyggnist maður inn í aðra heima sama hvernig tegund af bók þú lest. Maður gleymir sjálfum sér og sínum stað í smástund og fyrir mér er það ákveðin aftenging og slökun. Lestur er í rauninni mín hugleiðsla. Ég kemst út úr stressi og álagi hversdagsins í smástund enda les ég líklega aldrei eins mikið eins og þegar álag er mikið,“ segir Jana.

Páskaegg og fallegar greinar eru hluti af páskaskrauti Jönu.
Páskaegg og fallegar greinar eru hluti af páskaskrauti Jönu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held athyglinni betur á bókinni“

Hvernig heldur þú utan um lesturinn þinn?

„Ég held utan um lestur minn á tvenns lags máta. Ég er með reikning á Instagram sem heitir @janahjorvarreads sem ég setti upp fyrir sjálfa mig fyrir fjórum árum eða svo. Þar birti ég myndir af bókum sem ég hef lesið og stutta frásögn um hvað mér fannst um þær. Markmiðið með þessum reikningi var að finna aðra sem hafa áhuga á lestri, bæði Íslendinga og aðra, og þannig gæti ég kynnst öðrum bókaormum og fengið hugmyndir að bókum. Ég hef aldrei náð að tilheyra virkum bókaklúbbi í raunheimum því ég hef aldrei gefið mér tíma í það og því fannst mér þetta tilvalin leið til að finna bókavini. Þessi reikningur hefur gefið mér mikið því ég hef kynnst fullt af fólki í gegnum hann sem er æðislegt. Fyrir tilstilli hans kynntist ég meðal annars því frábæra fólki sem heldur úti bókmenntavefnum Lestrarklefinn.is og skrifa ég stundum fyrir þann vef. Ég hef einnig kynnst útgefendum og rithöfundum, sem er heldur ekki leiðinlegt.

Ég nýti svo líka vefsíðu sem heitir Goodreads við að merkja þær bækur sem ég hef lesið og sé þá þar einnig til dæmis hvað ég er búin að lesa margar bækur á árinu. Þessi vefsíða er samfélagsmiðill fyrir bækur og maður getur fylgt vinum sínum þar. Þannig getur maður séð hvaða bækur vinir manns eru að lesa og þannig fengið hugmyndir að bókum til að lesa en það er líka hægt að leita eftir bókum með því að fletta upp titlum eða höfundum.“

Jana segist oft vera spurð hvernig hún hafi tíma til að lesa eins mikið og hún geri. Svarið er einfalt.

„Ég nýti hvert tækifæri sem ég hef til lesturs og stundum eru þau mörg og stundum örfá. Ég hef alltaf verið týpan sem er með bók með sér, alveg frá því ég var barn. Fyrst var pappírsbókin alltaf í töskunni en núna er það rafbókappið í símanum. Svo ef ég er á biðstofunni hjá lækninum, í hárgreiðslu eða með aðrar dauðar stundir þá gríp ég í lestur frekar en leik í símanum. En það sem ég geri aðallega er að ég les í stað þess að horfa á sjónvarp á kvöldin. Ég fæ meiri slökun út úr því að lesa heldur en að horfa á sjónvarp og því gríp ég frekar bókina heldur en sjónvarpsfjarstýringuna. Svo er það kannski smá sérstakt en ég held athyglinni betur á bókinni heldur en á sjónvarpinu. Ég er alltaf farin að gera eitthvað annað þegar sjónvarpið er í gangi heldur en ef ég sit með bók. En vandamál okkar allra og það sem stendur í vegi fyrir okkur flestum þegar kemur að lestri er snjallsíminn. Það er alveg ótrúlegt hvað við getum óvart eytt heilum klukkutímunum í ekkert í símanum í stað þess að gera eitthvað annað sem gefur okkur meira eins og til dæmis að lesa. Ég glími við það vandamál alveg eins og aðrir. Mitt ráð þar er að skilja símann eftir á hljóðlausri stillingu í öðru herbergi eða allavega það langt frá þér að þú þarft að standa upp til að kíkja á hann.“

Gulur er í miklu uppáhaldi. Hér er hægt að - …
Gulur er í miklu uppáhaldi. Hér er hægt að - koma sér vel fyrir með góða bók. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ertu búin að ákveða hvað þú ætlar að lesa um páskana?

„Það er gríðarlega vinsælt að tengja lestur um páska við glæpasögur en það er algengt að tala um að grípa í einn góðan páskakrimma. Ég les glæpasögur líkt og aðrir en þó kannski ekki jafn oft og ég les aðrar tegundir af bókum en gríp þó í allavega eina glæpasögu um páska og mun gera það um þessa páska alveg örugglega og er með eina í huga. Það er samt áhugavert hvað ég á það til að lesa mismunandi efni eftir því hvaða tími ársins er en ég er líka gríðarlega gjörn á að velja bækur eftir skapi. Ég gríp allavega eina glæpasögu alltaf um páska, ekki spurning, en svo er það léttleiki og rómans mikið yfir sumarið og um jólin er það jólabókaflóðið næstum því eins og það leggur sig.“

Jana gerir aðeins páskalegt á borðstofuborðinu þar sem fjölskyldan ver …
Jana gerir aðeins páskalegt á borðstofuborðinu þar sem fjölskyldan ver góðum tíma saman. Kristinn Magnússon

Gulur minnir á sumarið

Hvernig skreytir þú um páskana?

„Ég á ekki mikið af páskaskrauti en ég á þó nokkra hluti og skreyti ég mest borðstofuborðið og svæðið í kringum það en það borð er miðpunktur fjölskyldulífs heimilisins ef svo má segja. Þar borðum við allar máltíðir en þar læra börnin líka, föndra og leika sér og það sama gerum við foreldrarnir. Þess vegna legg ég áherslu á að skreyta þar, því við erum mest þar en svo fær sófaborðið reyndar líka smá skraut því við erum líka mikið í sófanum með bækurnar eða að horfa á sjónvarpið.“

Af hverju er gulur uppáhaldsliturinn þinn?

„Þegar stórt er spurt. Kannski því hann minnir á sól og hlýju og svo passar hann með svo miklu. Það eru hlutir heima hjá mér sem eru gulir en ég klæði mig líka í gulan. Þessi litur gefur bara svo mikla birtu á svo margan hátt. Hvort sem þetta er gulur hlutur sem lýsir upp annars litlaust svæði eða gul flík sem lýsir upp annars dökkan og litlausan fatnað. Gulur veitir birtu, minnir okkur á sumarið og vekur gleði.“

Kertastjakinn er orðinn páskalegur.
Kertastjakinn er orðinn páskalegur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Páskablað
Páskablað mbl.is/Kristinn Magnússon
Páskablað
Páskablað mbl.is/Kristinn Magnússon

Slökun í fyrirrúmi

Jana og fjölskylda eru með það markmið að gera ekkert.

„Við fjölskyldan erum eins og margar fjölskyldur með mikið prógramm flesta daga sem tengist vinnu og einkalífi svo við reynum alltaf að nýta páskafríið í slökun og leik. Jólafríið fer alltaf í smá amstur því það eru matarboð, jólaboð og annað en það er ekkert þannig hjá okkur um páska svo við reynum að plana ekkert og gera svo bara það sem okkur langar að gera. Við höfum eytt heilum páskafríum í lestur, spil og sjónvarpsgláp með dass af göngu- og hjólaferðum um hverfið okkar en við höfum líka eytt þeim í „spontant“ tiltekt í bílskúrnum og lóðinni umhverfis húsið okkar. Markmiðið með páskafríinu nú í ár er að reyna að láta bílskúrstiltektina ekki ná tökum á okkur og hafa slökun í fyrirrúmi. Vonandi tekst það.“

Ætlar þú að fá þér páskaegg og áttu uppáhaldsmálshátt?

„Ég er ekki mikið fyrir páskaegg og kaupi mér yfirleitt frekar eitthvert gott konfekt fyrir páskana. Hinsvegar er nauðsynlegt að fá allavega einn málshátt svo ég fæ alltaf eitt lítið páskaegg svo ég fái málshátt. Minn uppáhaldsmálsháttur er „Bók er best vina“ sem ég fékk tvö ár í röð upp úr páskaeggi fyrir einhverjum árum og miðað við hversu mikill bókaormur ég hef alltaf verið þá þótti fjölskyldunni það ferlega skondið, sem það var.“ 

Jana mælir með góðum bókum fyrir páskana

„Ef ætlunin er að halda í þá hefð að lesa páskakrimma þá get ég mælt með tveim bókaseríum. Sú fyrsta er serían um Österlen-morðin eftir Anders de la Motte og Måns Nilsson sem Forlagið gefur út í íslenskri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur en fyrsta bókin heitir Dauðinn á opnu húsi og seinni bókin kom út nú um daginn og heitir Banvænn fundur. Ég á eftir að lesa seinni bókina en ég ætla einmitt að gera það um páskana. Þetta eru týpískir löggukrimmar nema það er ekki bara úrill karlkynslögga í aðalhlutverki þó slíkan karakter sé vissulega að finna í bókunum. Seinni glæpasöguserían eru bækur Freidu McFadden sem Drápa gefur út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal. Fyrri bókin heitir Undir yfirborðinu og sú seinni Það sem þernan sér. Þær eru alveg frábærar, halda manni við lesturinn frá fyrstu blaðsíðu.

Ef mann langar hinsvegar í hugljúfan lestur þá er ég mjög spennt fyrir bók sem ég hef ekki lesið ennþá en ég ætla mér að lesa hana um páskana sem mótvægi við glæpasöguna. Það er bókin Takk fyrir að hlusta eftir Juliu Whelan en hún er gefin út af Bókabeitunni sem hluti af nýjum bókaklúbbi þeirra, Bókhildi. Ég er mikið fyrir ástarsögur og hugljúfar bækur en ég er líka mjög hrifin af sögulegum skáldsögum og heimildaskáldsögum svo ég má einnig til með að mæla með tveim heimildaskáldsögum sem ég las um daginn en fóru alveg framhjá mér þegar þær komu út. Það eru bækurnar Aldrei nema kona og Aldrei nema vinnukona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur. Bækurnar fjalla báðar um ævi nokkurra ættliða kvenna úr Skagafirði á átjándu og nítjándu öld. Ótrúlegar sögur af erfiðri lífsbaráttu þessara kvenna og virkilega vel skrifaðar,“ segir Jana.

Banvænn fundur eftir Anders de la Motte og Måns Nilsson.
Banvænn fundur eftir Anders de la Motte og Måns Nilsson.
Það sem þernan sér eftir Freidu McFadden.
Það sem þernan sér eftir Freidu McFadden.
Aldrei nema vinnukona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur.
Aldrei nema vinnukona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál