Baldur segir fátt vera leiðinlegra en að vera svangur

Baldur Þórhallsson upplýsir lesendur matarvefsins um skemmtilegar matarvenjur og hefðir. …
Baldur Þórhallsson upplýsir lesendur matarvefsins um skemmtilegar matarvenjur og hefðir. Hann segist eiga það til að drekka óhóflega mikið magn af kaffi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og forsetaframbjóðandi er viðmæl­andi mat­ar­vefs mbl.is að þessu sinni. Baldur ferðast þessa dagana um landið og fundar með kjósendum. Hann býður þeim gjarnan upp á vöfflur með rjóma, en sjálfur er hann með mjólkuróþol og sleppir rjómanum. Hann víkur þó ekki frá þeirri reglu sinni að borða hollan og góðan mat, tryggir að hann fái sinn daglega grænmetisskammt og borðar ávexti inn á milli. Hann og Felix Bergsson, eiginmaður hans, reyna líka eftir fremsta megni að halda í morgunstundirnar sínar. „Við tökum okkur alltaf góðan tíma í morgunmatinn, sitjum saman og förum yfir allar nýjustu fréttir, drekkum kaffi og skiptumst á skoðunum. Það er afskaplega gott að vekja sál og líkama á þann hátt.“

Deilir fróðleik með fjölskyldunni

Baldur segist lesa töluvert mikið um mataræði og hollustu. „Ég hef líka séð marga áhugaverða þætti um efnið, til dæmis hjá BBC. Ég nota oft tækifærið og áframsendi upplýsingarnar á aðra í fjölskyldunni. Af einhverjum ástæðum eru þau ekkert alltaf himinlifandi með þessa áminningar mínar um að unnin matvæli séu af hinu illa og að það sé ekkert til sem heitir hollur skammtur af áfengi. Þessi dauflegu viðbrögð hvetja mig áfram, fremur en hitt,“ segir Baldur. 

Hvað færðu þér í morg­un­mat?

„Ég fæ mér oftast steikt egg, flatköku og grænmeti.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er gjarnan með hnetur og rúsínur í vasanum og get sótt mér orku þangað á milli mála. Svo gríp ég oft í cheerios og ef það er ekki til jurtamjólk þá set ég bara vatn á morgunkornið sem börnunum mínum finnst stórundarlegt.“

Fátt leiðinlegra en að vera svangur

Finnst þér ómiss­andi að borða há­deg­is­verð?

„Mér finnst allar máltíðir ómissandi og fátt sem mér finnst leiðinlegra en að vera svangur.“

Hvað áttu alltaf til í ís­skápn­um?

„Egg, flatkökur, hummus, spínat, papriku, gúrku og gulrætur.“

Upp­á­halds­grill­mat­ur­inn þinn?

„Fiskur er alltaf í uppáhaldi, hvort sem hann er soðinn, steiktur eða grillaður. Ég fæ aldrei nóg af fiski.“

Þegar þú ætl­ar að gera vel við þig í mat og drykk og vel­ur veit­ingastað til að fara á hvert ferðu?

„Góðir fiskveitingastaðir eru alltaf fyrsta val. Ég elska líka alls konar framandi mat og finnst einstaklega gaman að ferðast um fjölbreytta kryddheima. Þar er tælenskur matur í sérstöku uppáhaldi.“

Er ein­hver veit­ingastaður úti í heimi sem er á „bucket-list­an­um“ yfir þá staði sem þú verður að heim­sækja?

„Við Felix höfum ákaflega gaman að því að ferðast og reynum að ferðast til framandi landa reglulega. Ég kortlegg ekki ferðir mínar eftir veitingastöðum, læt frekar kylfu ráða kasti inn á hvaða veitingahús ég rata á ferðalögum. Oft heppnast það ákaflega vel en stundum verður maður auðvitað fyrir vonbrigðum. Það skiptir engu máli, allt er þetta áhugavert og eftirminnilegt, hvert á sinn hátt.“

Að sitja með barnabörnunum eftir leikskóla

Hvaða mat­ar­upp­lif­un stend­ur upp úr í lífi þínu?

„Hún tengist ekki matnum á boðstólum, heldur félagsskapnum. Ég veit ekkert dásamlegra en að sitja með barnabörnunum eftir leikskóla og borða með þeim niðurskorna ávexti eða lifrarpylsu með hafragraut. Veislurnar verða ekki betri.“

Hvað er það versta sem þú hef­ur bragðað?

„Ég er ekki matvandur og man ekki eftir einhverri hroðalegri upplifun. Matur er sjaldnast vondur, bara ákaflega misjafnlega góður.“

Upp­á­haldskokk­ur­inn þinn? 

„Felix er minn uppáhaldskokkur og hann hefur mjög gaman að því að elda. Bróðir hans Þórir rekur Snaps og er kokkur og það má því segja að þetta sé í ættinni. Best finnst mér hins vegar að fá einfaldan heimilismat eins og steiktan fisk í raspi og það er enginn sem gerir hann betur en Felix. Mamma mín hún Þorbjörg Hansdóttir var líka dásamlegur kokkur og sá alltaf til þess að allir væru saddir og sælir. Ég hef ekki enn fengið eins gott slátur eins og hún gerði eða hrossabjúga.“

Upp­á­halds­drykk­ur­inn þinn?

Ég er að mestu í vatninu og svo á ég það til að drekka óhóflegt magn af kaffi.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Salat.“

Baldur segir að það sé aldrei hátíðarmatur heima hjá þeim …
Baldur segir að það sé aldrei hátíðarmatur heima hjá þeim Felix í Túnsbergi án þess að hann beri fram Pik-Nik kartöflustrá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hætta að setja rúsínur og banana í fiskrétti

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Mér finnst skemmtilegra að elda en enda þá oftast í tilraunaeldamennsku og börnin hafa beðið mig að hætta að setja rúsínur og banana í fiskrétti svo ég læt Felix oftast um eldamennskuna sem og baksturinn.“

Ertu góður kokk­ur?

„Ég bjargast ágætlega. Barnabörnin eru sátt. Sumir siðir mínir þykja kannski ekki til marks um að ég sé á einhverjum Michelin-kvarða í eldamennskunni, til dæmis er aldrei hátíðarmatur hér heima hjá okkur í Túnsbergi án þess að ég beri fram Pik-Nik kartöflustrá. Mér finnst þau einfaldlega ómissandi. Rúsínu ástin skilar sér líka í hátíðarmatinn því ég bý til vegan romm- og rúsínuís á jólunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert