Flugið til Íslands tók Bjössa 59 tíma

Við merkingar á helsingja. Arnór Þórir Sigfússon, til hægri, hefur …
Við merkingar á helsingja. Arnór Þórir Sigfússon, til hægri, hefur merkt mikið magn af gæsum á Íslandi. GPS sendar hafa verið settar á fimmtán helsingja og gefa þeir mikilvægar og áhugaverðar upplýsingar um ferðir fuglanna og lifnaðarhætti. Fyrir miðju er Carl Mitchell og til vinstri Brynjúlfur Brynjólfsson. Ljósmynd/Brynjúlfur Brynjólfsson

Íslenski helsingjastofninn hefur vaxið ævintýralega frá aldamótum. Við upphaf aldarinnar voru nokkrir tugir para í Austur–Skaftafellssýslu en í dag telur stofninn tíu til tuttugu þúsund fugla og er orðinn mikilvægur hluti af stofni grænlensk/íslenskra helsingja sem telur um áttatíu þúsund fugla, að sögn Arnórs Þ. Sigfússonar dýravistfræðings hjá Verkís, sem fylgist með ferðum gæsa til og frá Íslandi.

Arnór hrinti af stað merkilegu verkefni árið 2016, sem hefur svo sannarlega undið upp á sig. Hann hóf að merkja grágæsir með GPS sendum þannig að hægt var fylgjast með ferðalagi þeirra frá Íslandi á vetrarstöðvar og aftur til baka og svo helsingja árið 2020.

Hraðametið í þessu flugi milli Íslands og Skotlands var sett haustið 2022. Í appelsínugulri veður viðvörun reif sig upp hópur helsingja og helsinginn Skálm þar á meðal, lagði í flug til Skotlands. „Það voru einhverjir þrjátíu metrar á sekúndu þegar hópurinn sem hún var hluti af hóf sig til flugs. Þær voru með sterkan vind í rassinn alla leiðina og meðalhraðinn reiknaðist út sem 125 kílómetrar á klukkustund. Flugið tók ekki nema um sjö klukkustundir,“ upplýsir Arnór.

Hér má sjá leið nokkura helsingja til Íslands nú á …
Hér má sjá leið nokkura helsingja til Íslands nú á vormánuðum. Hvíta lína er sú leið sem Bjössi og félagar fóru. Magnað er að sjá hvernig þeir taka skyndilega stefnu í norður og koma þá inn á Faxaflóa. Flugið tók 59 klukkustundir í mótvindi. Ljósmynd/Verkís

Annað var heldur betur uppi á teningnum nú í vor þegar helsinginn Bjössi lagði af stað til Íslands að vitja varpstöðva, í hópi gæsa. „Bjössi hreppti mikinn mótvind og hraktist af leið og þegar hópurinn var kominn suðvestur af Íslandi og stefnan var á suðurodda Grænlands tóku þær allt í einu nánast níutíu gráðu beygju og tóku stefnuna inn á Faxaflóa. Einhvern veginn áttuðu þær sig á því að stefnan var vitlaus og beygðu í norður og lentu svo á sjó og hafa að öllum líkindum verið alveg búnar á því. Þær létu sig reka þar í tólf tíma, væntanlega að hvíla sig og safna kröftum. Þær héldu svo á Snæfellsnes og munu í áföngum komast aftur á Jökulsárlón sem er þeirra heimaslóð.“ Arnór segir að við aðstæður sem þessar sé viðbúið að eitthvað af gæsum drepist á leiðinni og afar líklegt að einhverra spörfugla, sem hreppa slíkan mótvind, bíði sömu örlög enda geta þeir ekki lent á sjónum til að hvíla sig.

Bjössi og félagar hófu sig til flugs um níuleytið að morgni 6. apríl. Klukkan 20 að kvöldi áttunda lenti svo hópurinn, eða það af honum sem náði yfir hafið á Faxaflóa. Það jafngildir 59 klukkustundum á flugi og það í mótvindi. Það þarf engan að undra að Bjössi hafi þurft að hvíla sig vel eftir þessa þrekraun.

En hvað veldur því að Bjössi og félagar taka allt í einu þessa beygju í átt til lands? Ekki sjá þeir til lands og því afar merkilegt að sjá þessa afgerandi beygju og þar með stefnubreytingu. Um þetta segir Arnór. „Fuglarnir eru ofurlítið eins og við. Þeir nota það sem auðveldast er hverju sinni. Þeir nota himintunglin, stjörnur og sól, til að átta sig. Þeir hafa líka innbyggt segulsvið sem þeir geta nýtt sér ef þeir sjá ekki til himins. Svo er talið að þeir noti sjónina þegar þeir eru komnir yfir land. Þá nota þeir kennileiti og ég tók eftir því þegar ég var að elta sílamáfa að þeir fljúga gjarnan með veginum og nýta sér hann sem kennileiti. Þetta má sjá til dæmis þegar maður keyrir Hellisheiðina að oft fylgja þeir veginum. Sama á við ár. Það er alþekkt að flugmenn nýta sér sambærilegar aðstæður í sjónflugi.“

Arnór segir að fimmtán helsingjar beri GPS merki og vonast hann til að fá þá alla aftur en auðvitað er alltaf hætta á afföllum. „Það er ekki langt síðan að við fórum að merkja helsingja. Þeir eru frekar litlir og við tökum tillit til þess og erum með minni senda á þeim en öðrum gæsum. Sendarnir eru nítján grömm og það er frekar stutt síðan að farið var að framleiða svo litla og létta senda.“

Arnór með gæsina Jónas sem er merkt í bak og …
Arnór með gæsina Jónas sem er merkt í bak og fyrir. Hún er skírð í höfuðið á Jónasi í Hlað en fyrirtækið kostaði sendinn. Arnór hóf þetta verkefni á eigin vegum en nú hefur áhugi margra vaknað og þá snúast hjólin hraðar. Ljósmynd/ATS

Arnór hóf þessar GPS senda merkingar upp á eigin spýtur. Hann byrjaði á að merkja eina grágæs 2016. Árið eftir setti hann sendibúnað á fimm til viðbótar. „Ég leitaði til fyrirtækja og einstaklinga um að fjármagna kaup á sendunum. Í staðin máttu styrktaraðilar skíra fuglana. Ég gerði þetta með þessum hætti þar til fyrir þremur árum að allt í einu fengu Skotarnir áhuga og létu okkur fá 33 senda og ætla að koma áttatíu til viðbótar í sumar. Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofa Austurlands komu þá að verkefninu. Svipaða sögu er að segja um helsingja. Ég byrjaði á að leita til fyrirtækja með fyrstu sendana og svo kom umhverfisráðuneytið með tíu senda í hitteðfyrra. Náttúrustofa Suðausturlands hefur verið með mér í helsingjamerkingum og Náttúrufræðistofnun íslands kom svo inn í verkefnið þegar 10 viðbótarsendar komu í gegnum þau.“

Sendarnir safna mikilvægum upplýsingum, segir Arnór. Eitt er upplýsingar um vetrarstöðvar og hversu víða gæsirnar fara. Þá eru ekki síðar forvitnileg gögn sem safnast um beitilönd, hversu mikið þær eru í ræktarlöndun og náttúrulegum gróðri. Með því að bera staðsetningar fuglanna saman við gróðurkort má sjá hvaða gróður þeir sækja í. „Svo er líka áhugavert og merkilegt að fylgjast með þessu flugi gæsanna. Þær skila sér ekki alltaf allar og ein grágæs hvarf okkur sjónum 30. mars yfir hafi og hefur ekki komið fram aftur. Auðvitað er möguleiki á að hún sé utan þjónustusvæðis sendisins. Ég er að vona það. Hún gæti líka hafa gefist upp og drepist.“ Hann birtir áhugaverðar upplýsingar um ferðir gæsanna reglulega. Þegar hann setur þessar upplýsingar á facebook leiðir það iðulega til þess að upplýsingar berast víða að. Þannig hefur hann verið sambandi við sjómenn sem hafa deilt með honum upplýsingum af fuglum á fartíma sem þeir verða varir við. „Einn sjómaður sendi mér skeyti um að helsingjahópur hefði lent við skipið sem hann var á. Einn helsinginn lenti á skipinu og hann hafi verið svo aðframkominn að hann drapst. Ég sá líka vídeó frá trillusjómanni sem var fyrir austan land. Heiðagæs lenti fremst á trillunni og sat þar í góða stund og hvíldi sig. En hún hafði kraft til að rífa sig upp aftur og hélt áfram til lands.“

Arnór vitnar til þess að margir kannist við að hópar spörfugla dembi sér niður á skip á hafi úti og hvíli sig þar. En hann telur líka ljóst að þegar vindáttir eru óhagstæðar sé viðbúið að umtalsverð afföll séu á spörfuglum á leið til Íslands.

Þessi mynd var tekin í hálöndum Skotlands við Achiltibuie, nýlega. …
Þessi mynd var tekin í hálöndum Skotlands við Achiltibuie, nýlega. Martin Benson sendi hana til Arnórs og hér má greinilega sjá þrjá helsingja sem skarta plastmerkjum frá Arnóri og samstarfsaðilum. Ljósmynd/Martin Benson

Þegar helsinginn er búinn að taka land er næsta skref að halda heim á varpstöðvarnar. Mjög margir þeirra fugla sem verpa í Austur–Skaftafellssýslu verpa í Skúmey sem er eyja í Jökulsárlóni. Arnór segir að þar sé stærsta helsingjabyggðin sem telji um tvö þúsund pör. Einnig er töluverður fjöldi fugla sem verpir aðeins austar.

Stofninn hefur vaxið mjög hratt og segir Arnór að um tíma hafi hreinlega verið um að ræða veldisvöxt, svo hröð og mikil hefur fjölgunin verið. „Í fyrsta skipti sem ég merkti helsingja, árið 1999 þá voru þetta talin vera örfá pör. Við höfum sjálfsagt náð drjúgum hluta stofnsins á þeim tíma því við merktum um fimmtíu fugla. Í dag telur stofninn á Íslandi um þrjú þúsund pör og það segir okkur að heildarfjöldinn er á bilinu tíu til tuttugu þúsund fuglar þegar allt er talið. Geldfuglar og ungar. Þetta er orðinn góður hluti af heildarstofni grænlensk/íslenskra helsingja sem talinn er vera um áttatíu þúsund fuglar í heiminum í dag.“

Hann telur að stofninn geti áfram stækkað nemi helsinginn ný varplönd á Suðausturlandi eða víðar um land.

Helsingjafrú á hreiðri í Skúmsey. Fjölgun helsingja á Íslandi hefur …
Helsingjafrú á hreiðri í Skúmsey. Fjölgun helsingja á Íslandi hefur verið ævintýraleg á öldinni. Einungis voru nokkrir tugir para við Jökulsárlón um aldamótin. Í dag er stofninn tíu til tuttugu þúsund fuglar. Ljósmynd/Arnór Þórir Sigfússon

Fjöldi helsingja er nú merktur á hverju ári og segir Arnór að á bilinu þrjú til fimm hundruð fuglar fái plastmerki á fótlegg árlega. Fjöldi fólks sendir honum myndir af merktum fuglum og segir hann það mjög vel þegið. Nútímatækni í myndavélum og símum gerir auðveldara að lesa úr merkjum. „Ég var einmitt í vikunni að fá sendar myndir frá Skotlandi þar sem voru þrír merktir helsingjar saman og þetta voru fuglar sem við höfðum merkt við Djúpá á Mýrum í námunda við Hornafjörð,“ upplýsir hann.

Töluvert er um að áhugafólk um fugla í Skotlandi sendi honum myndir og eða upplýsingar um álestur af merkjum á fuglum. Það er minna um þetta hér á landi en Arnór segist þiggja með þökkum allar upplýsingar um merktar gæsir, hvort sem er helsingjar eða aðrar gæsir.

„Þegar ég var hjá Náttúrufræðistofnun í lok síðustu aldar merktum við mikið af heiðagæs með hálsmerkjum. Það var einn eldri maður í Skotlandi sem sendi okkur mikið af upplýsingum um gæsir. Þetta var hans ástríða og hann hlakkaði mikið til á haustin þegar gæsirnar fóru að fljúga á vetrarstöðvarnar í Skotlandi. Hann var kominn á eftirlaun og keyrði bara um sveitir og las af merkjum sem hann sá úr bílnum. Við nutum góðs af þessu áhugamáli hans.“

Fyrir áhugasama og þá sem sjá merkta helsingja þiggur Arnór allar upplýsingar. Hægt er að senda myndir eða aflestur af merkjum á netfangið hans ats@verkis.is.

Verkís verkfræðistofa er bakhjarl verkefnisins og segist Arnór hafa notið mikils velvilja hjá fyrirtækinu og að Verkís líti á þetta sem samfélagslegt verkefni. Þá hefur hann einnig fengið styrk úr Veiðikortasjóði og frá fleiri aðilum.

Veiði er stunduð á helsingja og er veiðitíminn frá 1. september til 15. mars.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert