Fimm mánaða og mættur í fyrstu veiðina

Feðgarnir veiða Korpu í gær. Úlfar Hrafn tekur smá kríu …
Feðgarnir veiða Korpu í gær. Úlfar Hrafn tekur smá kríu á meðan að pabbi kastar. Ljósmynd/Agnes Halla

Þessar veiðimyndir eru líkast til það krúttlegasta sem þú sérð í dag. Úlfar Hrafn Duret fimm mánaða fór í sinn fyrsta veiðitúr í gær með pabba og mömmu. Eins og myndirnar bera með sér var hann alsæll. „Það er engin ástæða til að bíða með það að kynna hann fyrir veiðinni,“ sagði Sigurður G. Duret faðir Úlfars Hrafns þegar Sporðaköst náðu tali af honum á bakkanum við Korpu í gær.

Feðgar á góðri stund. Úlfur Hrafn er alsæll og pabba …
Feðgar á góðri stund. Úlfur Hrafn er alsæll og pabba leiðist ekki. Korpa í baksýn og smá kalt en fjör. Ljósmynd/Sigurður G. Duret

Þetta er annar túrinn sem Sigurður fer í Korpu í vorveiðina að leita að sjóbirtingi í vor. Mamma, Agnes Halla var líka með í för. Allir voru vel klæddir enda vorið enn að spara sig. Úlfar Hrafn var mögnuðum heilgalla sem án efa margir veiðimenn væru til í að klæðast nú um stundir. Hann brosti sínu breiðasta og dottaði þess á milli. Meira að segja þegar pabbi setti í hann. Murrið í veiðihjólinu var eitthvað svo notalegt.

Farið yfir málin með mömmu, Agnesi Höllu. Ef Úlfar gæti …
Farið yfir málin með mömmu, Agnesi Höllu. Ef Úlfar gæti talað væri hann örugglega að spyrja, Við erum ekki hætt? Ljósmynd/Sigurður G. Duret

„Þessi galli er alveg frábær og hann fékk hann í skírnargjöf. Ég held að þessir gallar fáist í Fjallakofanum. Er ekki alveg viss. En þetta var mjög flott gjöf og nýttist svo sannarlega við þessar aðstæður. Úlfar Hrafn var mjög slakur og svaf aðeins þegar ég var að slást við fiskinn. Hann rétt vaknaði svo þegar við vorum búin að landa honum.“

Pabbi með ´ann en það er fínt að dotta aðeins.
Pabbi með ´ann en það er fínt að dotta aðeins. Ljósmynd/Agnes Halla

Sigurður segir að Korpan líti vel út. Hann gerði fína sjóbirtingsveiði fyrr í mánuðinum í henni. Hann mætti þá seinni part dags og gerði góða veiði. Landaði sex sjóbirtingum á tæpum tveimur tímum. „Ég var að veiða þetta á ómerktum veiðistöðum og líka fyrir ofan efstu staði sem eru merktir. En Korpan lítur vel út.“

Duret feðgar - eldri samsetningin. Sigurður og Alexander Myrkvi með …
Duret feðgar - eldri samsetningin. Sigurður og Alexander Myrkvi með birtinginn góða úr Læknum í Hafnarfirði síðasta haust. Ljósmynd/Agnes Halla

Sigurður hefur reyndar einnig komist í fréttirnar með eldri syni sínum. Hann og Alexander Myrkvi voru í haust að kasta flugum í Læknum í Hafnarfirði og þá tók skyndilega hjá þeim stóreflis sjóbirtingur. Alexander Myrkvi fékk að takast á við þennan myndarlega fisk sem var mun stærri en menn eiga að venjast í Læknum. Alexander er fjögurra ára og segir pabbi hans að hann sé alveg með veiðidelluna á hreinu og hafi nú þegar veitt slatta af fiski. „Það er bullandi áhugi þar en hann vill ekki sjá neitt nema fluguna. Vera með eins stöng og pabbi.“

Tær gleði. Alexander Myrkvi með fallega bleikju. Stangveiðin er fjölskyldusport.
Tær gleði. Alexander Myrkvi með fallega bleikju. Stangveiðin er fjölskyldusport. Ljósmynd/Sigurður G. Duret

Sigurður er liðtækur hnýtari þegar kemur að flugum og Alexander tekur fullan þátt í verkefni og hefur skoðanir á hvernig þær eiga að vera og hvaða litir henta. Hann hefur hannað sína eigin flugu sem pabbi setti saman.

Flugan sem Alexander hannaði en pabbinn hnýtti.
Flugan sem Alexander hannaði en pabbinn hnýtti. Ljósmynd/Sigurður G. Duret

En verkefni gærdagsins var að koma nýjasta fjölskyldumeðlimnum í fisk og það gekk svona ljómandi vel. Reyndar sofnaði hann aðeins, eins og komið er fram.  

Úlfar Hrafn tók fyrri vaktina með foreldrum sínum en eftir hádegi fór hann í pössun og þá gátu pabbi og mamma einbeitt sér að veiðinni í smá stund.

Hann er svona stór gæti Úlfur Hrafn verið að segja. …
Hann er svona stór gæti Úlfur Hrafn verið að segja. Korpa í gær. Ljósmynd/Sigurður G. Duret

Sporðaköst taka ofan fyrir þessum uppeldisaðferðum og það er greinilega aldrei of snemma byrjað að taka þau með og kenna þeim. Svo leiðir tíminn í ljós hvort áhuginn verði til frambúðar en öll börn hafa gaman af veiði, hvort sem áhuginn beinist fyrst og fremst að útiveru og nestinu eða veiðinni sjálfri.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert