Hvítvín úr ítalskri þrúgu sem á sér langa sögu

Eins og vínið sjálft er þrúgan ítölsk að uppruna og …
Eins og vínið sjálft er þrúgan ítölsk að uppruna og nefnist Fiano, en hún á sér þar langa sögu og er meðal annars talin vera þrúgan á bak við fornrómverska vínið Apianum. Samsett mynd

Nýtt hvítvín frá Suður-Ítalíu, Ambàce frá Schola Sarmenti, fæst nú í völdum Vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er unnið úr þrúgu sem ekki ratar oft til Íslands. Eins og vínið sjálft er þrúgan ítölsk að uppruna og nefnist Fiano, en hún á sér þar langa sögu og er meðal annars talin vera þrúgan á bak við fornrómverska vínið Apianum.

„Það er gaman að geta bætt svona við úrval hvítvíns hér á Íslandi,“ segir Þórarinn Víkingur Grímsson, framkvæmdastjóri Liber ehf., sem flytur vínið til landsins frá víngerðinni Schola Sarmenti í ítalska héraðinu Puglia.

Tappinn úr gleri í stað korks

„Þetta er raunar nýtt vín frá víngerðinni, og er gert úr blöndu af Fiano og Chardonnay, en þrúgurnar tvær leika einstaklega vel saman,“ segir Víkingur. „Velunnarar Chardonnay hafa því nú eitthvað spennandi að smakka.“ Vínið er ferskt, meðalfyllt, og hentar bæði með mat sem og eitt og sér.

„Það er á þessum hárrétta stað, á milli þess að vera sætt og þurrt, og einkennist af perum, apríkósum og villiblómum. En eins frábært og vínið er, þá heillar flaskan ekki síður. Á henni er skemmtileg nýjung, en það er glertappi í stað hins hefðbundna korks. Vínið er því umlukið ítölsku gleri, ef svo má segja. Og það sem meira er, þá má auðveldlega loka flöskunni aftur með sama tappa, vilji maður það.“

Nú þegar má finna þrjár gerðir rauðvíns frá Schola Sarmenti í Vínbúðunum, en þær komu í verslanir í desember.

„Viðtökurnar á rauðvíninu hafa satt að segja farið fram úr öllum okkar væntingum. Það er líka ljóst að fólk kunni vel að meta vínið með jólamatnum. Við teljum það sömuleiðis munu hæfa vel nú yfir vor- og sumartímann.“

Varð ekki aftur snúið

Fyrst um sinn verður hvítvínið til reynslu­sölu í Vínbúðum í Kringlunni, Heiðrúnu, Skútuvogi og Mosfellsbæ, en finna má allar nánari upplýsingar hér.

„Við erum spennt að sjá viðtökurnar. Fyrst stóð nefnilega ekki einu sinni til að flytja inn hvítvín frá víngerðinni, en eftir að við heimsóttum þau og fengum að bragða á því, þá varð einfaldlega ekki aftur snúið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert