Lagði rifflinum eftir ástarleik – myndir

Ingólfur Davíð í skothúsinu sem nú hefur öðlast nýjan tilgang.
Ingólfur Davíð í skothúsinu sem nú hefur öðlast nýjan tilgang. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Hann hafði skotið marga refi þennan vetur. Alla úr sama skothúsinu. Eina tunglbjarta nótt var hann að hann fylgjast með refum í ástarleik. Það gerðist eitthvað innra með honum. Hann skaut ekki og hefur ekki skotið ref síðan. Hann fór og keypti sér myndavél og tekur nú myndir af þessum harðfengu dýrum sem mannskepnan hefur áratugum saman reynt að útrýma, án árangurs. 

Ingólfur Davíð Sigurðsson hefur náð miklum árangri á skömmum tíma með myndavélina og hefur náð mörgum draumaskotum. „Ég er bara bakari. En svona þráhyggjuboltar eins og ég festast í svona verkefnum. Það eru stundum hundruð klukkustunda, jafnvel þúsundir á bak við einn ramma.“

Ingólfur myndar mikið dýr sem eru að veiða. Hér er …
Ingólfur myndar mikið dýr sem eru að veiða. Hér er refur nýbúinn að klófesta mús. Það geta verið margir dagar sem líða þar til rétta myndin næst. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Ingólfur Davíð segist alls ekki hafa fengið samviskubit þegar hann hætti að skjóta refi. „Þetta var meira svona ferli, einhvers konar þroskasaga. Ég er ekki á móti refaveiðum. Ég hins vegar er ekki hrifinn af yrðlingadrápi. Ég kláraði bara þennan pakka og er nú kominn á kaf í ljósmyndunina.“

Ingólfur var einkar lunkinn laxveiðimaður og fór á þeim vettvangi eins langt og hægt er að fara. Hann var í leiðsögn. Veiddi mikið og víða. „Ég hef ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta að veiða. Ég finn ekki lengur þennan fiðring og þessa löngun. Nú er ég meira að hugsa um að mynda ref að veiða mús, eða uglu að veiða mús. Mér finnst ég ekki eiga neitt eftir í veiðinni, þannig séð í laxveiðinni.“

Gamla lífið. Hann var einkar lunkinn við að setja í …
Gamla lífið. Hann var einkar lunkinn við að setja í og landa þeim allra stærstu. Þessi mældist 115 sentímetrar og veiddist í Vatnsdalsá haustið 2006. Nú fær hann ekki lengur fiðringinn. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Þessi sem þú tókst í Vatnsdalsánni haustið 2006 og mældist 115 sentímetrar hakaði í mörg box, eða hvað?

„Já. Hann gerði það og það er ágætispunktur. Það kannski hefur líka sitt að segja að ég missti son minn fyrir þremur árum og það hefur kannski orðið til þess að ég þoli illa við í veiðihúsum og „macho“ umhverfi. Hver veiddi stærsta laxinn og hver fékk flesta og þetta almenna skvaldur. Ég hef verið að hugsa út í þetta upp á síðkastið. Ég fæ mikla heilun út úr því að vera einn í náttúrunni og vera ótruflaður. Þessi lífsreynsla hefur kannski ýtt mér meir út í þennan farveg. Ég veit það ekki en hef mikið hugsað um það undanfarið.“

Ingólfur segist ekki hafa áður kynnst jafn mikilli áskorun og það er að ná góðri mynd af til dæmis ref. „Auðvitað tekur þetta á mann. Gríðarleg þolinmæði og mikil plönun. Svo er maður aldrei ánægður. Ég hef alveg náð nokkrum draumaskotum en ég man að í upphafi snerist þetta bara um að ná mynd af ref. Svo viltu fá skarpari mynd og svo viltu fá hann í svona ljósi. Þetta er bara endalaust. Það er alltaf hægt að gera betur.“

Ljósmyndin af refnum með músina í kjaftinum er dæmi um augnablik sem kemur eftir langa setu í byrginu, sem áður var skothús. „Þessi mynd er tekin á um þrjátíu metrum. Maður þarf að passa sig gríðarlega. Huga að andardrætti og ekki reka sig í eitthvað á borðinu hjá sér.“

Hefurðu gert öll mistökin í þessu?

„Að sjálfsögðu. Ég var búinn að vera að eltast við hvítan ref lengi og einn daginn var ég búinn að bíða í tólf klukkutíma og þá birtist hann. En akkúrat á því augnabliki fékk ég hóstakast og hann stökk í burtu. En þetta er bara eins og í laxveiðinni. Þú ert að eltast við einhverja stærð af fiski eða fá hann upp í yfirborðið eða bara eitthvað. Þetta er alveg eins, nema miklu erfiðara.“

Uglurnar eru verðugt verkefni segir Ingólfur. Talið er að um …
Uglurnar eru verðugt verkefni segir Ingólfur. Talið er að um tuttugu eyruglupör séu á Íslandi. Nýlega er komið í ljós að uglan flakkar mikið milli landa. Hún er einmana sál segir Ingólfur. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Hvaða dýr er erfiðast að mynda sem þú ert að eltast við?

„Það er sennilega brandugla og eyrugla. Svo er erfitt að komast í tæri við snæuglu. Þær koma sjaldan hingað. Ég hef þrisvar séð snæuglu hér á landi. Ég sá eina í fyrra og þar áður var það fyrir tuttugu árum. Það eru til einhverjar þjóðsögur um að snæuglan hafi verpt hér á landi. Ef hún hefur gert það þá er nokkuð víst að hún hefur ekki komið upp ungum. Við höfum ekki það fæðu framboð sem hún þarf til þess.“

En eyrugla og brandugla? 

„Eyruglan er örugglega landnemi en branduglan hefur sennilega alltaf verið hérna. Vísindamenn segja að það séu um tuttugu pör af eyrugla á Íslandi. Þannig að það er mjög erfitt að finna hana. Maður dettur ekkert um hana.“

Best er að finna og sjá uglur þegar þær eru …
Best er að finna og sjá uglur þegar þær eru með unga. Þá veiða þær allan sólarhringinn en þær falla vel inn í umhverfið í sínum náttúrulegu felulitum. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Ingólfur hefur myndað eyruglur og hann gefur ekki upp staðsetningar. Að hluta til er það til að verja þær ágangi. Ef hann deilir slíkri staðsetningu þá þarf það að vera aðili sem er á sömu línu, hvað varðar verndunarsjónarmið og hann treystir. „Þetta er bara eins og í veiðinni. Ef þú veist um eitthvað leyni leyni, þá hringirðu ekki í Tóta tönn,“ hlær Ingólfur.

Hann segir að branduglan sjáist oft í borginni eða útjöðrum hennar að vetri til. Á sumrin þegar hún er komin með unga veiðir branduglan allan sólarhringinn og þá er best að sjá hana. „En þú þarft samt að leita að henni því hún er í svo góðum felulitum og veiðir á ákveðnum svæðum og fellur vel inn í umhverfið. Flestir sjá henni bregða fyrir í tvær þrjár sekúndur og svo kannski aldrei meir. En það er töluvert af branduglu á Íslandi.“

Kvöldverður hjá branduglu. Mýs eru oft á matseðlinum.
Kvöldverður hjá branduglu. Mýs eru oft á matseðlinum. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Hann þekkir ekki tölur yfir áætlaðan branduglustofn hérlendis, en þekkir til þess að stór alþjóðleg rannsókn er nú gangi undir stjórn íslensks vísindamanns. Hann segir fram komnar athyglisverðar upplýsingar í tengslum við þessa rannsókn. „Þær eiga hvergi heima. Þær verpa kannski hér í sumar og er svo í Síberíu næsta vetur og Þýskalandi árið á eftir. Þetta er bara nýlega komið fram hvað flakkið á henni er í raun mikið. Án þess að vita það þá gerir maður sér í hugarlund að fæðuframboð og truflun spili þarna stórt hlutverk. Það er þekkt að hún forðast svæði þar sem er mikið af kráku og slíkum ránfuglum. Það er oft sagt að uglan sé einmana sál og það hati hana allir í dýraríkinu.“

Snæugla í þann mund að hremma lítið nagdýr í Kanada. …
Snæugla í þann mund að hremma lítið nagdýr í Kanada. Ferðin þangað átti að vera örugg. Annað kom á daginn. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Þú hefur tekið magnaðar myndir af snæuglu. Hvar gerðirðu það?

„Ég fór til Kanada og þetta átti að vera gefið. Svæðið sem ég fór á er þekkt fyrir að þar eru að jafnaði átta til tólf fuglar sem halda til þar. Þegar við komum var engin snæugla á svæðinu. Þannig að við þurftum bara að fara að leita og það í Kanada. Svo fundum við einn fugl og fengum með honum hálftíma til fjörutíu mínútur. Við sáum hana veiða tvisvar og svo var hún farin. En þetta gekk upp.“

Einstaklega skemmtileg mynd. Snæuglan svífur yfir Ingólfi. Það er engu …
Einstaklega skemmtileg mynd. Snæuglan svífur yfir Ingólfi. Það er engu líkara en þetta sé vatnslitlamynd þar sem hvíti litur uglunnar ber við skýjaðan himinn. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Í þrígang hefur Ingólfur farið að leita að einhverju sjaldgæfasta dýri jarðar og sennilega það sem erfiðast er að nálgast en það er snjóhlébarðinn. Tvisvar hefur Mongólía verið áfangastaðurinn og einu sinni Indland. Hann hefur sagt frá þessum ferðum í þáttunum Dagmál sem er að finna á mbl.is. Í síðustu ferð sem hann fór átti hann sérstaka upplifun og  komst afar nálægt snjóhlébarða.

„Við höfðum séð þrjá stálpaða snjóhlébarða. Þeir halda systkinahópinn í nokkurn tíma eftir að móðirin rekur þá í burtu. Þetta voru sem hálfvaxta dýr og við höfðum séð þá á löngu færi og vorum að reyna að koma okkur fyrir þannig að við næðum myndum af þeim. Við misreiknuðum þetta eitthvað og þeir voru ekki þar sem við áttum von á þeim. Þannig að við fórum að kíkja í hella og í einum hellinum fundum við þá. Ég sá strax tvo og fannst votta fyrir þeim þriðja í bakgrunni. Var samt ekki viss því það var frekar dimmt. Svo byrjar maður bara að hristast af spenningi og hættir að anda og reynir að taka mynd og það tókst. Ég keyrði shutter hraðan rosalega niður til að fá nothæfa mynd. Ég eiginlega skil ekki af hverju hún er ekki hreyfð.

Stálpaður snjóhlébarði í klettahelli í Mongólíu. Það sést móta fyrir …
Stálpaður snjóhlébarði í klettahelli í Mongólíu. Það sést móta fyrir öðrum fyrir innan. Þegar Ingólfur stækkaði myndina sá hann móta fyrir sjálfum sér speglast í augum dýrsins. Slík var nálægðin. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Svo var það ekki fyrr en löngu seinna að ég fór að hugsa hvort það væri eitthvað að mér. Það hvarflaði aldrei að mér að hann gæti stökkið á mig. Hann var ekki nema í rúmlega tíu metra fjarlægð. Ég tók svo eftir því þegar ég fór að skoða myndina að ég speglast í auganu á dýrinu. Ég stend í mikilli birtu og þegar ég stækkaði myndina upp þá speglast ég greinilega í auganu á snjóhlébarðanum. Það var svolítið öðruvísi. Maður á ekki von á því þegar maður er að mynda snjóhlébarða.“

Fram til þessa, áttu þér einhverja uppáhalds mynd?

„Já. Margar. En þetta er eins og að spyrja hvert er uppáhalds barnið þitt. Þú segir engum frá því,“ hlær hann hrossahlátri.

Hvað er framundan, fyrir utan að halda áfram að mynda dýr sem veiða á Íslandi?

„Það er ýmislegt. Ég er að fara til Svalbarða á næsta ári og enn til Mongólíu. Svo lætur maður sig dreyma um Grænland og Scoresbysund. Mig langar að mynda ísbirni.“

En það getur verið hættulegt. Verður þú þá vopnaður?

„Hættulegt og ekki hættulegt. Ég held að það sé ekkert hættulegt. Ég verð ekki vopnaður en það er krafa um að leiðsögumaðurinn sé vopnaður. Öllu atferli er stýrt af virðingu við dýrið og reynt að koma í veg fyrir það að dýrið sjái mann sem skyndibita. Ég þekki ekki margar sögur af því að ísbirnir hafi étið ljósmyndara. Þessir leiðsögumenn vita örugglega hvað þeir eru að gera.“

Hann er að eltast við þennan. Hvítir refir eru sjaldséðir …
Hann er að eltast við þennan. Hvítir refir eru sjaldséðir fyrir austan, þar sem Ingólfur býr. Nú þarf að ná fleiri myndum og við önnur skilyrði. Ljósmynd/Ingólfur Davíð Sigurðsson

Hvað ertu að mynda þessa dagana?

„Ég er að mynda refi. Það er nú ekki langt frá því að ég kom frá Mongólíu og það fer tími í að vinna úr þessu efni. En eftir að ég kom heim þá hef ég sérstaklega verið að elta einn hvítan ref. Þeir eru svo miklu sjaldgæfari hér fyrir austan. Það er miklu meira af brúnum ref. Það eru ekki nema um tvö prósent af refum hér hvítir. Svo eru þeir ljónstyggir því að það er verið að salla þá niður hér allt í kringum mig. Það gerir þetta enn meira krefjandi.“

Eru þetta ólíkir persónuleikar refirnir?

„Já. Þegar maður er búinn að fylgjast með þeim á afmörkuðu svæði í mörg ár þá lærir maður að þekkja þá og greina í sundur og já það er mikill munur á hegðan þeirra. Þetta er bara eins og að eiga fjóra labradora. Þeir eru allir labradorar en hver með sinn persónuleika. En til að sjá þetta þá þarftu náttúrulega að eyða miklum tíma í að fylgjast með dýrunum. Mjög miklum.“  

Fyrir áhugasama þá má benda á að Ingólfur heldur úti bæði rás á Youtube og einnig er hann duglegur á Instagram, þar sem hann finnst undir ingolfur.david.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert