Á vinnudegi dýralækna getur allt gerst

Bára Eyfjörð Heimisdóttir dýralæknir og formaður Dýralæknasambandsins.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir dýralæknir og formaður Dýralæknasambandsins.

Íslendingar sem vilja leggja stund á dýralæknanám þurfa að komast að við erlenda skóla og liggur straumurinn einkum til Slóvakíu. Bára Eyfjörð Heimisdóttir segir starfið ekki bara kalla á áhuga á dýrum heldur ekki síður færni í mannlegum samskiptum.

Bára Eyfjörð Heimisdóttir segir störf dýralækna bæði fjölbreytt og skemmtileg auk þess að geta verið ákaflega gefandi. „Starfið býður upp á mikinn fjölbreytileika og þá kannski sérstaklega hjá þeim dýralæknum sem starfa í almennum praksís en þá veit dýralæknirinn sjaldnast hvernig dagurinn kemur til með að verða. Suma daga er fengist við „rútínustörf“, en oft koma upp mikil ævintýr, og alveg sérstaklega gefandi þegar vel tekst til og hægt er að hjálpa alvarlega veikum eða slösuðum dýrum.“

Bára er formaður Dýralæknafélags Íslands og segir hún að þeir sem vilja leggja dýralæknastörf fyrir sig þurfi að stunda námið að öllu leyti erlendis. „Okkur telst til að í dag séu á bilinu 60 til 70 Íslendingar í dýralæknanámi víðs vegar um Evrópu. Flestir fara til Slóvakíu en einnig vitum við af nemendum við háskóla á Norðurlöndunum, í Ungverjalandi og á Spáni.“

Námið er yfirleitt á bilinu fimm til sex ár að lengd og segir Bára að stúdentspróf af raungreinabraut veiti tilvonandi dýralæknum ágætis undirbúning fyrir það sem námið krefst af þeim. „Svo eru sumir sem fara þá leið að skrá sig í dýralæknanám að loknu námi í búvísindum á Hvanneyri eða taka undirbúning frá Háskólanum hér heima, t.d. í líffræði, en um er að ræða krefjandi nám og getur verið erfitt fyrir umsækjendur að tryggja sér skólavist.“

Geta gengið í fjölbreytt störf

Ekki skortir atvinnutækifærin og minnir Bára á að dýralæknar vinna víðar en í almennum praksís við að lækna dýr. „Í skoðanakönnunum á meðal nemenda segjast iðulega 90% þeirra ætla að vinna við almennan praksís, en raunin er sú að einungis um 40-50% enda í hefðbundnum praksísstörfum. Helmingur þeirra starfar t.d. við ýmiss konar rannsókna- og vísindastörf eða við eftirlitsstörf. Í dag er t.d. að eiga sér stað mikill vöxtur í fiskeldi á Íslandi og þar mun vafalítið verða töluverð eftirspurn eftir færum dýralæknum.“

Þær stöður sem helst hefur reynst erfitt að manna eru við eftirlitsstörf og þjónustudýralæknastöður í dreifðari byggðum úti á landi. Segir Bára það ljóst að ef illa gengur að manna þessar stöður þá bitni það á endanum á þjónustu við bændur og gæludýraeigendur, og ekki síst á velferð þeirra dýra sem þurfa þjónustuna. „Það er að mörgu leyti skiljanlegt að illa gangi að fylla þessar stöður enda þurfa þjónustudýralæknar að sinna stóru svæði og á þeim hvílir rík vaktaskylda. Þá starfa þeir mikið einir og þeim verkefnum sem þeir sinna fylgir mikil ábyrgð.“

Bára segir heldur ekki hægt að neita því að kjör dýralækna mættu vera mun betri. „Stéttin hefur dregist aftur úr í launakjörum á undanförnum 20 til 30 árum borið saman við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Helstu breytingar eru þær að áður fyrr voru flestir dýralæknar opinberir starfsmenn en í dag er stór hluti þeirra sjálfstætt starfandi. Þjónustudýralæknarnir eru síðan með verktakasamning við ríkið. Verktakasamningurinn getur verið fráhrindandi fyrir ungt fólk að því leyti að erfitt getur reynst að láta starfið og fjölskyldulífið ganga upp m.a. vegna þess að þeim reynist erfiðara að losa sig frá vinnu s.s. til að taka hefðbundið sumarleyfi eða fæðingarorlof, en í því sambandi má nefna að af þeim Íslendingum sem ljúka dýralæknanámi eru um 80% konur.“

Svipaða sögu er að segja um skyldur lækna sem starfa í almennum praksís til að taka þátt í vaktasamstarfi utan hefðbundins opnunartíma. „Þar er unnið eftir samningi frá árinu 1999 sem er fyrir löngu orðinn úreltur og launakjörin ekki til þess fallin að hvetja fólk til að fórna frítíma sínum fyrir bakvaktir.“

Snýst um mannfólkið rétt eins og dýrin

Spurð hvaða hæfileika góður dýralæknir þarf að hafa til að bera segir Bára að mikill áhugi á dýrum sé vitaskuld nauðsynlegur, en starfið kalli líka iðulega á góða færni í mannlegum samskiptum. „Það er hluti af störfum dýralækna að þurfa að svæfa dýr til að lina þjáningar þeirra og þarf ákveðna næmni og færni til að styðja við eigandann sem bundist hefur dýrinu sínu sterkum tilfinningaböndum, og leiðbeina honum við að taka mjög erfiða ákvörðun,“ segir hún. „Við sjáum það sem fagfólk hvenær það er rétt og tímabært að veita veikum dýrum þessa hvíld, en það getur verið áskorun að koma eigandanum í skilning um að það sé farsælasta lausnin.“

Segir Bára að þeir sem hafa áhuga á námi í dýralækningum en vita ekki hvort þeir ráði við erfið verkefni eins og að svæfa dýr, gætu t.d. athugað möguleikann á því að fá vinnu sem aðstoðarmaður á dýraspítala og þannig fá að kynnast mest krefjandi hliðum dýralæknastarfsins. Bætir Bára við að það verði æ sjaldgæfara að aflífa þurfi frísk og heilbrigð dýr, þar sem ýmis samtök sjálfboðaliða á Íslandi vinni frábæra vinnu við að hýsa og hjálpa gæludýrum í heimilisleit, og í langflestum tilfellum takist að finna heimili fyrir dýr sem eigandi þarf af einhverjum ástæðum að láta frá sér.

Þurfa á góðu stuðningsneti að halda

Um aðra hæfileika sem prýða ættu tilvonandi dýralækna segir Bára að flest það sem starfið kallar á lærist með reynslunni og þá bjóði dýralækningar upp á alls kyns sérhæfingu í framhaldi af grunnnámi þar sem fólk getur kafað dýpra og endurmenntað og sérhæft sig á sínu áhugasviði. „Dýralæknar á Íslandi eru metnaðarfullir og það verður sífellt algengara að fólk fari í framhaldsnám og sæki sér sérfræðikunnáttu innan t.d. smádýralækninga og hrossa,“ útskýrir hún. „Það sem helst getur reynst nemendum erfitt í byrjun er að henda sér út í „djúpu laugina“ og að þurfa oft og tíðum að taka erfiðar ákvarðanir og leysa krefjandi verkefni einir og óstuddir. Þess vegna er mjög gott að nota tímann eftir útskrift til að öðlast dýrmæta reynslu undir leiðsögn annarra dýralækna, t.d. á stofu. Dýralæknastéttin er líka fámenn stétt og er ómetanlegt að eiga gott stuðningsnet sem hægt er að leita til þegar upp koma erfið tilfelli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál