Graskersbrauð sem yljar þér um hjartarætur

Ljúffengt og fallegt graskersbrauð sem mun ylja þér alla leið.
Ljúffengt og fallegt graskersbrauð sem mun ylja þér alla leið. Ljósmynd/Anna Guðný Torfadóttir

Er eitthvað betra en volgt nýbakað brauð sem yljar manni alveg inn að hjartarótum? Hér er komin uppskrift að einu slíku, graskersbrauði sem er glútenlaust, inniheldur ekki hvítan sykur og er vegan. Heiðurinn af uppskriftinni á Anna Guðný Torfadóttir hjá Heilsu og vellíðan en hún er iðin að þróa nýja uppskriftir af ýmsu góðgæti sem er gott fyrir líkaman og sál.

Gefa mér hlýju, gleði og ást

„Ég var veik heima um daginn og leiddist óbærilega mikið. Ég kíkti hvað ég átti til í skápunum og fór að ígrunda hvað ég gæti gert sniðugt. Þá fæddist hugmyndin að þessari uppskrift og það besta var, að hún heppnaðist í fyrstu tilraun. Sem er smá eins og að vinna í lottóinu fyrir uppskriftaskapara. Allar uppskriftir koma svona til mín, sem hugmynd sem ég verð að prufa akkúrat núna. Þegar ég hoppa á þessar hugmyndir, þá fæðist ávallt eitthvað stórkostlegt. Þetta brauð er búið að gefa mér mikla hlýju, gleði og ást. Núna á mjög stuttum tíma er ég búin að baka brauðið þrisvar sinnum og það hefur slegið í gegn hjá þeim sem hafa verið svo heppnir að fá að smakka. Nú eru þið líka að detta í lukkupottinn því  hér er uppskriftin góða og þá getið þið fundið fyrir þessum töfrum sem ég er að reyna að lýsa í orðum,“ segir Anna Guðný með bros á vör.

Má leika sér með krydd

Það má leika sér endalaust með krydd í uppskriftinni sem heilla þig. Þetta er í rauninni kryddbrauð ef þú kryddar það þannig en getur líka verið milt kanilbrauð. Brauðið er að best að mati Önnu Guðnýjar með kókosolíu og grófu salti eða með hnetusmjöri og epli. Nú er bara að prófa og athuga hvort þá bræðir þitt matarhjarta.

Guðdómlegt!
Guðdómlegt! Ljósmynd/Anna Guðný Torfadóttir

Graskersbrauð

  • 5 dl haframjöl
  • 1,5 dl möndlumjöl
  • 1 dl kókosmjólk (úr dós, frekar þykk)
  • ½ dl kókosolía, brædd
  • ½ butternut squash grasker (300 g) það fer inn í ofn
  • 1,5 lífræn epli, skræld, fara líka inn í ofn
  • 2 msk. möluð chiafræ
  • 3 tsk. kanill
  • 1 dl kókospálmasykur
  • 1 tsk. kardemommuduft
  • ¼ tsk túrmerik
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 tsk. eplaedik
  • Gróft salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 200°C hita.
  2. Skerið næst graskerið í helming og leggið það svo á „magann“ eða á hvolf eins og sagt er þannig að hýðið vísi upp í eldfast mót.
  3. Bakið í ofni við 200°C  hita í 20 mínútur. Bætið þá við grófskornum eplunum í formið.
  4. Þegar þið getið stungið hníf í gegnum graskerið þá er það tilbúið. Sama á við eplin.
  5. Takið út og leyfið að kólna.
  6. Setjið þurrefnin í matvinnsluvél og malið helst niður í duft.
  7. Bætið næst blautefnum saman við í matvinnsluvélina ásamt graskerinu og eplunum.
  8. Blandað vel saman og smakkið til með kryddunum. Hikið ekki við að aðlaga að bragðið að ykkar bragðlaukum og notið þau krydd sem toga í ykkur að hverju sinni.
  9. Setjið deigið er í form klædd bökunarpappír.
  10. Bakið brauðið við 180°C í 60 mínútur.
  11. Þegar að 20 mínútur eru eftir af bökunartímanum takið brauðið úr forminu og látið bakast áfram til að það fái smá stökka skorpu.
  12. Leyfið brauðinu að jafna sig í 2-3 klukkustundir eftir að þið takið það úr ofninum svo það molni ekki.
  13. Þessi bið er erfiðust en er þess virði.
  14. Berið fram með því sem hugurinn girnist og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert