„Við Hjálmar erum mjög ólík en eigum þó margt sameiginlegt“

Ljósbrá Logadóttir er alltaf að læra og ögra sjálfri sér …
Ljósbrá Logadóttir er alltaf að læra og ögra sjálfri sér en segir endurmenntun ekki alltaf fara fram í háskóla. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ljósbrá Logadóttir útskrifaðist með Executive MBA-gráðu frá Háskóla Íslands í júní síðastliðnum. Við þau tímamót kjósa nemendur árgangsins þann nemanda sem þau telja sig hafa lært mest af í náminu. Ljósbrá fékk þá viðurkenningu. Áhugasviðið liggur víða og áður en hún tók grunnnám í lögfræði lærði hún ljósmyndun á Spáni en hún er fróðleiksfús og hefur alltaf fundist gaman í námi. 

„Pabbi minn heitinn sem sjálfur vann mikið erlendis hafði lagt mikla áherslu á það við mig að læra tungumál. Ég fór því sem skiptinemi til Ástralíu þegar ég var í öðrum bekk í menntaskóla. Þegar ég svo kláraði Kvennaskólann fór ég að læra spænsku á Salamanca á Spáni og hélt svo til Barcelona í tveggja ára ljósmyndanám. Það hafði alltaf blundað í mér að læra ljósmyndun en ég sló þarna tvær flugur í einu höggi því námið var á spænsku. Það var verulega krefjandi fyrir málglaðan extrovert að geta ekki tjáð sig í tímum og ég upplifði að ég náði ekki að mynda setningar nógu hratt til að geta tekið þátt í umræðunni.

Þegar ég svo kom heim langaði mig annaðhvort í grafíska hönnun eða lögfræði. Ég vissi að lögfræðin myndi ögra mér verulega og að ég þyrfti að temja mér öguð vinnubrögð. Hafandi verið í listnámi þar sem áherslan var á að hugsa út fyrir boxið og koma fram með nýjar og ferskar hugmyndir, þá var það ákveðinn skellur þegar kennari á fyrsta ári í lögfræðinni útskýrði fyrir mér að það væri lítil eftirspurn eftir persónulegri skoðun minni á dómum og löggjöf, ég þyrfti að temja mér hinn júridíska þankagang ef ég ætlaði að koma mér í gegnum námið,“ segir Ljósbrá.

Lögmennskan heillaði ekki

Ljósbrá er óhrædd við að taka ákvarðanir og fara nýjar leiðir. Hún segir metnað sinn frekar fólginn í því að klára það sem hún tekur sér fyrir hendur og ögra sjálfri sér, frekar en að vera með ákveðinn starfstitil til æviloka.

„Ég hóf meistaranám í lögfræði samhliða vinnu í Byr banka þar sem ég var teymisstjóri yfir skuldavanda einstaklinga. Ég hafði mikinn áhuga fyrir þessu viðkvæma og flókna viðfangsefni og ákvað að setja námið til hliðar en ég var alltaf ákveðin í því að klára meistaranám. Lögfræðin var nám sem hentaði mér vel en ég vissi þó fljótlega eftir að ég kom út á vinnumarkaðinn að mig langaði ekki að starfa sem lögmaður svo ég fór að skoða master í viðskiptafræðum. Ég tók eina önn í stjórnun og stefnumótun en fann að það hentaði mér ekki að vera í hefðbundnum dagskóla og í fullri vinnu,“ segir Ljósbrá sem tók diplóma í viðskiptafræði á BA-stigi samhliða vinnu.

Eftir að hafa kynnt sér MBA-námið ákvað hún að láta slag standa þegar hún var búin að afla sér góðrar starfsreynslu. „Þegar ég svo skráði mig í námið þá fann ég að ég var mjög tilbúin til að taka þetta skref, en mig var farið að vanta að ögra sjálfri mér og læra meira.“

Gamaldags frekjumenning að líða undir lok

Ljósbrá byrjaði í nýrri vinnu hjá Origo í stöðu sem kallast Business Improvement Manager og fann þá fljótlega hversu mikið námið hafði fært henni. „Sérstaklega fann ég hvernig aukin þekking á aðferðafræði og tækni við að tileinka sér flókin viðfangsefni á skömmum tíma nýttist mér vel. Mér finnst námið einnig hafa kennt mér að meta kosti öflugrar teymisvinnu enn betur,“ segir hún.

„Ég valdi að skrifa lokaverkefni um hlutverk leiðtoga á breyttum vinnustöðum, en þær breytingar sem nú eru að eiga sér stað, með aukinni áherslu á mikilvægi öflugra leiðtoga og minnkandi eftirspurn eftir hinum leyndardómsfulla „freka“ yfirmanni, finnst mér verulega áhugaverðar. Ég fann strax að Origo er vinnustaður sem er að gera góða hluti í þessum efnum og það hefur verið virkilega skemmtilegt og gefandi að taka þátt í umræðum og leiðtogaþjálfun hjá Origo þar sem rými er fyrir nútímalega stjórnun og gamaldags frekjumenning er að líða undir lok. Ég upplifi því að allur sá tími sem ég eyddi í að lesa mér til um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í stjórnun hafi eflt mig verulega og gert vinnulíf mitt mun skemmtilegra, en ég veit að ég hefði aldrei gefið mér tíma til að kafa svo djúpt í viðfangsefnið eins og ég þurfti að gera til að skila af mér góðu lokaverkefni. Mér fannst þeim tíma því vel varið og ég lærði mikið á að vinna lokaverkefnið.“

Hvað stóð upp úr í náminu?

„Ferðin til Barcelona þar sem við sóttum námskeið í stjórnun hjá IESE er í mínum huga hápunktur námsins. Námskeiðið var framúrskarandi og tengingin sem kennararnir náðu við hópinn á þessum skamma tíma var frábær. Nemendahópurinn var svo saman í næði frá vinnu og amstri dagsins og okkur tókst þar af leiðandi að kynnast enn betur og mér fannst hópurinn koma þéttari heim.“

Ljósbrá fann að hún var tilbúin þegar hún skráði sig …
Ljósbrá fann að hún var tilbúin þegar hún skráði sig í MBA-námið. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mikilvægt að biðja um hjálp

Margir kannast við þig eða hafa að minnsta kosti heyrt skemmtilegar sögur af þér og fjölskyldu í hlaðvarpinu Hæ hæ sem Hjálmar maðurinn þinn stýrir. Ert þú líka með húmorinn að vopni?

„Við Hjálmar erum mjög ólík en eigum þó margt sameiginlegt. Við erum bæði mjög lífsglöð, vinmörg og opin og deilum því áherslum um í hvað við eigum að eyða tíma okkar. Ég hef alltaf tamið mér að vera ekki að gera of mikið úr hlutunum og ég held að það samræmist vel lífsskoðunum Hjálmars.“

Er flókið að vera með ung börn, sinna krefjandi starfi og skella sér í nám?

„Ég held að lykillinn að því að láta þetta ganga sé að vera ekki að taka þessu öllu of alvarlega. Mitt uppáhalds slagorð er „keep it simple“ og ég reyni að beita því í öllum aðstæðum í lífinu. Það er stór ákvörðun að fara í nám með fullri vinnu og maður þarf að vera tilbúinn til að gefa suma hluti tímabundið upp á bátinn. Börnin mín voru bæði á leikskólaaldri á meðan ég var í náminu og það gerði það að verkum að ég gat stýrt því hvort þau væru í tómstundum utan leikskóla. Ég þurfti t.d. að hætta við að fara með son minn í Suzuki-tónlistarnám því ég fann að það var að veita mér meiri streitu en ánægju þar sem ég sat með gítar í fanginu að reyna að spila „Kópavogur hopp stopp“. Að stýra tómstundum barna sinna er kannski ekki hægt þegar börnin eru orðin eldri og hafa þegar hafið íþróttaiðkun og félagslíf þeirra er orðið öllu flóknara.

Mér fannst mikilvægt að biðja mitt nánasta fólk um aðstoð strax í upphafi, mamma mín, tengdamamma og systir mín komu allar sterkar inn gagnvart heimilinu mínu og börnunum. Síðan vorum við Hjálmar staðráðin í að láta þetta ganga upp og vera ekki að upplifa að við værum að missa af einhverju þó að við þyrftum að afþakka ýmis boð og skemmtilegheit með vinum og vandamönnum. Á skólahelgum hittumst við oft í dyrunum og Hjálmar fór beint að skemmta fram á kvöld. Ég pantaði þá bara mat og kúrði fram á kvöld með krökkunum. Þetta er bara stutt tímabil og allt í einu er þetta búið.“

Langar þig að læra meira?

„Ég upplifi ákveðinn ótta við að staðna og verða íhaldssöm og ég held að það muni keyra mig áfram í að halda sífellt áfram að læra og víkka sjóndeildarhringinn minn. Það að vera víðsýnn er fólgið í svo mörgu öðru en að sækja sér háskólagráðu. Heimurinn er að breytast hratt og ég hef þá trú að við höfum öll gott af endurmenntun, hvort sem það fer fram með því að horfa á heimildarmynd eða leggja stund á nám. Ég les mikið af bókum um stjórnun og stefnumótun og sæki alls konar námskeið á LinkedIn Learning því ég hef mikla þörf fyrir að skilja hluti betur sem ég er að vinna að. Í vetur ætla ég þó einnig að gefa mér tíma til að læra að elda indverskan mat og skilja töfra þess að blanda saman ýmsum kryddum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál