Sigurjón býður upp á girnilegan vikumatseðil

Sigurjón Bragi Geirsson matreiðslumeistari og landsliðskokkur á heiður­inn af vikumat­seðlin­um …
Sigurjón Bragi Geirsson matreiðslumeistari og landsliðskokkur á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni. Ljósmynd/Íslenska Kokkalandsliðið

Sigurjón Bragi Geirsson matreiðslumeistari og landsliðskokkur á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni. Sigurjón Bragi hefur slegið í gegn í sínu fagi og hefur unnið til fjölda verðlauna. Hann er líka góður í því að setja saman einfalda rétti sem allir ráða við og er vikumatseðillinn í þeim anda. Matseðillinn er fjölskylduvænn og inniheldur ljúffenga rétti fyrir bragðlaukana.

„Þar sem það er oft mikið að gera á stóru heimili reyni ég að hafa matinn sem einfaldastan á kvöldin. Ég og konan mín erum bæði í fullri vinnu og með þrjú börn svo það er aldrei lognmolla á heimilinu. Þá best að geta gert góðan og fljótlegan mat,“ segir Sigurjón Bragi.

Sigursæll kokkur og búinn að opna veisluþjónustu

Sigurjón Bragi veit engu að síður fátt skemmtilegra en að elda ljúffengan mat sem gleður bæði auga og munn. „Ég hef alltaf heillast af matreiðslu og eftir að kynnt mér fagið fór ég að keppa sjálfur. Ég sigraði í Kokkur ársins 2019 og stýrði Kokkalandsliðinu 2019-2020 þar sem við hrepptum 3. sæti á Ólympíuleikunum. Eftir að hafa keppt í stærstu og virtustu matreiðslukeppni í heiminum, Bocused´Or, ákváðum við Sindri Guðbrandur Sigurðsson kokkur að opna okkar eigin veisluþjónustu. Hún ber nafnið Flóra veisluþjónusta. Höfum við fengið alveg frábærar móttökur og ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni,“ segir Sigurjón Bragi en vert er að geta þess að Sindri meðeigandi hans er Kokkur ársins 2023 og verður fulltrúi Íslands á Bocused´Or á nýju ári.

Geggjað að fá hráefni beint frá birgi

„Mín ástríða í matargerð tengist mjög mikið hráefninu sem er í kringum okkur og hvaða árstíð er. Mínar uppáhaldsárstíðir eru sumarið og haustið þar sem mesti möguleikinn er að fá geggjað hráefni beint frá birgi. Einnig eru íslensku pönnukökurnar í miklu uppáhaldi hjá mér, ég fékk alltaf nýbakaðar pönnukökur hjá ömmu minni í Stykkishólmi þegar ég kom í heimsókn þar.“

Sigurjón Bragi tók saman draumavikumatseðilinn sinn fyrir komandi viku. Hann er fjölskylduvænn og inniheldur rétti sem allir ættu að ráða við.

Mánudagur – Cannelloni með spínati

Cannelloni er í uppáhaldi hjá minni fjölskyldu svo það er gott að byrja vikuna þannig.“ 

Syndsamlega ljúffengt cannelloni með spínatfyllingu.
Syndsamlega ljúffengt cannelloni með spínatfyllingu. Ljósmynd/Sjöfn

Þriðjudagur – Fiskréttur með indversku karrí og bönunum

„Á þriðjudögum er alltaf fiskur í matinn og við erum mikið fyrir indverskan mat svo þessi slær alltaf í gegn.“

Ljúffengur fiskréttur með indversku karríi og bönunum.
Ljúffengur fiskréttur með indversku karríi og bönunum. Ljósmynd/Sjöfn

Miðvikudagur – Taco með bræddum osti

Taco er í miklu uppáhaldi á heimilinu, klikkar aldrei.“

Girnilegt taco með bræddum osti sem gleður bragðlaukana.
Girnilegt taco með bræddum osti sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Valla

Fimmtudagur – Steiktur fiskur með hvítlaukssmjöri

„Við erum ekki alltaf nógu dugleg að borða fisk, þyrftum að borða fisk tvisvar í viku, en erum að reyna að laga það svo ég set inn eina uppskrift af steiktum fisk sem krakkarnir elska.“ 

Steiktur fiskur með hvítlaukssmjöri að hætti Maríu Gomez.
Steiktur fiskur með hvítlaukssmjöri að hætti Maríu Gomez. Ljósmynd/María Gomez

Föstudagur - Pítsuveisla

„Það kemur ekkert annað til greina en pítsa.“ 

Heimagerð pítsa steinliggur á föstudagskvöldi.
Heimagerð pítsa steinliggur á föstudagskvöldi. Ljósmynd/Linda Ben

Laugardagur – Kjúklingaréttur sem slær í gegn

„Er ekki allt í lagi að leyfa sér aðeins á laugardögum, hérna er stökkur kjúklingur og chips.“

Æðislegur kjúklingaréttur sem toppar laugardagskvöldið.
Æðislegur kjúklingaréttur sem toppar laugardagskvöldið. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Sunnudagur – Klassíska lambalærið eftir hefðinni 

„Hérna ætlum við að halda í hefðina og elda lambalæri, ekta íslenskt og gott.“

Gamla góða lambalærið klikkar aldrei.
Gamla góða lambalærið klikkar aldrei. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert