Rjómalagað vodka pasta sem þú átt eftir að elska

Þessi pastaréttur á eftir að koma þér á óvart. Hann …
Þessi pastaréttur á eftir að koma þér á óvart. Hann er svo dásamlega góður að þú átt eftir að elska réttinn. Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Hér er á ferðinni bragðgóður og öðruvísi pastaréttur sem kemur skemmtilega á óvart, svo ekki sé meira sagt. Sósan er látin bullsjóða svo áfengið sýður að mestu leyti í burtu en eftir stendur spennandi undirtónn eða keimur sem gefur réttinum nýstárlegt og skemmtilegt bragð. Uppskriftin kemur úr smiðju Helenu Gunnarsdóttur hjá Eldhúsperlum en hún kann svo sannarlega að gleðja bragðlaukana. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.

Rjómalagað vodka pasta

Fyrir 3

  • 300 g pasta, t.d. penne eða rigatoni
  • 2 msk. smjör
  • 1 stk. lítill laukur, smátt saxaður
  • 2 stk. hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1 dl vodka
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 msk. tómatpúrra
  • 250 ml rjómi
  • rifinn Óðals Tindur eftir smekk
  • salt, pipar og chili flögur, eftir smekk
  • fersk basilíka, má sleppa

Aðferð:

  1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakka.
  2. Bræðið smjör á pönnu og steikið lauk og hvítlauk þar til mýkist.
  3. Kryddið með salti, pipar og chilliflögum.
  4. Hækkið hitann og hellið vodkanu yfir, leyfið að sjóða í 1-2 mínútur.
  5. Bætið þá tómatmaukinu og tómatpúrrunni út á ásamt rjómanum.
  6. Leyfið að malla í 5 mínútur þar til þykknar aðeins og smakkið til með salti, pipar og chiliflögum.
  7. Bætið soðnu pastanu út á pönnuna og blandið vel saman.
  8. Toppið með vel af rifnum Óðals Tindi og e.t.v. ferskri basilíku.
  9. Berið fram strax með rifnum Óðals Tindi og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert