Heimsókn Gordon Ramsay stendur upp úr á 1 árs afmælinu

Í dag, fimmtudaginn 18. apríl fagnar veitingastaðurinn OTO Reykjavík 1 …
Í dag, fimmtudaginn 18. apríl fagnar veitingastaðurinn OTO Reykjavík 1 árs afmæli sínu. Sigurður Laufdal segir að það sem standi upp úr á árinu sé heimsókn Gordon Ramsay Michelin-stjörnukokks. Samsett mynd

Í dag, fimmtudaginn 18. apríl fagnar veitingastaðurinn OTO við Hverfisgötu 44 í Reykjavík 1 árs afmæli sínu. Er þetta fyrsti veitingastaðurinn sem Sig­urður Laufdal matreiðslumaður opnar og hefur heldur betur slegið í gegn.

Sigurður hefur komið víða við á sín­um ferli; allt frá því að vera kos­inn mat­reiðslumaður árs­ins, keppa í Bocuse D'Or og vinna sem sous chef á ein­um þekkt­asta veit­ingastað heims, Geranium í Kaupmanna­höfn. Reynsla og þekkingin sem hann býr yfir hefur svo sannarlega komið sér vel á OTO.

Gleðja gestina sína með hinni frægu OTO sítrónu

Í tilefni 1 árs afmælisins verður öllum gestum staðarins boðið upp á freyðivínsglas og hina vinsælu OTO sítrónu sem heillað hefur matargesti upp úr skónum til að deila í eftirrétt.

OTO sítrónan hefur slegið í gegn og er langvinsælasti eftirréttur …
OTO sítrónan hefur slegið í gegn og er langvinsælasti eftirréttur staðarins. Matargestir kvöldsins fá að njóta hennar. Ljósmynd/Micaela Ajanti

Hvernig hefur þetta fyrsta ár verið?

„Eintóm hamingja en á sama tíma krefjandi. Það er smá bilun að opna veitingahús á Íslandi þegar allt er undir og það er ekkert plan B, en blessunarlega þá höfum við fengið góðar viðtökur og erum við gífurlega þakklát fyrir það og alla okkar góðu viðskiptavini,“ segir Sigurður.

Hefur staðurinn staðið undir væntingum?

Fyrir mitt leyti já, ég hefði ekki getað skrifað þessa sögu mikið betur sjálfur. Er með öflugt teymi með mér í eldhúsinu og þjónustunni í salnum, sem skiptir öllu máli til að skapa framúrskarandi upplifun fyrir okkar gesti.“

Þegar hinn eini sanni Gordon Ramsey labbaði inn

Hvað stendur upp úr á eins árs afmælinu?

„Fyrst og fremst allt það hrós sem við höfum fengið frá okkar gestum, höfum eignast okkar fastagesti sem mér þykir mjög vænt um. Og svo má að sjálfsögðu ekki gleyma því þegar hinn eini sanni Gordon Ramsay labbaði inn og lofaði staðinn eins mikið og hægt er og kom okkur á ratarinn. Fyrir það er ég mjög þakklátur og það sýndi okkur líka að við erum að gera rétta hluti í eldhúsinu, að fá þennan gæðastimpil frá honum, að ógleymdri þjónustunni. Hann var gífurlega ánægður með hvoru tveggja. Mat og þjónustu,“ segir Sigurður að lokum og hlakkar til að fagna 1 árs afmælinu í kvöld með því að dekra við matargesti staðarins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert